06.11.1939
Neðri deild: 53. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Það hefði verið óþarfi fyrir ríkisstj. að gefa út þessi lög, í beinni andstöðu við vilja meiri hluta þjóðarinnar, ef hún hefði viljað taka til greina athugasemdir hv. 3. þm. Reykv. um það, hve hættulegt það væri að binda gengi íslenzku krónunnar við sterlingspundið, sérstaklega vegna þess, hve það rýrði gildi Íslands sem sjálfstæðs ríkis að binda mynt þess við mynt annarar þjóðar. Til þessa fékkst ekki tekið tillit af vissum ástæðum, þrátt fyrir allar yfirlýsingar ríkisstj. um, að Englendingar réðu hér engu, og þrátt fyrir aðvaranir um, að Englandsbanki og brezka heimsveldið væri e. t. v. ekki eins öruggt og óhagganlegt og Landsbankavaldið hér vildi vera láta. Á aðvaranir okkar í þessa átt vildi hæstv. ríkisstj. ekki hlusta. En ég man ekki betur en að þegar gengið var frá þessum lögum, rétt áður en þingið var sent heim yfir sumartímann, að hæstv. forsrh. lýsti því yfir, að jafnskjótt og styrjöld brytist út, þá yrði þingið kallað saman aftur, enda hefir verið gert svo í hverju einasta lýðræðisríki í nánd við okkur, að þingin hafa verið látin sitja áfram eða kölluð saman. Aðeins hér á Íslandi hafa menn ekki séð ástæðu til að kalla þingið saman, fyrr en ríkisstj. var nauðbeygð til þess, ef hún átti ekki að brjóta lögin, sem búið var að setja um frestun þingsins.

Á þessum tíma hefir þó það gerzt, að eftir að búið var að setja gengislögin í gegnum þingið, í óþökk meiri hluta þjóðarinnar og þvert ofan í yfirlýsingar flokkanna fyrir kosningar, og búið er þannig að lækka krónuna um 22%, þá lækkar ríkisstj. hana upp á sitt eindæmi um 10% til viðbótar. Það þótti ekki ástæða til að kalla þingið fyrr saman og heyra álit þingmanna um þessar aðfarir.

Ég ætla ekki sérstaklega að blanda mér inn í stríðstal hv. þm. Ísaf., en ég vil minna á, að ein yfirlýsingin, sem gefin var, þegar verið var að klambra saman þessari samsteypustjórn, var um nauðsyn þess, að allir þessir flokkar stæðu saman um ráðstafanir vegna yfirvofandi styrjaldar. Hinsvegar er nú vitað, að þessi stjórn mundi ekki hafa lafað til þessa, ef hún hefði ekki verið svo heppin, að stríðið brauzt út. Hún lafir aðeins í skjóli þeirra atburða, sem nú eru að gerast.

Hv. þm. Ísaf. þarf ekki að líta nema 25 ár aftur í tímann til þess að sjá, að það eru árekstrar vegna auðvaldsskipulagsins í Evrópu, sem orsaka stríðið.

Eitt af verkefnum ríkisstj., sem nú situr, var að koma á meira réttlæti í landinu, bæta kjör verkalýðsins og lægri launþega yfirleitt. Það var gert með gengislögunum. Aðeins í einu tilfelli neyddist ríkisstj. til að ganga að kröfum verkalýðsins. Það voru kröfur sjómanna, sem bornar voru fram af stéttarsamtökum þeirra. Ríkisstj. vissi, að ef ekki var gengið að kröfum sjómanna, myndu siglingar stöðvast til landsins, því enn eru engin lög til, sem neytt geta sjómenn til þess að vinna gegn vilja þeirra eins og þræla. Að öðru leyti hefir ríkisstj. enga viðleitni sýnt til að hjálpa þeim fátæku í landinu.

Hv. þm. Ísaf. lýsti því yfir fyrir hönd Alþfl., að hann myndi á þessu þingi flytja brtt. við gengislögin, sem bættu kjör verkalýðsins. Má nærri geta, hvernig þær tillögur verða frá þeim flokki, sem á ráðh. í ríkisstjórn, sem hefir sett á brbl. til að hindra, að verkamenn kæmu fram kjarabótum sér til handa. Á ég þar við Byggingarfélag alþýðu, — byggingu verkamannabústaðanna. Hlutverk þessa flokks í ríkisstj. hefir verið að kúga verkalýðssamtökin, svo að þau verði ekki fær um að fylgja fram kröfum sínum um bætta aðstöðu.

Eins og hv. 3. þm. Reykv. gat um, berum við fulltrúar Sósíalistafl. fram frv., þar sem farið er fram á algerar bætur fyrir þá dýrtíð, sem verkamenn hafa orðið fyrir, og munum við ræða það frv., þegar það verður lagt fram í þinginu.

En það þarf ekki að efast um, hvað ríkisstj. og hennar flokkum gengur til með flutningi þessa frv. Þar ráða hagsmunir útflytjendanna, en ekki hagsmunir verkalýðsins.

Þar sem frv. þetta mun aftur koma til umr., verður tími til að athuga það betur.