02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Pétur Ottesen:

Það fara nú að ganga nokkuð víða umr. um þessi mál. Þær byrjuðu í sambandi við annað frv., sem hér liggur fyrir. Ég vil þó segja það út af því, sem fram hefir komið hér, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er einn liður í því samkomulagi, sem orðið hefir innan stj., eftir því sem ég bezt veit, um að greiða götu ýmissa till., sem eru fólgnar í frv. um að fresta framkvæmd ýmissa ráðstafana í sambandi við ófriðarástandið. Þess vegna þykir mér það einkennilegt, ef ég á að skilja það svo, að þetta sé samkomulag, þegar einn af þm. jafnaðarmanna stendur hér upp og lýsir því yfir, að jafnaðarmannafl. sé á móti þessu ákvæði.

Það hefir þá eitthvað skolazt til á leiðinni til mín um afstöðu ríkisstj. til þessa frv., ef þetta er tilfellið. Ég þykist hafa góðar heimildir fyrir því, að stj. öll hafi sameiginlega afstöðu til þess að greiða götu þessara ákvæða um að fella niður prentun umræðuparts Alþt. fyrir árið 1940. Það hafa ýmsir hér verið að reka hníflana í þessar till., sem hér liggja fyrir, og er það náttúrlega ekki í áframhaldi af því, sem til var ætlazt, þegar till. voru bornar fram. Þó eru numdir í burtu þeir agnúar, sem ýmsir hafa vitnað í.

Að því er snertir niðurfellingu Alþt., þá er það að segja, að þetta er ekkert nýtt mál hér á þingi; það hafa oft komið fram tili. um að fella þetta niður. Það er um gerbreyttar ástæður að ræða að því er það snertir að láta landsfólkið fylgjast með því, sem gerist í meðferð mála á þinginu. Áður fyrr var náttúrlega ekki um aðra leið að velja heldur en þá, að lesa Alþt., til þess að kynna sér mál þingsins. Nú er sem kunnugt er þetta breytt, bæði að því er blaðakost snertir og nú er einnig útvarpið komið til sögunnar og flytur daglega fregnir af öllu, sem á þinginu gerist. Niðurstaða mála er lesin upp í útvarpinu og einnig grg., sem fylgja frv. Þannig er það, að þessi mál koma fyrir eyru alþjóðar, þeirra, sem vilja hlusta á útvarpið, og einnig kemur það í blöðum. Einnig geta menn gert sér ljósa grein fyrir afstöðu einstakra þm. með því að fylgjast með atkvgr. Þannig eru ótal leiðir til þess að koma þessu á framfæri við landslýðinn. Þetta er því breytt aðstaða, og ekki nema eðlilegt, þó að þær framfarir, sem orðið hafa, komi hér til greina og verði til þess að breyta þessu. Það er vitanlega sjálfsagt að varðveita umr. og geyma handritin. Ég tel, að það væri rétt að láta vélrita ræðupartinn og eiga hann eins og í 4 eintökum til frekara öryggis fyrir seinni tímann.

Ég tel þess vegna, að þessi breyt. sé ekki annað en afleiðing af breyttum aðstæðum í þessu landi, sem engum dettur í hug að rísa upp á móti, þar sem allt verður að breytast og laga sig eftir hinum breyttu aðstæðum í þessum efnum.

Ég veit ekki annað en um þessa liði hafi orðið samkomulag innan ríkisstj. um að koma þeim fram. Ég læt mig þess vegna ekki miklu skipta, þó einstaka þm. sé að reka hníflana í eitt og annað, því ríkisstj. er ábyrg um að koma þessu áfram, þar sem hún er búin að taka þetta að sér.

Þessu máli öllu var skotið til ríkisstj., og það, sem hún gat fengið samkomulag um, átti fram að ganga. Við sjáum svo, hvernig ríkisstj. tekst að koma þessu áfram. Það er nokkurskonar prófsteinn á styrkleika hennar og samstarfið í hinum einstöku flokkum.

Það á ekki við að ræða aðrar gr. í frv., t. d. 5. gr., um útvarpið, nú. Ég mun þess vegna láta biða að gera mínar aths. við þær umr., sem fram fóru um það hér áður.