02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Jón Pálmason:

Ég geri ráð fyrir, að hv. þd. hafi veitt því athygli, að ég hefi flutt brtt. við frv. ásamt hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Rang. Brtt. er á þskj. 635 og fer fram á það að fresta á þessu ári framkvæmd l. um eftirlit með opinberum rekstri, svokölluðum rekstrarráðum. Eins og menn muna, var þessi löggjöf sett 1935 á þeim grundvelli, að þetta ætti að vera áhrifaríkt vald, sem ætti að koma í veg fyrir, að það fé yrði misnotað, sem Alþ. veitti, og að það færi ekki fram úr áætlun. Nú hefir reynslan orðið sú, að þessi löggjöf hefir haft litla þýðingu. Þess vegna er það, að fjvn. hefir lagt til, að framkvæmd þessara l. falli niður næsta ár. Ég skal geta þess strax, að till. er miðuð við það, að þessi l. væru til umr. og afgreiðslu fyrir áramót. Þess vegna stendur, að umboð þeirra, sem um ræðir í þessum l., falli niður frá 1. jan. 1940. Af því nú er komið fram yfir áramót, er rétt að flytja skrifl. brtt. við þessa grein, að í staðinn fyrir „l. jan.“ komi: nú þegar. — Ég skal svo ekki fara um tillöguna fleiri orðum.

Út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. og hv. 2. þm. Skagf. sögðu um brtt. þá, sem komið hefir fram um að fresta prentun Alþt. fyrir árið 1940, vildi ég segja nokkur orð. — Till. þessi er, eins og menn vita, runnin frá hv. fjvn., eins og margar till. hér. Þessi till. er um það, að draga saman þann kostnað, sem hjá ríkinu hefir verið undanfarin ár; hún er einn liður í því kerfi, sem n. hefir hugsað sér til þess að færa niður gjöld, sem á ríkinu hvíla. Það eru þó fáar till. í þessu kerfi, sem miða að því að færa niður gjöldin.

Ég verð að segja það hvað mig snertir, að ég mundi aldrei hafa gengið inn á það, að færa niður gjöld á fjárl. til nýbýlasjóðs, hefði ég ekki búizt við, að það ætti að ganga miklu lengra í því að færa niður þau gjöld, sem ekki eru nauðsynleg, t. d. elns og það, að fresta prentun Alþt. Ég skal þó játa, að það er minni ástæða til þess að samþ. hana en ella myndi, af því að þingið hefir ekki lagt rækt við að lækka útgjöldin á öðrum sviðum. Eigi að síður verður að taka það til athugunar, hve miklu sé sleppt við að samþ. þessa till. Ég skal ekki halda um það langa ræðu, en aðeins geta þess, að aðstaðan er breytt frá því, sem áður hefir verið, þar sem landsfólkið fær nú útvarpsfréttir af því, sem gerist á þinginu. Menn hafa einnig tækifæri til þess að fylgjast með blöðum landsins. Þar að auki er til þess ætlazt, ef þessi till. verður samþ., að ræður manna séu skrifaðar á þinginu eftir sem áður og handritin geymd. Út í þetta skal ekki farið lengra, því það er sjálfsagt nokkurn veginn ljóst fyrir öllum þm., hvað hér vakir fyrir, því hér er um að ræða 40 þús. kr. útgjöld, og um það hvort þessi gjöld eigi að spara eða ekki. Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en leyfa mér að afhenta hæstv. forseta skrifl. brtt.