20.12.1939
Efri deild: 89. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Bernharð Stefánsson:

Það er ekki rétt hjá hv. 1. þm. N.-M, að fjhn. hafi ekki gefið sér tíma til að athuga allar till., sem fyrir lágu. Það gerði hún, enda tók hún afstöðu til þeirra allra, þótt hitt sé rétt, að það fórst fyrir, að búnaðarmálastjóri ætti tal við n. Hann hafði þó verið boðaður á fundinn, sem n. hélt um þetta mál, en það stóð svo á þegar hann kom, að hæstv. fjmrh. var þá til viðtals hjá n., og búnaðarmálastjóri kom ekki aftur. En ég geri ráð fyrir, að hv. 1. þm. N.-M. sé þessu máli eins kunnugur og hann. Ég býst við, að rök búnaðarmálastjóra séu svipuð og við höfum nú heyrt færð fram í þessu máli. Það er alrangt, að við höfum ekki gefið okkur tíma til að athuga þær till., sem fyrir lágu. Að öðru leyti ætla ég ekki að tala fyrir hönd n., því að það gerir hv. frsm.

Það er misskilningur hjá hv. 10. landsk., að ég hafi skipt um skoðun síðan í gær. Ég játa, að í fyrstu virtist mér, að 4. till. á þskj. 402 mætti falla niður, þar sem aðeins sé um heimild að ræða í l. um fiskimálasjóð. En ég vona, að hv. 10. landsk. muni það, að þegar við lásum þau l. og veittum því athygli, að þar er einungis talað um 400 þús. kr., en ekki „allt að“ 400 þús. kr., þá virtist mér, að það gæti orðið árekstur úr því, ef þetta ákvæði stæði í l. um fiskimálasjóð, en svo væri felld niður úr fjárl. þessi heimild. Þess vegna var það, að við nánari athugun á fundi í fjhn., sem haldinn var í gær, sýndist mér ekki ráðlegt að taka till. aftur. Allt öðru máli er að gegna um þá till., sem meðnm. mínir bera fram, þar sem þeir segja „allt að“ 100 þús. kr. Vitanlega er alveg frjálst, hvort greidd er 1 kr. eða 100 þús. kr., ef þeirra till. verður samþ. Þess vegna álít ég, að það sé svipuð afgreiðsla á málinu í sjálfu sér, hvor till. er samþ., því að í raun og veru er öll skylda til þess að verja af útflutningsgjaldi til fiskimálasjóðs burtu fallin, hvor till. sem verður samþ.

Þetta er nú mitt 19. þing, svo að hv. 1. þm. Reykv. þarf ekki að fræða mig á því, að þegar mál, sem kemur frá Nd., tekur breyt. hér í d., þá þarf það að fara aftur til Nd., en það er aðeins hitt, að það er tafsamara, ef ágreiningur yrði milli deilda um þetta atriði, og gæti farið svo, að málið þyrfti að fara í Sþ. En mér þykir nú líklegt, að bráðum sé komið að þinglokum. Það var einu sinni talið sjálfsagt mál, að þingi yrði lokið fyrir jól. Nú eru víst orðnar litlar vonir um það. En mér þætti trúlegt, að því yrði a. m. k. lokið fyrir áramót. En ef menn fyrir smávægileg atriði og eiginlega þýðingarlaus vilja stofna til þess að þvæla málum milli d., þá gæti svo farið, að brygði til beggja vona um, að þingi lyki á þessu ári.