06.11.1939
Neðri deild: 53. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Héðinn Valdimarsson:

Hv. þm. Ísaf. kom með þá nýstárlegu skoðun, að sú stjórnmálastefna, sem nú væri rekin, beindist að þeim sameiginlegu hagsmunum verkalýðsins og útgerðarinnar að lækka gengið. Það er gaman að lesa ræður um gengismálið, sem þessi hv. þm. hélt fyrir nokkrum árum. Þá kvað við annan tón. Enda er nú aðstaða hans allt önnur; hann hugsar nú fyrst og fremst sem útgerðarmaður og aðalatvinna hans er við síldarverksmiðjur ríkisins.

Þá vill hv. þm. reyna að snúa sig út úr þessu með því, að kaup verkamanna hafi ekki hækkað nákvæmlega um það, sem gengisbreytingin nam. Eins og ég sagði á síðasta þingi, þá verða verkamenn að bera mikinn hluta þeirrar 22% gengislækkunar, sem þingið gerði. En það var reynt að halda vöruverðinu niðri fram yfir 1. júlí, með því að selja gamlar birgðir, svo að kaupið hækkaði ekki fram til þess tíma. Svo þegar styrjöldin hófst, var svo að segja ekkert til af vörum í landinu, og nú á að bæta vöruhækkunina upp með því að halda niðri kaupinu. Þetta eru þeir sameiginlegu hagsmunir verkamanna og útgerðarinnar. Svo til viðbótar við þetta er gengið lækkað enn á ný, án þess að kaupgjaldið hækki. Hvernig þetta eru sameiginlegir hagsmunir verkamanna og útgerðarinnar, skilur víst enginn nema hv. þm. Ísaf. Þær brtt., sem Alþfl. ætlar að bera fram við gengislögin, verða víst varla til þess að bæta kjör verkalýðsins, séu þær af líkum toga spunnar og till. Alþýðublaðsins, sem sé að kaupið eigi að hækka um nokkurn hluta af dýrtíðaraukningunni. Nei, hv. þm. verður að koma með nýja skýringu á því, hvernig slíkt séu sameiginlegir hagsmunir verkalýðsins og útgerðarinnar.