20.12.1939
Efri deild: 89. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Ég get verið stuttorður um þetta, því hv. 1. þm. Reykv. hefir tekið fram þau rök, sem þurfti, til þess að andmæla skoðun hv. 1. þm. Eyf.

Ég vil þó segja, að það, sem fyrir okkur vakir, er að tryggja það, að úr ríkissjóði sé hægt að verja allt að 100 þús. kr. til að styðja mótorbátaútveginn og viðhalda og byggja frystihús. Ef fiskimálasjóður fær nægilegar tekjur annarstaðar frá, þá þarf ekki til þess að grípa, að fé sé veitt úr ríkissjóði.

Ég vil endurtaka það, sem hv. 1. þm. Reykv. drap á, að ef skilningur hv. 1. þm. Eyf. er réttari, þá er eðlilegt, að 4. brtt. á þskj. 402 sé tekin aftur og ákveðið sé í fjárl. um þessar 100 þús. kr.

Þegar verið var að ræða um þetta í gær í fjhn., þá taldi hv. 1. þm. Eyf. varasamt að slíta þetta í sundur, því í l. stæði, að greiða skyldi árlega 400 þús. kr., en ekki allt að 400 þús. kr. Það væri því vafasamt, hvort ekki bæri að líta á þetta sem fyrirskipun til ríkisstj. um að greiða 400 þús. kr. í fiskimálasjóð, en við, sem að till. stöndum, höfum fallizt á, að nægilegt væri að veita 100 þús. kr. í þessu skyni.

Mér hefir því skilizt á því, sem fram kom áðan, að hv. 1. þm. Eyf. hafi skipt um skoðun, og það sé því hin eðlilegasta afgreiðsla, að báðar þessar till. séu teknar aftur.