19.12.1939
Efri deild: 88. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég vil fyrst benda á það, sem mér þykja heldur skrítin vinnubrögð, bæði hjá hv. fjhn. og hæstv. fjmrh., að þær till., sem nú eru hér til 3. umr. og allar voru komnar fram við 2. umr., hafi enginn tími verið til að athuga. Ég hafði við 2. umr. framsögu fyrir mínum till., en það virðist hvorki hv. 1. þm. Reykv.hæstv. fjmrh. hafa heyrt. Síðan eru liðnir nokkrir dagar, en nú rís hæstv. fjmrh. og frsm. fjhn. upp og segja, að frv. sé ekki nóg athugað, því það hafi enginn tími verið til að athuga brtt. og kynna sér þær, þrátt fyrir það, að till. eru búnar að liggja fyrir þessari hv. d. í marga daga. Þetta finnst mér bera vott um miður mikinn áhuga fyrir málinu.

Hvað snertir það, sem hæstv. fjmrh. sagði um mínar till. og það, að um þær hafi náðst fullt samkomulag við bankastjórann hvað snertir framlagið til byggingar- og landnámssjóðs, þá skal ég segja, að mér er ekki kunnugt um það. Hitt er mér kunnugt um, að bankastjórinn gaf landbn. þær upplýsingar, að nú lægju fyrir loforð um 150 þús. kr. lánveitingar. Ég geri ráð fyrir, að hv. fjhn. hafi byggt áætlanir sínar á þessu atriði, þegar hún leggur til, að lækka skuli framlag til sjóðsins niður í 125 þús. kr. Þær tekjur, sem byggingar- og landnámssjóður hefir fram yfir ríkissjóðstillagið, sem nú á að lækka úr 200000 í 125000 kr., eru um 25000 kr., og mun bankastjóri þegar hafa lofað sem því svarar til lána til húsa, sem byggð voru í sumar. En jafnframt því, að búið er að lofa þessum lánum, þá veit t. d. hv. 1. þm. Eyf. um tvo menn í Eyjafirði, sem þurfa að fá lán, en ekki eru búnir að koma með sínar umsóknir, og við, sem kunnugir erum úti um land, vitum um hús hvarvetna á landinu, sem byggð voru í fyrra og þarf að fá lán handa eigendum þeirra, en þeir eru ekki búnir að senda umsóknir sínar vegna þess, að það er vani hjá bankanum að taka ekki ákvarðanir um, hverjir eigi að fá lánin, fyrr en í janúar eða febrúar. Þótt ekki sé búið að dragast á meiri lán en 150 þús. kr., þá þarf að lána meira út á þau hús, sem voru byggð í fyrra, svo allt í allt þarf a. m. k. 175-200 þús. kr., og síðastl. ár voru til 103 húsa lánaðar 370 þús. kr. Aftur á móti álít ég, að árið 1941 þurfi svo gott sem ekkert að lána, og þá má skera tillagið enn meira niður. Einn fjvnm. hefir haldið því fram við mig, að menn geti þá fengið víxla eða haldið áfram að skulda einstökum mönnum og verzlunum það, sem þeir hafa fengið lánað, þar til fé komi í sjóðinn 1941. Það er að vísu hægt, en mundi valda mönnum ýmiskonar óþægindum, þar sem þeir geta þá ekki staðið við það, sem þeir hafa lofað í trausti þess, að þeir fengju þessi lán.

Því vil ég nú eindregið biðja hv. fjhn., þótt hún hafi ekki athugað till. neitt eða einu sinni haldið fund til að ræða þær þá daga, sem þær eru búnar að liggja frammi, að athuga málið nú, og vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann fresti málinu, svo hv. n. gefist tækifæri á að athuga það rækilega.

Þótt ég sé áður búinn að mæla fyrir brtt. mínum, þá vil ég nú segja um þær nokkur orð, þar sem út lítur fyrir, að hv. 1. þm. Reykv. og hæstv. fjmrh. hafi ekki heyrt það, sem ég þá sagði.

Hæstv. fjmrh. er nú að lesa bréf frá bankastjóra Búnaðarbankans um ræktunarsjóð, og mun hann þá sjá, hvernig hag hans er komið. Ríkið hefir skyldað hann með lögum til að veita bændum fasteignaveðslán gegn 5% vöxtum, en jafnframt voru sett ákvæði um, að ríkið skuli greiða þann vaxtamismun, er yrði af þeim bréfum, sem eru í umferð. Þetta hefir ríkið ekki gert, því 17. liður í þessu frv. ákveður, að fresta skuli þessari greiðslu, en varatill. mín beinist að því, að ræktunarsjóður fái a. m. k. þennan vaxtamismun greiddan þar til útlánsvöxtum hans er breytt. Hv. 1. þm. Reykv. hélt því fram, að þetta tillag hefði alltaf átt að greiða. Það hefir e. t. v. verið tilætlun hans og annara hv. þm., sem samþ. þessi l., að svo yrði, en ríkisstj. hefir ekki litið svo á það, því hún hefir síðan 17. liður þessa frumv. var samþ. á síðasta þingi ekki greitt bankanum vaxtamismuninn. En þar sem hv. 1. þm. Reykv. var í n., sem um málið fjallaði, og hefir lagt þann skilning í 17. lið, að það bæri að greiða ræktunarsjóði vaxtatillag á bréfin, þá má vænta þess, að skýring hans hafi hér þýðingu og geti leitt til, að þetta verði leiðrétt.

Ég legg til, að 17. liður verði felldur niður, fyrst og fremst vegna þess, að þeir menn, sem þurfa að skipta við útibú bankans, sérstaklega austan lands, þurfa margir hverjir að greiða 6½ upp í 7% vexti, og finnst mér ekki nema sanngjarnt, — og það munu víst allir vera mér sammála um, — að fasteignaveðslán megi ekki vera dýrari en 5%, en til þess verður þetta ákvæði að haldast.

Hvað snertir brtt. mína við 11. lið, þá er ég áður búinn að benda á það, en skal samt endurtaka það nú, að samkv. jarðræktarl. frá 1931 er ákveðinn viss styrkur til ákveðinna hluta, svo það fer eftir því, hve margir bændur eru í þessum samtökum, hve mikið eyðist. Það er eins með búfjárræktarlögin og jarðræktarl., þar er ákveðið, hve mikill styrkur fáist út á hverja kú, hverja hryssu og hvern búanda, sem er í fóðurbirgðafélagi, og útgjöld verða eftir því meiri, sem þátttakan er meiri í félagsskapnum, og eftir því sem félögunum fjölgar, verða fjárframlögin að vaxa. Þótt ekki sé hægt að segja um það með vissu, hve mikið þessi félagsskapur muni vaxa á árinu 1940, þá er ég viss um, að eins miklu þarf a. m. k. að eyða til hans og ég hefi áætlað, en ég veit um 9 nautgriparæktarfélög, sem á að stofna, og hv. n. getur fengið upplýsingar um það hjá Halldóri Pálssyni, hve mörg fóðurbirgðafélög og sauðfjárkynbótafélög er verið að stofna, en ég þori að fullyrða, að fóðurbirgðafélögin verða ein 30 eða 40 og fjárræktarkynbótafélög eru nú þegar 2 til, en koma ekki á styrk samkv. núgildandi f. fyrr en á árinu 1940. Mér virðist óhjákvæmilegt að hækka þessa upphæð. Aftur á móti má deila um það, hve mikið megi fella niður af 8. lið. Það er ætlazt til, að ræktunarsjóður geti lánað. En ekki er mikið samræmi í því, að þegar verið er að tala um að flytja fólkið úr þéttbýlinu aftur út í sveitirnar, þá á að loka fyrir, að ræktunarsjóður geti veitt bændunum lán til ræktunar og annara framkvæmda í sveitunum, svo þeir geti látið fólkið fá vinnuna. Þetta er líkt og með framlagið til fiskimálasjóðs, sem hv. 10. landsk. var að tala um, að jafnframt því, sem við óskum eftir, að sem flestir fái atvinnu við bátaútgerðina, þá er kippt að sér hendinni með allan styrk til bátasmiða. Ekki einungis er minnkað framlagið til fiskimálanefndar, heldur líka til fiskveiðasjóðsins í Útvegsbankanum. Þessari stefnu er ég á móti. Annaðhvort er að veita svo mikið fé til atvinnuveganna, að menn geti fengið lán til atvinnurekstrar, eða það þýðir ekkert að vera að tala um að setja menn hingað og þangað til vinnu, hvorki á landi eða sjó. Ekki einasta er allur fjárstyrkur tekinn af ræktunarsjóði með þessu frv., heldur er hann einnig skyldaður til að borga 26 þús. kr. með þeim lánum, sem hann er búinn að veita.

Þótt hv. dm. kunni að vera mér ósammála um sumt af því, sem ég hefi sagt, þá hljóta samt þeir af þeim, sem talað hafa um að auka þurfi atvinnuna, að vera mér sammála, því annars eru þeir ekki lengur samkvæmir sjálfum sér.