29.12.1939
Sameinað þing: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

1. mál, fjárlög 1940

Ísleifur Högnason:

[frh.] : Þar sem upplýst er, að ágóði síldarverksmiðjanna muni nema kr. 4.50 á hvert mál, þá virðist ekki úr vegi, að sjómenn njóti þessara miklu hækkunar.

Viðvíkjandi kaupum á Húsavíkurverksmiðjunni er það að segja, að ég er ekki kunnugir þeim málum, að ég geti um það dæmt, hvort rétt muni vera fyrir ríkissjóð að kaupa hana. Frsm. fjvn. hélt því fram, að þetta væri hin beztu kaup. Húsavíkurverksmiðjan væri stórkostlegt gróðafyrirtæki, en hv. þm. Ísaf. heldur því aftur á móti fram, að fyrirtækið sé rekið með tapi. Þarna stendur hvor staðhæfingin gegn annari, en einkennilegt má það heita, ef Húsvíkingar hafa svo mikla ást á ríkissjóði, að þeir endilega vilja missa þessa tekjulind, svo ég geri ráð fyrir, að upplýsingar form. fjvn. séu ekki sem áreiðanlegastar, frekar en sumt annað, sem hann hefir hér sagt.

Af því ég hlustaði á bókmenntafyrirlestur hv. þm. S.-Þ. hér áðan, þá vildi ég leyfa mér að fara um hann nokkrum orðum. Eins og getið hefir verið um, fjallaði ræða hans aðallega um ákveðinn rithöfund, sem hann ekki nefndi með nafni, en allir hv. þm. hafa skilið, að var Halldór Kiljan Laxness. Hv. þm. S.-Þ. réðst að Halldóri K. Laxness með ofstækisfullum skömmum, — en fyrir hvaða sakir? Fyrir þær sakir einar, að mér virtist, að í bókum Halldórs K. Laxness kæmu fram ákveðnar persónur, sem hallað væri á, en þær geti ekki borið hönd fyrir höfuð sér, vegna þess að þær væru ekki nefndar með nöfnum. Nú er það mála sannast, að þessi rithöfundur er það mikið skáld, að menn mæta ekki á sögum hans einni persónu, heldur mæta menn á hverjum degi persónum, sem skáldið dregur upp. Ég minnist þess, að eftir að bókin „Sjálfstætt fólk“ kom út, þá skrifaði einn af flokksmönnum þm. S.-Þ. um aðalpersónuna í bókinni. Fyrst var talað um þessa persónu sem skáldskap höfundar bókarinnar, en þegar fram í greinina kom, tók greinarhöfundur að verja þessa persónu eins og hún væri lifandi. Þetta opnaði sérstaklega augu mín fyrir því, hversu mikið skáld Halldór K. Laxness er. Ég sannfærðist ennfremur um mat mitt á skáldinu í gær, þegar ég hlustaði hér á klukkustundarræðu eins af aðalsöguhetjum skáldsins í síðustu bók, Péturs Þríhross. Það leyndi sér ekki, það voru svo sláandi ummæli hv. þm., að þetta er lýsing á hans innra manni.

Að lokum vildi ég svo aðeins minnast á það, að mér fannst svar hv. frsm. fjvn. við fyrirspurn frá hv. þm. Vestm. um dýpkun Vestmannaeyjahafnar ekki vera tæmandi. Mér fannst það ekki koma skýrt fram, hvernig fjvn. skilur þetta atriði, hvort hún ætlast til, að Vestmannaeyjabær verði að lána dýpkunarskipið, hvort sem það þarf að nota það þar eða ekki. (BjB: Það er mjög ósennilegt). Ég vildi bara árétta þetta. Ég álít, að þetta yrði að vera komið undir samkomulagi. Ég tek þetta aðeins fram af því, að ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Vestm. vilji gjarnan fá þennan skilning fram í umr.