17.04.1939
Neðri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

6. mál, lax- og silungsveiði

*Steingrímur Steinþórsson:

Ég vil aðeins segja örfá orð af því að ég og hv. 6. landsk. gátum ekki orðið sammála meiri hl. landbn. um að leggja til, að þessi brtt. við frv. yrði samþ.

Með fyrri brtt. við 1. gr. frv., a-liðnum, er gert ráð fyrir, að ráðh. megi veita undanþágu hverjum sem er, þar sem frv. gerir aðeins ráð fyrir, að veita megi slíka undanþágu veiðifélagi. Ég get ekki fallizt á, að rétt sé að veita öðrum en veiðifélögum slíkar undanþágur. Þar sem margir veiðendur eru við sömu á, kemur til dæmis ekki til mála, að einum þeirra sé veitt undanþágan, og yrði þá að velta þeim öllum. Að vísu getur staðið svo á, að einn sé eigandi að veiðivatni öllu, en það er þó sjaldgæft. Ég skal þó játa, að mér finnst þetta smátt atriði. — Um b-lið brtt. þarf ég ekki að ræða, því að í n. var enginn ágreiningur um hann.

En aðalatriðið er 2. brtt., þar sem meiri hl. n. leggur til, að heimilað sé að veiða lax í sjó í lagnet eða króknet. Hv. frsm. segir, að þeir hafi ekki viljað brjóta meginstefnu þá, sem tekin hafi verið með laxfriðunarl., en ég held, að sú stefna hafi einmitt verið að banna alveg laxveiði í sjó. En hér er einmitt stefnt að því að brjóta þá meginreglu, því að þegar búið er að rétta litla fingurinn, þá verður vafalaust lengra gengið síðar.

Það er víst, að á síðari árum hafa útlendingar farið að veita veiðiám vorum vaxandi athygli. Sú eftirtekt byggist einkum á því, að við höfum svo stranga löggjöf um það, að ekki megi veiða lax í sjó. Myndi það vafalaust spilla hinu góða áliti útlendinga á okkar ám, ef farið væri að setja þessa undanþágu inn í l.

Annað, sem hefir aukið álit á veiðiám okkar undanfarin ár, eru félög þau, sem víða eru komin upp við veiðiárnar.

Ég vil því af framangreindum ástæðum vara hv. deild eindregið við því að fara nú aftur að leyfa laxveiði í sjó. Hv. frsm. var með ýmsar skýringar um það, að hart væri, er lína væri dregin þvert yfir víkur og voga og svo ákveðið, að öðrumegin skyldi vera sjór, en hinumegin ekki sjór, þó að báðumegin væri Atlantshafið. Þetta er ef til vill rétt, en það er nú svo um allt, að einhverstaðar verður að setja takmörkin. Það er svo um náttúruna, að þar er hvergi um þrep að ræða, heldur eiga sér þar stað smám saman breytingar, og þær ekki stórstígar.

Annars sé ég ekki ástæðu til að halda langa ræðu um þetta, en ég er mjög ákveðinn á móti því, að við förum á nokkurn hátt að slaka til í þessu grundvallaratriði.