29.12.1939
Sameinað þing: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

1. mál, fjárlög 1940

*Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti! Ég á fáeinar brtt., sem ég vildi leyfa mér að lýsa. Sú fyrsta er á þskj. 619,IX, og er þar farið fram á fjárveitingu til hafskipabryggju í Borgarnesi. Bryggjan var byggð 1930, en þá var ekki nema nokkur hluti verksins framkvæmdur. Á þeim tíma, sem liðinn er síðan, hefir hafnarsjóður safnað fé, sem gert er ráð fyrir, að lagt verði fram móti tillagi ríkissjóðs, en kostnaður við bryggjugerðina er greiddur að hálfu leyti úr ríkissjóði, en að hálfu leyti úr héraði. Eins og bryggjan er nú, er mjög erfitt að afgreiða stór skip við hana; sérstaklega er erfitt að láta Laxfoss liggja við bryggjuna í stórviðri, eins og oft vill verða á vetrum, og er því hin mesta þörf á því, að bryggjan verði lengd. Er þegar hafinn nokkur undirbúningur um framkvæmd verksins, og hefir verið gerð áætlun hjá vitamálastjóra. Er gert ráð fyrir, að kostnaður við að lengja bryggjuna verði um 32 þús. kr.: hefi ég því lagt til, að ríkissjóður leggi fram 16 þús. kr. að sínum hluta.

Ég vil geta þess, að ég hafði ekki í upphafi hugsað mér að bera fram þessa till. nú, en þar sem ég sá, að fram voru komnar fleiri svipaðar till., gat ég ekki staðið á móti kröfum kjósenda minna að bera fram þessa till., ef það mætti verða til þess að hrinda þessu nauðsynjamáli í framkvæmd.

Þá á ég aðra brtt. á sama þskj., undir XXI. lið, 1000 kr. byggingarstyrk til Magnúsar Ásgeirssonar skálds. Hann hefir nú fyrir einu ári síðan reist íbúðarhús að Síðumúla í Mýrasýslu og starfar þar að sinni þjóðkunnu ljóðagerð. — Magnúsi þarf ég ekki að lýsa, hann er einn bezti ljóðaþýðandi, sem við höfum átt, og mjög mikilvirkur, er honum gefst tóm til starfa. Það er svo um Magnús Ásgeirsson, eins og um marga aðra listamenn, að ef honum er búinn rólegur og góður samastaður, njóta hæfileikar hans sín miklu betur en ef hann þarf að flækjast úr einum stað í annan. Hefir þegar sézt mikill og góður árangur af því, að Magnús hefir búið sér þarna hentug starfsskilyrði, því að afköst hans á sviði bókmenntanna hafa verið margfalt meiri en áður. En Magnús er mjög fátækur maður og á erfitt með að standa straum af kostnaði við bygginguna.

Ég er sannfærður um, að menningarlífi landsins er betur borgið með því að verja þessum 1000 kr. til þess, að Magnús Ásgeirsson geti haldið bústað sínum, en þó þeim væri varið á margan annan hátt til bókmennta. Vænti ég, að hv. þm. hafi þann skilning á málinu, að þeir samþ. að veita þennan styrk.

Þá á ég brtt. á sama þskj., undir tölulið XXX. að hækka eftirlaun Jóns Jónssonar pósts í Galtarholti úr 300 kr. í 600 kr., en til vara í 500 kr. Jón var sem kunnugt er póstur í 20–30 ár á póstleiðinni frá Borgarnesi að Stað í Hrútafirði, og var það á þeim árum, þegar mikill hluti norðanpósts var fluttur þessa leið. Komst Jón þá oft í krappan dans, er hann lenti í hörðum veðrum að vetrarlagi, en þó held ég, að aldrei hafi orðið að verulegu slysi. Þurfti Jón að leggja mikið fé í þessa póstflutninga, t. d. var pósturinn einu sinni fluttur í 90 koffortum, og þurfti þá ærinn hestakost og útbúnað. Þegar svo var breytt um póstflutningana og Jón var sviptur þessu starfi, sat hann uppi með alla hestana og klyfsöðlana, en fékk engar skaðabætur. En þegar Sigurjón Sumarliðason póstur hætti póstferðum, fekk hann 3000 kr. í skaðabætur af ríkisfé.

Jón í Galtarholti er nú orðinn 60 ára gamall, og hann er maður félítill. Tel ég því ekki nema sanngjarnt, að hann verði tekinn í tölu þeirra pósta, sem hafa 500–600 kr. eftirlaun. Hefi ég lagt til, að eftirlaun hans verið 600 kr., en til vara 500 kr. vænti ég, að hv. d. samþ. þessa till. mína.

Þá er nýr liður, eftirlaun til ekkju Jóns Straumfjörðs, sem var eftirlitsmaður við pósthúsið í Reykjavík í 20 ár. Hann hafði látið af störfum áður en hann dó og hlaut 600 kr. í eftirlaun. Í hálft ár eftir fráfall hans naut ekkjan þessara eftirlauna, en síðan hafa þau fallið niður. Tel ég fordæmi fyrir því, að ekkjur starfsmanna hljóti eftirlaun, enda má og segja, að frú Ragnheiður hafi að sínu leyti staðið í starfi manns síns um eftirlit með pósthúsinu. Ég hefi farið fram á 400 kr. eftirlaun henni til handa, en til vara 300 kr., og vænti ég, að hv. þm. sjái sér fært að samþ. a. m. k. þá till.

Þá er brtt. á sama þskj., tölul. XXXIV, sem ég flyt ásamt hv. 8. landsk. Hann hefir þegar lýst þessari till. okkar, og vil ég aðeins árétta það að litlu leyti. Ég viðurkenni fyllilega þau rök, sem fram hafa komið, að það sé ekki heppilegt fordæmi að bera fram brtt. við fjárl. í heimildarformi. En vegna þess að upphæðin er allhá, og þar sem ástæða er til að óttast, að það ástand muni haldast, sem gerir nauðsynlegt að skera niður fjárframlög til ýmsra framkvæmda, álítum við, að hægara væri að draga úr þessu framlagi, ef það væri sett í heimildarformi, en ef það væri bundið með lögum. Af þessum ástæðum bárum við fram till. í heimildarformi, enda þótt það sé óvefengjanlegt, að áburðarsalan þurfi þessa stuðnings með, og af þeim ástæðum, sem nú skal greina. Á síðastl. vori, þegar gengislækkunin varð, var áburðarsalan búin að kaupa mikið af áburði, en ekki búin að greiða hann. Þetta orsakaði stórkostlega verðhækkun á áburðinum, en þar sem ekki mátti hækka verð á landbúnaðarafurðum á innlendum markaði samkv. gengisskráningarl., þótti ekki réttlátt að láta alla þessa hækkun koma fram á vörunni á þessu ári, og tók þá verzlunin á sig nokkuð af hallanum. Hallinn, sem af þessu leiddi fyrir áburðarsöluna, var það mikill, að í stað þess, að hún hafði 50 þús. kr. í varasjóði við síðustu áramót, er nú svo komið, að hún er komin í 90 þús. kr. skuld.

Nú er það sýnilegt, að ef það á að vera mögulegt að flytja áburð til landsins á þessu ári, er óhugsanlegt að velta þessari skuld ofan á verðhækkun á vörunni. Hinsvegar er áríðandi, að unnt verði að halda uppi garðrækt, og þá sérstaklega kartöflurækt í fullum krafti, bæði til þess að tryggja landsmönnum þessar afurðir, og eins til þess að auka atvinnu manna við þessar framkvæmdir, þegar aðrar greinar atvinnulífsins dragast saman. Ef þannig ekki væri hægt að flytja inn tilbúinn áburð, hefði það í för með sér stórkostlegan atvinnuhnekki fyrir þá, sem stunda garðrækt, og þá sérstaklega kartöflurækt, og auk þess myndi þá þurfa að flytja inn mikið af kartöflum til þess að fullnægja þörf landsmanna.

Ég myndi vera fús til þess til samkomulags að breyta þessari heimild í ákveðið framlag, ef hv. fjvn. kysi heldur, en ef þess er ekki óskað, geri ég ráð fyrir, að ég láti þessa heimildartill. standa.

Þá á ég brtt. á þskj. 637 ásamt hv. 1. þm. N-M., um að greiða til ræktunarsjóðs vangoldið framlag fyrir árin 1938 og 1939, 51424 kr. Þarf ég ekki að gera grein fyrir því, hvernig á þessari till. stendur, því það hefir hv. 1. þm. N.-M. þegar gert. Ástæðurnar eru í fáum orðum þessar, að ákvæði í l. um bráðabirgðabreyt. nokkurra laga um að fresta ákvæðum l. um greiðslu vaxtatillags til bænda, voru af ríkisstj. skilin á þann veg, að þau næðu einnig til Búnaðarbankans, þannig að ekki væri lengur skylt að greiða honum vaxtamismun á þeim vaxtabréfum, sem eru í umferð, og lánum, sem bankinn veitir. En nú eru af jarðræktarbréfunum goldnir 6% vextir, en bankanum er hinsvegar bannað að taka nema 5% vexti af þeim ræktunarsjóðslánum, er hann veitir, og verður bankinn því sjálfur að greiða þann vaxtahalla, sem af þessu leiðir.

Nú mun ekki hafa verið meiningin með bráðabirgðalögunum að svipta bankann þessum tekjum, og hefir þeim skilningi verið slegið föstum með breyt. á bráðabirgðaákvæðum og með brtt. fjvn., að þessi upphæð skuli haldast til Búnaðarbankans, og er þar með viðurkennt, að upphæðina hefði átt að greiða til bankans fyrir 1938 og 1939.

Mér hefir skilizt á hæstv. fjmrh., að hann telji sig ekki geta greitt þetta; nema skýlaus heimild komi til í fjárl. Vænti ég, að hv. þm. séu sjálfum sér samkvæmir og samþ. þessa till.

Á sama þskj. flyt ég brtt. ásamt hv. 8. landsk. vegna tilbúins áburðar; er það varatill., sem við bárum fram á eftir, að í stað 100 þús. kr. komi 70 þús. kr., ef fyrri upphæðin þætti of há.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á eina till. fjvn. á þskj. 587, 99, til loðdýraræktar. Í fjárlfrv. eins og það var lagt fyrir Alþ. voru ætlaðar 20 þús. kr. á þessum lið, en fjvn. leggur til, að liðurinn lækki í 14 þús. kr. Þetta hlýtur að vera gert af vangá, því að ef þessi till. væri samþ., myndi það verða til þess að leggja niður alla eftirlits- og fræðslustarfsemi, sem ráðunautur hefir haft með höndum. (BjB: Þetta er ekki rétt, ég gerði nána grein fyrir þessu í framsöguræðu minni.) Ef þessi till. verður samþ., þá verða aðeins 4 þús. kr. eftir til allrar starfseminnar, — launa ráðunaut, halda uppi skrifstofu og annast ferðakostnað hans. Það segir sig sjálft, að ekki er unnt að gera þetta fyrir 4 þús. kr., og er þetta þá sama og að leggja starfsemina niður. Það minnsta, sem þarf, er 10 þús. kr. Verð ég því, ef hv. fjvn. fæst ekki til að taka þessa till aftur, að leggja eindregið til við alla þá, sem vilja ekki leggja þessa starfsemi niður, að fella þessa brtt. fjvn. Sé það ekki gert, sé ég ekki annað ráð en að fresta framkvæmd l. um lánadeildina, því að eins og þetta liggur fyrir frá n. er óhugsandi, að þetta geti komið að notum.

Ég held, að ég þurfi svo ekki fleira um þetta að segja.