15.12.1939
Efri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Erlendur Þorsteinsson:

Við hv. 1. þm. N.-M. getum verið sammála um það, að það sé margt hér í þessu frv., sem ætti að hverfa burtu. T. d. mundi ég og mínir flokksmenn vilja, að 3. liður frv. falli niður, þannig að verkamannabústaðirnir gætu fengið þær tekjur, sem þeim eru ætlaðar með þeim l., sem þar er verið að fresta framkvæmd á. Hinsvegar verðum við að horfast í augu við þá erfiðleika, sem við höfum nú við að etja, og því er ekki undarlegt, þó það lendi einnig á þeirri stétt, sem Alþfl.þm. telja sig umboðsmenn fyrir á þingi.

Ég tel ekki nauðsyn á að rökræða nú um brtt., sem fyrir liggja, þar sem ég hefi farið þess á leit, að þær verði teknar aftur til 3. umr., svo að n. geti fengið tækifæri til að athuga þær áður en þær koma til atkvæða.

Vil ég ítreka þá ósk til flm. brtt. á þskj. 431 og 438, að hann taki þær aftur til 3. umr., og einnig til flm.brtt. 402, að þeir taki þær brtt. aftur til 3. umr.