02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Skúli Guðmundsson:

Á þskj. 620 flytur fjhn. brtt. um að fella niður að prenta umræðupart Alþt. fyrir árið 1940. Það er nú ekki í fyrsta sinn, sem till. kemur fram um þetta á Alþ., annaðhvort að fresta að prenta Alþt. eða um það, að hætta að láta skrifa niður ræður manna og birta þær. En slíkar till. hafa ávallt verið felldar. Síðast var þetta til umr. árið 1935; þá bar fjvn. fram slíka till., sem var felld af Sþ., og þar sem mikill meiri hl. þeirra manna, sem þá greiddu atkv. gegn till., eiga nú sæti á Alþ., vildi ég vænta þess, að þau yrðu afdrif þessarar till., að hún yrði felld. Eins og hv. 2. þm. Skagf. tók fram og vitað er, þá hafa þingtíðindi verið prentuð allt frá því Alþ. var endurreist, nærri því um 100 ára skeið. Þrátt fyrir það, þó að ekki birtust orðréttar ræður manna, þá eru þær samt mikilsverðar heimildir fyrir nútímamenn, sem fylgjast vilja með störfum þingsins, og eigi síður mun það þegar frá liður verða talin söguleg heimild, þrátt fyrir það, þó að ekki birtist orðréttar ræður manna. Ég er því í engum vafa um, að það myndi fordæmt af ýmsum seinni tíma mönnum, ef hætt yrði að prenta þingtíðindin. Það má einnig benda á, að sem betur fer er ekki það hallæri hér á landi nú, að ástæða sé til þess að láta hætta að prenta þingtíðindin. Það má benda á, að á hinu mikla hallæristímabili, sem gekk yfir landið 1880 til 1890, var þessu haldið áfram, enda þótt þau útgjöld, sem af þessu stöfuðu, væru þá miklu stærri hluti af útgjöldum ríkisins heldur en nú er. Þessi útgjöld eru nú hlutfallslega miklu minni en þau hafa nokkru sinni áður verið. Ég tel það mjög illa ráðið, ef farið verður á þennan hátt að loka þinginu að verulegu leyti fyrir mörgum landsmönnum. Ég vil benda á það ennfremur, að einmitt með því að gera þessar ráðstafanir, sem hér er lagt til, þá er þeim mönnum, sem eru á móti þingræðinu, gert léttara fyrir en áður að bera fram við landslýðinn ýmiskonar blekkingar um það, hvað gerist á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Það er ekki rétt af okkur að draga á þennan hátt úr þeim upplýsingum, sem almenningur getur fengið af störfum þingsins. Ég vil að síðustu henda á í sambandi við þessa till. um að fresta prentun Alþt. árið 1940, að þingið fyrir það ár er ekki byrjað, en ef útlitið verður svo ískyggilegt, þegar þingið hefst, að þessi ráðstöfun þyki nauðsynleg, þá er nógur tími til að bera slíka till. fram þá; það er engin þörf á því að lögfesta slíkt nú. Ég vil vænta þess, að hv. þd. felli þennan lið till., og vil jafnframt vænta þess, að forseti beri hann upp sérstaklega.