03.03.1939
Neðri deild: 12. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég hefi ásamt hv. 4. landsk. (ÍslH) borið fram brtt. á þskj. 35, um að 3. lið 1. gr. falli burt. Verði það samþ., mundi það þýða, að tekjur af tóbakseinkasölu rynnu samkv. l. frá 1931 til verkamannabústaða og til bygginga í sveitum, sinn helmingur í hvorn stað. Verði till. ekki samþ., þyrftu hv. þm. að hugleiða, hvaða afleiðingar það hefir.

Löggjöfin um byggingarsjóði í bæjum og sveitum er tvímælalaust ein sú róttækasta, sem hér hefir verið samþ. Stjórn, sem einu sinni kallaði sig stjórn verkamanna og bænda, ætti síðust að vilja eyðileggja hana, a. m. k. meðan ekki er búið að uppfylla brýnustu nauðsynjar þessara stétta í húsnæðismálum. En engum dettur í hug að bera móti því, að verkamenn hafi fulla þörf fyrir, að þessi styrkur héldist óskertur, svo að hægt væri að reisa meira af verkamannabústöðum.

Það er borið í vænginn, og nú í þriðja skipti í röð, að þetta létti ekki á atvinnuleysinu í ár — og sé því óþarft þeirra hluta vegna. Ég býst við, að flestir, sem héldu þessu fram á undanförnum þingum, muni viðurkenna, að atvinnuþörfin hafi ekki minnkað, og hún kunni að verða til árið 1940 líka. Þetta er engin afsökun fyrir að brjóta hér lögin frá 1931.

Þessi lög voru samþ. um líkt leyti og hafizt var handa að útrýma kjallaraíbúðum. Allir vita, að lagaákvæðin um þær hafa verið svo margbrotin, að þær hafa þrefaldazt síðan átti að útrýma þeim.

En um sveitirnar er það flestum kunnugt –og ætti þó að vera kunnugast þingmönnum Framsfl. —, hvort þeim veitir af sínum hluta þessa fjár. Ég veit ekki betur en búnaðarþing, sem nú situr, hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að af öllu, sem brýnt er í sveitum, væru húsabætur víða það brýnasta, til að bjarga heilbrigði fólks úr voða. Í sumum hreppum er talið, að ¾ bæjanna séu alls ekki mannabústaðir og allt komið að hruni.

Tekjur af tóbakseinkasölu síðastl. ár voru áætlaðar 600 þús. kr., en urðu yfir 770 þús. Þetta er því orðinn drjúgur skildingur, sem stolið er undan af fénu, sem átti að fara til að skapa alþýðu þolanleg húsakynni. Það hefði bætt mikið úr þörfinni, ef lögin hefðu verið haldin.

Ég vil líka undirstrika það, að það er mikið lýðréttindamál, að þau lög, sem samþ. eru fyrir þessa stéttir, fái að haldast í gildi. Þegar þessi lög gengu fram, voru þau einn liðurinn í samkomulagi Frams- og Alþfl., og traustið á heilbrigði þess bandalags og nothæfi byggðist á trausti á þessari gagnkvæmu hjálp alþýðunnar í sveit og við sjó. Þetta var svikið, og hvar er þá traustið? Og hvar er þá traustið á því, að nokkur umbótalöggjöf yfirleitt verði haldin af þessum flokkum, sem hafa snúið samkomulaginu upp í það að traðka niður sína eigin löggjöf?

Og hvað hefir gerzt með það, sem eftir stendur af lögum um verkamannabústaði og Alþingi hvorki upphafið né frestað? Það er gengið á sama lagið og farið að brjóta það líka, án þess að stjórnin treysti sér til að grípa fram í. Síðastl. 2 ár hefir Reykjavíkurbær ekki greitt til byggingar verkamannabústaða þær 2 kr. á íbúa, sem honum ber, og skuldar nú um 140 þús. kr. Auðvitað er það lagabrot. Og stundum, þegar einhver kemur upp með það, að verkamenn muni vera vísir til að fremja lagabrot, er hrópað á ríkislögreglu og herskip til að yfirstiga þá. En ef lög eru brotin hérna í næsta húsi við hæstv. forsrh., þá er það látið viðgangast ár eftir ár. Ég vildi skora á þá, sem þess eiga að gæta, að hvað sem nú verður samþ., reyni þeir að sjá um, að það, sem eftir er af lögunum um verkamannabústaði, sé ekki brotið.

En þess vil ég biðja alla þingmenn, að athuga, hvort þeir geti ekki samþ. þessa brtt., svo að réttur laganna frá 1931 haldist óskertur.