29.12.1939
Sameinað þing: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

1. mál, fjárlög 1940

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Nokkur atriði vildi ég taka fram til viðbótar því, sem ég tók fram í fyrri ræðu minni. Þá kom ég með fyrirspurn um kostnað af verzlunarfulltrúa okkar í New York og óskaði eftir upplýsingum um þau efni frá hv. fjvn. Til fulltrúans eru ætlaðar 75 þús. kr. Ég vildi nú spyrja, hvort ætlazt er til þess, að auk þess hafi hann „prósentur“ eða „provision“ af þeim vörum, sem að einhverju leyti ganga um hendur hans, — eða þá hverskonar samningar liggi fyrir viðvíkjandi þeirri verzlun, sem hann hefir með að gera. Mér finnst, að ef hann á að taka samskonar laun fyrir starfa sinn og aðrir verzlunar-agentar, sé miklu réttara af ríkinu að greiða honum enga beina fjárupphæð, heldur láta það eingöngu vera kaupsýsluatriði og á valdi þeirra einstöku aðila, sem þar eiga hagsmuna að gæta. Það er orðið öllum kunnugt, hve útflutningur og innflutningur til landsins er að verða „koncentreraður“ á fáar hendur, og það er alveg gefið, að þessir einstöku aðilar gætu haft samvinnu um málið. Ennfremur er kunnugt, að allmikill gróði muni eiga sér stað í útflutningsverzluninni og að ýmsir þeirra, sem með hana fara, þurfa ekki að borga neina skatta, a. m. k. ekki til ríkisins, svo að eðlilegt væri, að þessir aðilar legðu þó nokkuð af mörkum til tryggingar hagsmunum sínum vestra. Auk þessara 75 þús. kr. liggur nú fyrir brtt. frá nokkrum hv. þm. um 50 þús. kr. framlag til þátttöku í heimssýningu í New York, og yrðu þetta þá alls 125 þús. kr., sem verja ætti til að auglýsa okkur í Vesturheimi. Mér finnst, eins mikið og talað er um sparnað, sérstaklega á erlendum gjaldeyri, að Alþingi ætti að láta kaupsýslumennina sjá um þetta eina, nema að því leyti sem ríkisstj. gæti með þeim sterku tökum sem hún hefir á utanríkisverzluninni, beint viðleitninni í heilbrigða átt.

Um þá brtt. hv. fjvn. að hækka framlög til ísl. námsmanna erlendis úr 19200 kr. í 24 þús., nálega eins og við hv. 1. landsk. og hv. 4. landsk. lögðum til á þskj. 619, er gott eitt að segja. Við getum þá tekið okkar brtt. aftur, og ég vona, að hv. fjvn. verði ekki hrædd, þó að einhver segi, að þetta hafi hún tekið upp eftir „kommúnistunum“, sem hafi flutt till. eftir fyrirskipunum frá Moskva, svo að n. sé farin að berjast í þjónustu erlendra valda, eins og búast má við, að fram komi, eftir þeim undarlegu hugmyndum, sem búa nú í kolli sumra manna.

Hv. 4. þm. Reykv. ræddi mjög ýtarlega launakjör háskólakennara. Ég vildi minna á, að við sósíalistar flytjum brtt. um aukna fjárhæð til launa við háskólann, bæði til þess að opna möguleika til að bæta kjörin og til þess, að kennsla geti hafizt í fleiri deildum en nú og orðið fleiri námsmönnum að sem drýgstum notum.

Þá vildi ég benda á, að í brtt. fjvn. er gert ráð fyrir, að verðtollur og aðrir tollar af innfluttum nauðsynjavörum, sem í frv. voru tæpar 3 millj. kr., skuli nú hækka upp í 4 millj. kr., og er þá miðað við tollana eins og þeir verða eftir hinni nýju tollskrá. Að vísu veldur þar gengisbreyting allmiklu, en móti því vegur sú minnkun á innflutningi, sem fjvn. reiknar með. Hinsvegar var því haldið fram í sambandi við tollskrána um daginn, þrátt fyrir mótmæli okkar sósíalista, að breytingin á henni mundi ekki hafa í för með sér hækkun á tolltekjum, svo að neinu munaði. Meiri hl. milliþn. neitaði því sem einn nm. hélt fram, að tollarnir væru hækkaðir. Það, sem nú kemur í ljós með brtt. fjvn., þar sem búið er að vísu að taka tillit til gengisfalls og innflutningsrýrnunar, er, að með tollskránni hefir verið stýrt að því að hækka stórum tolla á almenningi í landinu, þvert ofan í yfirlýsingarnar hjá hv. forvígismönnum hennar hér á Alþingi.

Þá er stóra málið, kaupgreiðslur hins opinbera yfirleitt, sem ekkert er farið að gera í, sem vitað er, en hlýtur að hafa stórfelld áhrif á allar fjárhagsáætlanir ríkisins.

Á þskj. 649 eigum við sósíalistar brtt., sem í rauninni er aðeins leiðrétting á brtt. okkar á þskj. 619, þar sem það vantar að taka fram, að brúarstæðið á Jökulsá er fyrirhugað við Hjarðarhaga, en í brtt. stóð aðeins: „Jökulsá á Brú“, eins og áin er oft kölluð. Ég vil minna á, að brúin þarna er ákveðin í brúalögunum frá 1932, svo að brtt. okkar fer aðeins fram á, að þau séu framkvæmd í þessu atriði.

Ég vil svo að síðustu minnast á ummæli þeirra hæstv. atvmrh., hæstv. forsrh. og hv. form. fjvn. og Framsfl. í sambandi við afgreiðslu fjárl. í dag og nótt, sem leið, og að það er vafamál, hvort þm. eiga að fá að vera sjálfráðir gerða sinna við atkvgr., sem nú fer á eftir. Þeir tóku beinlínis fram, að það mættu þm. ekki vera, það dygði ekki, að þeir færu einungis eftir eigin sannfæringu, heldur yrði að kalla saman fundi í stjórnarflokkunum áður, þar sem ríkisstj. gæti gefið sínar fyrirskipanir. Við vitum það vel, að fyrst eftir að Alþfl. og Framsfl. tóku völdin með veikum þingmeirihluta, urðu þeir að beita hörðum flokksaga til þess að koma í veg fyrir, að aðrar brtt. næðu samþykki en þær, sem þeirra flokksmenn stóðu að. Hver þm. í flokkunum var skuldbundinn til að greiða ekki atkv. eftir sannfæringu, heldur eftir vilja flokksins. Nú er komið eins og við vitum, að 10 menn af 19 í Framsfl. geta ákveðið, hvernig flokkurinn greiði atkv., í Sjálfstfl. eru það 9 menn af 17, sem geta það, og í Alþfl. 4 af 7. Það eru þá 23 þm,, sem geta ákveðið, hvernig a. m. k. 43 af þm. skuli greiða atkv. Minni hluti getur skipað meiri hl. þingsins fyrir um smátt og stórt. Þetta eru handjárnin, sem nú eru líka komin í notkun í Sjálfstfl. og þm. verða að bera orðalaust. Við vitum, hvað gerðist síðustu dagana áður en þingi var frestað í vor, þegar það sást, að einstöku þm. vildu fara sínu fram, vitum, hvernig m. a. form. fjvn. gekk þá fram. Þarna er verið að gera ráðstafanir til þess að svipta þingmeirihlutann því valdi, sem hann áður hafði. Ástæðan er sú óánægja, sem grípur um sig meir og meir í öllum flokkum, sérstaklega Alþfl. og Sjálfstfl., svo að ríkisstj. fengi ekki við ráðið með öðru móti en grípa til kúgunarinnar og knýja þm. til að breyta út af fyrirmælum stjórnarskrárinnar um að greiða atkv. eftir eigin sannfæringu. Þetta er atriði, sem allir þm. verða að gera sér ljóst, og um leið hve mikið er í húfi, ef þeir láta stöðugt undan kúguninni. Það er í húfi, að Alþingi hætti þá að vera sú samkunda, sem stjórnar þjóðinni, en í staðinn taki ríkisstj. til að „diktera“ meiri hluta þm. þá skoðun, sem þeir eigi að hafa. Nú væri það kannske ekki svo hættulegt, ef ekki stæði svo á sem menn vita á Íslandi, að líf og afkoma ekki aðeins fjölda landsmanna, heldur mjög margra þm., er meira og minna komið undir geðþótta stj. Við vitum, að það hefir verið beitt hótunum í sambandi við undirskriftir á skjölum, sem senda átti til Alþingis, að starfsmenn opinberra stofnana hafa ekki fengið að framfylgja sannfæringu sinni í starfinu, heldur hafa fengið ákveðnar vísbendingar um það, að þeir gætu misst atvinnuna, ef þeir létu ekki undan. Þeir, sem voru viðstaddir síðustu ræðu Jónasar Jónssonar, hv. þm. S.-Þ., í nótt, sem leið, og bera hana saman við ræður ráðherranna, hljóta að taka eftir hinu sameiginlega markmiði þeirra. Það minnir á það, sem gerðist í öðru landi fyrir sex árum. Það var þegar fara átti að hreyfa við skuldavaldi júnkaranna þýzku, og þeir gerðu út mann, sem kallaði sig leiðtoga allra þeirra þjóðlegu. Honum tókst að ná bandalagi við ríkiskanzlara íhaldsins, Hindenburg gamla, og öfl, sem stóðu næst honum, til þess að skapa einræði afturhaldsins og júnkaravaldsins í landinu. Við vitum, hvað gerðist hér heima, þegar fara átti að hreyfa við skuldavaldi Kveldúlfs og gera það upp eftir landslögum. Þá varð það á stuttum tíma sterkasta valdið í ríkisstj., og sá maður, sem harðast og stórorðast hafði barizt á móti því, samdi við það og talar nú sem leiðtogi þeirra þjóðlegu á þann hátt, sem kæmi sér bezt fyrir Kveldúlf, ef hann væri beinlínis gerður út af honum; hann beitti nú nákvæmlega sama áróðrinum og hinn þýzki erindreki júnkaranna notaði til að eyðileggja frelsi þjóðarinnar, — að allir menn, sem væru móti honum og Kveldúlfsvaldinu, væru kommúnistar, og það þyrfti ekki að lýsa því, hvaða ógnarlýður það væri. Þess vegna bæri að fylkja liði gegn þeim og fela sér forystuna, og hann líkti baráttu kommúnista gegn sér við árás stórveldis á smáþjóð, þar sem höfuðorustur stríðsins voru eins og atkvgr. hér í þinginu um daginn, þegar 21 þm. lýsti sig andvígan því að fela þessum hv. flokksforingja dálítil völd, sem hann heimtaði. Hann lýsir því með skelfingu, hvernig háskólinn sé að mestu leyti fallinn í hendur hinnar erlendu háskastefnu, og rétt fyrir náð og kraftaverk hafi sér, JJ., tekizt að bjarga einhverjum hluta af háskólanum undan hinni ægilegu öldu bolsévismans. Orðum, sem áður voru fyrir neðan það að vera talin rök, þeim beitir hann nú sem rökum fyrir aðalatriðum stefnu sinnar, og þm. eiga að hlusta og trúa því, að þjóðin sé glötuð, nema hann ráði, og að vera móti honum í einhverju sé nokkurskonar glæpur gegn þjóðinni. Að vísu er meiri hluti þingmanna móti honum, en þeir þora ekki að sýna það berlega með atkv. sínu. Af þessum sama hv. þm. er nú stofnað til þess að reyna að hindra íslenzka rithöfunda í því að vinna þau verk, sem þeim finnst listin og skyldan heimta af sér. Það eru jafnvel gerðar ráðstafanir til að hindra, að þessir menn geti komið ritum sinum á prent hér á landi. Nú vita það allir í okkar þjóðfélagi, að til þess að ná samskonar árangri og nazistarnir í Þýzkalandi, þarf ekki að beita harðstjórn hér, ekki gera menn útlæga eða taka þá til fanga; það er nóg að beita því valdi, sem hér er beitt í stórum stíl, og það er atvinnukúgunin. Við vitum, hvaða vopn eru notuð af hálfu valdhafanna og eru enn notuð í Þýzkalandi, svo ég fer ekki frekar út í það. En ég ætla að draga hér upp litla mynd af afstöðu valdhafanna til vinnulýðsins. Ef einn maður hefir ekkert annað til þess að lifa af en það, sem hann getur unnið sér inn með höndum sinum, hvaða möguleika hefir hann þá til þess að lifa? Ef hann aðhyllist stefnu kommúnista, er hann útilokaður frá öllum atvinnurekstri og sérstaklega útilokaður frá allri atvinnu, sem ríkið eða hið opinbera hefir með að gera, svo framarlega sem hann fær ekki að hanga þar af venju eða lætur sem minnst á sannfæringu sinni bera. Ef hann getur nú ekki fengið atvinnu bjá öðrum, hvaða möguleika hefir hann þá til þess að skapa sér sjálfur atvinnu? Ef einhverjir vilja koma á fót atvinnufyrirtæki og í því sambandi þurfa auðvitað að flytja inn vörur, þarf að fá innflutningsleyfi hjá gjaldeyris- og innflutningsnefnd. Það hefir hvað eftir annað sýnt sig, að manni í slíkri aðstöðu er hér um bil alltaf neitað um innflutningsleyfi. Slíkum manni yrði einnig neitað um útflutning á framleiðslu sinni, enda er nú einokun á öllum útflutningsleyfum hjá yfirvöldunum. Það er því svo komið, að þeir menn, sem ekkert hafa nema hendur sínar eða heila að vinna fyrir sér með, hafa ekkert annað að leita til en sveitarinnar. Þannig er nú ástand þeirra manna, sem kjósa helzt að fylgja sannfæringu sinni. Með fjárl. hefir verið stefnt að því að láta pólitískar skoðanir manna og flokka ráða fjárstyrk til þeirra. Ég benti á það í sambandi við ríkisreikningana, hvernig hið opinbera ráðstafaði auglýsingum sínum, og hve það er partískt á því sviði. Það hefir sem sé verið fylgt þeirri reglu síðustu mánuðina, að allir starfsmenn hins opinbera hafa auglýst í blöðum stjórnarflokkanna, án tillits til þess, hvort fólkið almennt, sem þurfti að vita, hvað í blöðunum stóð, yrði þeirrar þekkingar aðnjótandi. Nú hefir hæstv. ráðh. upp á síðkastið fyrirskipað ýmsum embættismönnum úti á landi að auglýsa ekki í þeim blöðum, sem eru í andstöðu við ríkisstjórnina. Þetta er hlutdrægni, sem hvergi viðgengst á Norðurlöndum nema hér, og á sér yfirleitt hvergi stað í siðuðu þjóðfélagi. Þetta er einn liður í einræðispólitík núv. stjórnar, sem hún gerir sig seka um. Þetta er tilraun til að þagga niður alla gagnrýni í garð ríkisstj. og beita fjárhagslegri kúgun, til þess að koma málum sínum fram. Þetta gerir það beinlínis að verkum, að allir menn verða ekki jafnir fyrir lögunum, og um leið verið að misnota fé hins opinbera, sem allir, bæði einstaklingar og flokkar, eiga jafnan rétt til. Það er jafnvel svo langt gengið, að blöð Framsfl. eru styrkt með 12 þús. kr. á ári, sem þau fá frá ríkinu í auglýsingar, og þegar ríkið hefir ekkert að auglýsa og einstakar stofnanir þess, eru samt settar auglýsingar um ýmsar vörutegundir. Oft er þetta aðeins gert til þess að blöð stjórnarflokkanna fái peninga fyrir auglýsingarnar, en ekki til að selja þessar vörur. Þetta er einn liður í þeirri herferð, sem löggjöfin framkvæmir móti skoðanafrelsi og lýðræði í landinu. Réttindi landsmanna til að mega framfylgja sínum skoðunum eru hér fótum troðin.

Það mun nú koma í ljós við afgreiðslu fjárl. og hvernig hinum ýmsu till. reiðir af, hver afstaða flokkanna er til þeirra, ef áður hefir þá ekki verið gerð tilraun til þess að beygja vilja meiri hl. þm. undir vald minni hlutans. Ég vil lýsa því yfir, að ég álít, að full hætta sé á, að í þessu sambandi verði beitt samskonar aðferð og beitt var gegn stjórnarandstæðingum og gegn óánægju innan stjórnarflokkanna af valdhöfunum sjálfum. Það verður beitt því valdi, sem ríkið hefir með sínum miklu launagreiðslum, til þess að beygja sannfæringu þingmanna undir vilja löggjafarvaldsins. Þannig hefir ríkisvaldið íslenzka einskonar tæki til að hræða þjóðina, Hún fær engu að ráða, og löggjafarnir, sem hún kýs á þing, ráða sínum ráðum, og eru einráðir.

Ég vildi láta þetta koma fram við þessa umr. fjárl., áður en gengið er til atkv. Það er nú svo, að meiri hl. þm. fær ekki að koma vilja sínum fram fyrir ofríki ríkisstj., sem hikar ekki við að beita aðferð, sem hingað til hefir verið fordæmd. Ríkisstj. hefir með löggjöf, sem búið er að pína í gegn í þinginu, girt alveg fyrir möguleika manna til að geta bjargað sér. Mikill hluti þjóðarinnar er orðinn algerlega uppá ríkisvaldið kominn og leiðin til að leita sér bjargar alveg dæmalaus. Ég álít, að þetta sé einnig skoðun annara þm., a. m. k. meiri hl. þeirra, þó að þeir vilji ekki viðurkenna skoðun sína. En það er alveg óhætt fyrir okkur þm. Sósíalistafl. að segja sannfæringu okkar; við töpum ekkert á því. Það hafa nú verið teknir af okkar allir möguleikar til þess að koma fram okkar málum að sinni, og okkur er líka varnað þess að geta barizt fyrir sannfæringu okkar á þeim grundvelli, sem við helzt kjósum, en við látum ekki. hræða okkur á neinn hátt. Með ofríki sinu hefir einræðið rifið í burtu þann grundvöll undan fjármálum landsins, sem ætti að vera. Það kann að vera, að einræðið sigri í svipinn og því takist að beygja menn undir sinn vilja, en eitt er víst, að hversu sem stjórnarandstæðingar eru ofsóttir, þá mun baráttan halda áfram, og henni mun ekki lokið fyrr en sigri er náð. Það hafa áður verið löggjafar hér á landi, sem hafa gert tilraunir til þess að beygja þá, sem barizt hafa fyrir frelsi þjóðarinnar. Það tókst ekki að kúga þá, og þó að þjóðin liði undir einræði erlends kúganarvalds, tókst henni að sigra að lokum.

Ég vil að síðustu skora á hv. þm., þrátt fyrir allt það makk, sem á sér stað bak við tjöldin. þar sem þeir sjá, hvernig málefnum þjóðarinnar er komið, að láta ekki undan því óréttlæti, sem beitt er hvarvetna í sambandi við fjárlögin.