20.12.1939
Efri deild: 89. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Jónas Jónsson:

Ég ætla að segja fáein orð út af einum af þessum gömlu liðum í frv., sem staðið hefir síðan 1932. Ég ætla ekki að tala um aðalatriðið, að þjóðleikhúsið var svipt öllum sínum tekjum, eða koma með brtt. í því efni. Ég ætla aðeins að láta hv. þd. vita, að það getur skeð, þó að þetta verði samþ., að það komi fram brtt. við fjárl. um að verja 45 þús. kr. til þess að laga neðstu hæðina í þjóðleikhúsinu fyrir þjóðminjasafnið. Ég ætla ekki að þreyta hv. þd. með umr. um þetta nú. Ég vil aðeins benda á, að fjölda manna stendur stuggur af því að hafa þjóðminjasafnið uppi á lofti undir timburþaki, þar sem það gæti brunnið á 10 mín.

Ég hefi fengið húsameistara ríkisins til þess að athuga, hvernig á þessu mætti taka. Hann álítur, að það mætti fá á neðstu hæð þjóðleikhússins sal fyrir þjóðminjasafnið, sem yrði nokkuð miklu stærri en það húsrúm, sem það hefir nú. Þar að auki ætti það að vera óhugsandi, að það brynni þar.

Þessi viðgerð, sem hann álítur, að megi framkvæma þarna fyrir 45 þús. kr., inniheldur líka hitaleiðslur fyrir væntanlega hitaveitu.

Ég vil svo að lokum segja, að það er alveg óforsvaranlegt að hafa þessa dýru hluti þar, sem þeir nú eru. Það hefir stundum verið talið, að það mætti selja Valþjóðsstaðarhurðina fyrir millj. kr., þó ekki sé fleira talið.