02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Sigurður Kristjánsson:

Ég á brtt. á þskj. 623 við fyrri liðinn, sem fjhn. hefir lagt til, að færður verði af frv. um nokkrar bráðabirgðaráðstafanir yfir á þetta frv. um bráðabirgðabreyt. nokkurra l. — Ég skal taka það fram, að ég vissi ekki annað, þegar þessar brtt. voru að fara í prentun, en þar væri miðað við tölul., en nú sé ég, að þær koma fram í stafl.

1. brtt. er við þá gr. í frv. um nokkrar bráðabirgðaráðstafanir, þar sem lagt er til, að fresta skuli framkvæmd l. um ferðaskrifstofu ríkisins. Við litum svo á allir nm., að ef þetta væri samþ., þá ætti það heima í frv. um bráðabirgðabreyt. nokkurra l., og lögðum við þess vegna til, að það væri fært þangað. En ég var ósamþykkur síðari málsgr. gr., að heimila ríkisstj. að verja svipaðri upphæð til þess að bæta aðbúnað á gististöðum og auka hreinlæti á ferðamannaleiðum, því það er meiningin að innheimta þetta gjald, sem átti að vera til að halda uppi ferðaskrifstofu, en því er bætt við, að það eigi ekki að fara beint í ríkissjóð, heldur megi það fara til að auka hreinlæti á gististöðum úti um landið og bæta skilyrði til gistingar. Ég er sannfærður um, að þó mjög sé ábótavant skilyrðum til gistingar víða á landinu, þá er það órannsakað mál, hvort þetta fé hefir mikla þýðingu í þessu sambandi. Það verður fyrst að liggja fyrir athugun um það, hvað gera eigi með þessu fé. Það er þess vegna rétt, að ríkissjóður taki við þessum tekjum í almennar þarfir, þangað til búið er að gera einhverja athugun á því, hvað nauðsynlegt er að gera til þess að bæta skilyrði til gistingar, og hvað slíkt myndi kosta.

Ég held þess vegna, að það væri rétt fyrir hv. d. að fallast á, að síðari málsgr. falli niður, enda væri þá síðar hægt að taka upp greiðslu úr ríkissjóði, ef hann er þess megnugur, til þess að bæta gististaði í landinu, ef það sýnist vera hægt að gera það fyrir smáupphæð, því hér er vitanlega ekki nema um smáupphæð að ræða. Mér þykir ólíklegt, að stj. kæri sig um að taka við þessu á þennan hátt, því það er vandaverk að ákveða, hvar eigi að nota þetta fé, þar sem svo mikil þörf er fyrir hendi.

Um hinn liðinn, prentun þingtíðindanna, ætla ég að segja örfá orð. Ég ætla í fyrsta lagi að lýsa því yfir, að ég er því mótfallinn, að hætt sé að prenta þingtíðindin, en ef sú till. verður samþ., þá álit ég eins og meðnm. mínir, að hún eigi heima í frv. um bráðabirgðabreyt. nokkurra l.

Rök mín fyrir því, að ekki beri að hætta að prenta þingtíðindin, eru að miklu leyti hin sömu og þeirra, sem hér hafa talað. Ég tel ekki hæfa að loka þessari heimild fyrir almenningi, hvort sem hún er meira eða minna notuð. Ég vil segja það um kostnaðinn, að ég held, að hann myndi ekki minnka mikið, þó hætt væri að prenta þingtíðindin. Ég er sannfærður um, að skjalaparturinn myndi bólgna geysilega mikið. Þegar menn vissu, að ræður þeirra kæmust ekki til almennings, þá myndu menn taka upp það ráð að skrifa heilar ritgerðir í skjalapartinn sem grg. fyrir máli sínu, og ég er óviss um, að það yrði miklu ódýrara en prentun þingtíðindanna.

Sú mótbára gegn því að prenta umræðupartinn, að hann sé ekki rétt mynd af því, sem sagt er í þinginu, hefir við nokkuð að styðjast. Þegar að menn leiðrétta ekki ræður sínar, þá er ekki við öðru að búast en þar standi mikið af ónákvæmni og að málfarið sé, öðruvísi en það var hjá manninum, þegar hann flutti ræðuna. Þó ræðurnar séu leiðréttar, þá er heldur engin trygging fyrir því, að þær komi réttar fyrir almenningssjónir, því þm. geta breytt því, sem þeir hafa þó vissulega sagt.

En það er einfalt ráð til þess að ræðurnar verði eins og maður talar þær, og það er að láta menn tala í hljóðnema. Mér er sagt, að sá útbúnaður kosti ekki geysimikið. Þá yrði hver ræða að vera eins og hún er töluð, því þá fengju menn ekki að breyta neinu, og gæti það orðið til þess, að ekki yrði eins mikið málskraf á þessari samkundu og verið hefir, ef menn vissu, að hvert orð kæmi fyrir almenningssjónir eins og þeir hafa talað það. Ég tel það ótækt að gefa fólki ekki kost á að sjá, hvað menn hafa sagt og hvernig menn hafa greitt atkv. við nafnaköll um þingmál.

Það er ein brtt. á þskj. 635, sem minnzt hefir verið á, en hún er um það, að fresta framkvæmd l. um svokölluð ráð. Mér þykir ástæða til að minnast á þetta, þar sem mér er þetta mál dálítið kunnugt. Þegar þessi ráð voru samþ., þá var ég mótfallinn því, að það væri gert, en síðan hefi ég átt sæti í einu af þessum ráðum, móti vilja mínum. Ég hefi aldrei haft trú á þeirri leið til þess að hafa eftirlit með opinberum rekstri. Ég hefi lagt til, að í þeirra stað hefðu endurskoðendur ríkisreikninganna, a. m. k. einn þeirra, daglega slíka gagnrýni á hendi. Af þessu geta hv. þm. skilið, að mér er ekki mjög annt um þessi ráð. En mér þykir það hlægilegt að koma með till. um að fresta framkvæmd þessara l., en koma ekki með till. um að afnema þau. Þetta á víst að vera sparnaðartill. En vita menn, hvað þessi ráð kosta? Ég hefi nokkra vissu fyrir því, að það ráð, sem ég starfa í, hefir starfað mest af þessum ráðum, en fyrir starf í því ráði voru greiddar á síðastl. ári 900 kr. Það er því ekkert fjárhagslegt gagn að því að fresta framkvæmd l. um þessi ráð. Mér þykir líklegt, að hin ráðin hafi ekki nema 1/3 af þessari upphæð.

Þar sem um þetta hefir verið rætt nokkuð, þá vil ég geta þess, að það ráð, sem ég starfa í, skrifar mánaðarlega skýrslu um tekjur og gjöld þeirra stofnana, sem það er sett yfir. Það reiknar út þessi gjöld og ber þau saman við fjárveitingarnar, og ef einhver liður fer fram úr áætlun, þá sendir ráðið ráðh. það til athugunar. Ég get getið um það, að ráðið hefir eftir beiðni ráðh. rannsakað eina stofnun og gert till., sem þegar eru komnar til framkvæmda, um útgjaldasparnað, sem nemur um 60 þús. kr., og það er þó stofnun, sem ekki hefir rekstur upp á 1 millj. kr. Ég hefi getið þessa til þess að skýrt sé rétt frá um þetta, svo menn hafi ekki rangar hugmyndir um þessi ráð.

Ég mun að sjálfsögðu ekkert hafa á móti því, að framkvæmd l. um þessi ráð sé frestað. Mér finnst það þó hlægilegt, þegar ætlunin er að koma með eitthvað til sparnaðar fyrir ríkið, að það skuli þá ekki vera komið með frv. um að fella þessi l. úr gildi. Það er það eina, sem vit væri í til sparnaðar í þessum efnum, því það gæti orðið til þess, þegar þessi ráð væru úr sögunni, að þingið setti eitthvert öryggi i staðinn, en það er hlutur, sem ég þykist hafa sýnt fram á áður, að það vantar gagnrýni á eyðslu ríkissjóðsins, sem framkvæmd er á sama tíma og greiðslurnar fara fram. Það þýðir lítið að vera að endurskoða ríkisreikningana löngu síðar, eða 2 árum eftir að greiðslurnar hafa farið fram.

Ég vil því alvarlega beina því til hv. þm., að ef þeir vilja halda við og auka gagnrýnina á greiðslum úr ríkissjóði, þá verður það ekki gert með þessum ráðum, heldur með því að hafa daglega gagnrýnandi endurskoðanda hjá ríkinu, en hitt vil ég einnig, að þessi ráð séu látin njóta sannmælis, því eftir því, sem ég þekki til, þá hafa þessi ráð reynt að rækja sitt starf og þau kosta ríkissjóðinn sáralítið.