15.12.1939
Efri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Þorsteinn Þorateinsson; Ég skal játa, að það eru ekki eiginlega „agitations“-till., þessar brtt., sem ég hefi gerzt meðflm. að á þskj. 402, því að ég veit, að það mælist illa fyrir að lækka þau tillög, sem þær eru um og mjög eru vinsæl úti um landið og menn hafa notið góðs af. En ef á að spara eitthvað á annað borð fyrir ríkissjóð á þessum tímum, þá verður einhverstaðar að bera niður. En það er segin saga, að viðkvæðið er hjá mönnum, þegar um sparnað er að ræða:

Takið ekki af þarna, heldur annarstaðar, — það er hægt að lækka þar. Svona gengur það koll af kolli.

En hv. 1. þm. N.-M. minntist aðallega á eina brtt. okkar fjvnm. á þskj. 402, um lækkun á tillagi til byggingar- og landnámssjóðs. Ég játa, að það er óþægilegt fyrir menn, sem búnir eru að byggja upp hjá sér og vonast eftir að fá lán úr sjóðnum, að þurfa að bíða með það. En við álitum, að hægt væri að lækka þetta tillag töluvert úr 200 þús. kr. En við lögðum ekki til, að lækkað yrði tillag til bygginga í sveitum. Ég lít svo á, að það verði að vera, en hinsvegar, að ekki muni verða byggt á næstu árum í sveitum til muna, svo framarlega að stríðið hætti ekki bráðum, og þá tel ég, að vel sé hægt að komast af með þennan styrk, sem ætlaður er til þess samkv. brtt. á þskj. 402. Bankastjóri Búnaðarbankans hefir getið þess, að hann væri búinn að gefa vilyrði fyrir 150 þús. kr. lánum til þessara hluta, og alls ekki meiru. Það eru vitanlega fyrir hendi beiðnir um lán, sem nema töluvert meiri upphæð. En ég tel, ef hægt væri að liðka eitthvað til um tillag til ræktunarsjóðs, þá væri hægt fyrir Búnaðarbankann að standa við sín loforð og hjálpa mönnum um víxla, svo að það kæmist í lag að miklu leyti; svo að ég sé ekki nauðsyn á að hafa tillagið meira en 125 þús. kr., eins og gert er ráð fyrir þarna í brtt. á þskj. 402. Þess vegna verð ég að andmæla skoðun hv. 1. þm. N.-M., að það eigi að fella þessar till. okkar.

Ég játa líka, að það er ekki þægilegt að fella niður þetta litla tillag viðkomandi tilbúnum áburði. Og sama er að segja um verkfærakaupasjóð. En við væntum þess þá líka, að það séu lækkuð hliðstæð tillög til handa mönnum við sjávarsíðuna. Það verður að vera jöfnuður á öllu slíku, hvort sem menn eru við sjó eða í sveit. Hvorirtveggja verða að reyna að sýna sanngirni um að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, eftir því sem hægt er. En við megum ekki rísa upp á móti því hver fyrir sig, þótt eitthvað sé dregið úr þeim minnst nauðsynlegu gjöldum eins og sakir standa.

Ég tel víst, að ég geti sagt það fyrir hönd minna samnm. eins og ég get sagt það fyrir mína hönd, að óhætt muni vera að taka brtt. á þskj. 402 aftur til 3. umr.