29.12.1939
Sameinað þing: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

1. mál, fjárlög 1940

Jón Ívarsson:

Ég á hér 2 brtt. á þskj. 639, sem ég skal fara örfáum orðum um. Sú fyrri er um það, að hækka lið í 13. gr., styrk til ferjuhalds, um 250 kr. Samkv. till. fjvn. verður þessi liður 2850 kr. Eru þar dregnir saman í eitt margir líðir, sem áður voru á fjárlfrv., og ætlazt til, að vegamálastjóri úthluti þessu fé. Ég hefi leyft mér að leggja til, að þessi liður hækki um 250 kr., og gangi sú hækkun til að kosta bifreiðaferju á Hornafjörð. Svo er mál með vexti, að nú á síðasta ári hefir verið farið inn á þá leið, að breyta veginum, sem farinn er úr Suðursveit í Austur-Skaftafellssýslu til Hafnarkauptúns. Er þá farin leið, þar sem er að nokkru leyti sjálfgerður vegur eftir sléttum söndum. Styttist leiðin við þetta um 10–12 km. Er þá ekki farið yfir Hornafjarðarfljót, heldur yfir Hornafjörð, og hefir verið til þess notuð ferja, sem hefir verið til þess gerð og er sæmilega stór til þess að flytja bifreiðar yfir fjörðinn. Það er allkostnaðarsamt að halda uppi slíkri ferju, sem von er til, og fer ég því fram á þessar 250 kr., svo að hægt sé að standa straum af þeim kostnaði. — Fyrir nokkrum árum var ráðgert í brúarlögum að koma brú á nokkurn hluta Hornafjarðarfljóts, yfir svokallaðan Prestsfitarál, en þessi brú mun falla niður, af því að aðalsamgöngur Suðursveitar .fara þessa leið, sem er 10–12 km styttri, og verður sennilega fljótlega horfið að því að taka þessa leið í þjóðvegatölu.

Þá á ég aðra brtt. á sama þskj., sem er um að heimila stj. að verja eftirgjaldi af lóðum og löndum í Hafnarkauptúni til varnar skemmdum á ræktuðu landi kauptúnsins. Um þetta er það að segja, að fyrir 10 árum fengu íbúar Hafnarkauptúns allmikið land til ræktunar, sem er í grennd við kauptúnið. Um 50–60 hektarar hafa komizt í rækt á þessu tímabili. Er þetta land til mikilla nytja fyrir alla, sem í kauptúninu búa, og byggist afkoma þeirra mjög á því. Af landi þessu fæst svo mikill afrakstur, að kauptúnsbúar, sem eru 230, geta haft þar 800 sauðfjár og um 70 mjólkurkýr. Auk þess fást af þessu landi um 1000 tunnur af garðmeti árlega. Þetta er því alldýrmæt eign, sem skiptir miklu máli, að ekki þurfi að ganga úr sér. En svo er máli háttað, að þetta land liggur meðfram Hornafirði, og um mjög langt skeið hefir það brotnað af völdum sjávar. Landið er því í nokkurri hættu, sem er mjög æskilegt að geta unnið bug á. Fyrir rúmu ári síðan var hv. 2. þm. Skagf., búnaðarmálastjóri, á ferð þar austur frá og skoðaði þetta land og þau spjöll, sem það verður fyrir. Áttum við þá nokkurt tal um þetta. Fannst okkur, að varna þyrfti landbroti með fyrirhleðslu á nokkrum stöðum. Þess vegna leyfi ég mér að fara fram á, að eftirgjald af öllu Hafnarkauptúni gangi til þess að greiða fyrir, að þetta yrði gert. Einn hv. þm. — ég held, að það hafi verið hv. 1. þm. N.-M. — minntist á þessa till. mína ásamt till. frá hv. þm. Vestm. og sagði, að hér væri verið að fara inn á braut, sem liti sakleysislega út, en væri ekki eins saklaus. Ég vil fullvissa Alþingi um það, að frá minni hálfu er eingöngu farið fram á, að eftirgjaldinu megi verja til að vernda þetta land fyrir sjávargangi og landbroti, sem þarna á sér stað. Þetta er í sjálfu sér ekkert nýtt, þó að það hafi ekki verið gert í Hornafirði, því að í fjárl. fyrir árið 1939 er samskonar heimild fyrir Vestmannaeyjar. Sannleikurinn er sá, að þegar náttúruöflin eru að verki, þá er mjög erfitt fyrir einstaka menn að standast þá raun að vernda landið, og er ekki nema eðlilegt, að ríkið hlaupi þar undir bagga.

Hv. þm. N.-M. hafa flutt hér till. um að bæta manni einum tjón, sem hann hefir orðið fyrir af völdum ofviðris. Það, sem hér er farið fram á, er í raun og veru sama eðlis, og mér er óhætt að fullyrða, að Alþingi hefir hvað eftir annað gengið inn á að gera slíkt, þegar þannig hefir staðið á. Það er miklu meira vert um það fyrir ríkið að vernda dýrt ræktað land en að brjóta óræktað land, sem ekki er fyrirfram vitað um, hversu mikils virði er. Ég skal geta þess, að allt þetta land er ríkiseign og var fyrir 10 árum síðan selt á leigu íbúum kauptúnsins á 12 kr. ha. Þá var það gersamlega óræktað, en kauptúnsbúar hafa ræktað það að fullu og greitt hið umsamda eftirgjald árlega. Með því, sem hér er farið fram á, er ríkið eingöngu að vernda sína eign, sitt eigið land og gera það verðmætara og að meira gagni en annars væri.

Um þessar tvær till. skal ég svo ekki segja meira, en ég get ekki stillt mig um að minnast á eina till., sem hv. fjvn. hefir borið fram. Það er till. um að veita fé til að gera flugskýli í Hornafirði. Síðasta sumar voru gerðar mjög ánægjulegar tilraunir um flug meðfram suðurströndinni og alla leið til Austurlands. Heppnaðist það ágætlega; voru farnar allmargar ferðir þessa leið, og varð aldrei neitt að. Það hefir sýnt sig, að á þessari leið eru einhverjir allra beztu flugvellir, sjálfgerðir svo að kalla, sem fáanlegir eru hér á landi. En til þess að flugferðir komi að fullum notum á þessári leið, er nauðsynlegt, að flugvélin geti haft skýli, ef veður breytist skjótlega, t. d. ef hvassviðri kemur, svo að ekki þurfi að leggja flugvélina í þá hættu. að hafa hana úti í vondum veðrum. Og þegar þess er gætt, að á þessari leið til Hornafjarðar er um hafnlausa strönd að ræða, sem skip geta ekki haft viðkomu á, og einnig að nokkru leyti um veglaust land, sem aldrei verður vegur lagður um, þá er það fullkomlega réttmætt og skynsamlegt að hlynna að því eftir föngum, að flugsamgöngur komist á á slíkri leið, og þá er þetta, sem hér er um að ræða, nauðsynlegur liður í þeim umbótum. Ég skal geta þess, að flugskýli það, sem ætlazt er til, að reist verði þarna, er fyrst og fremst miðað við þá flugvél, sem notuð hefir verið í þessar ferðir, en það er jafnframt ráðgert svo stórt, að það fullnægi flugvél, sem rúmaði 2–4 farþega. Það mark, sem kunnugir menn álíta, að við eigum að keppa að, er að eignast landflugvél, sem geti flutt 2–4 menn, og ef um flugsamgöngur er að ræða, kemur þessi leið fyrst til greina. Það er oft og tíðum svo, að yfir stórvötn þau, sem á leið þessari eru, verður ekki komizt nema í flugvél. Það er eins og kunnugt er mjög erfitt um póstflutninga á þessum slóðum, og gætu flugferðir mjög bætt úr þessu, eins og öllum má ljóst vera. Jafnhliða flugsamgöngum þangað austur þarf vitanlega að laga nokkuð flugvelli. Það hefir þegar að nokkru leyti verið gert. Þannig er í Vík í Mýrdal búið að laga flugvöll og einnig á Kirkjubæjarklaustri. En svo þarf að gera eða laga lendingarstaði fyrir flugvélar á leiðinni austur á Hérað frá Hornafirði.

Ég vona, að hv. Alþingi sjái sér fært að veita dálítinn styrk til þessara framkvæmda og samþ. till. þá, sem hér liggur fyrir.