06.11.1939
Neðri deild: 53. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Einar Olgeirsson:

Það væri auðvelt fyrir hv. þm. Ísaf. og hans flokk að halda áliti sínu hjá verkalýðnum, ef hann þyrfti ekki annað að gera en að tala eins og hann nú gerir. En þar er ekki dæmt eftir fallegum orðum, heldur eftir verkunum. Og hver eru verk Alþfl. hér á Alþingi? Verkalýðurinn er búinn að mynda sín stéttasamtök og berjast fyrir þeim í 20 ár. Berjast fyrir frelsi til að selja sína vinnu fyrir verð, sem hann sjálfur ákveður. Þennan rétt er nú búið að taka af honum, og hann hefir verið sviptur honum með aðstoð Alþfl. Í sambandi við kosningarnar 1937 lýsti Alþfl. því sérstaklega yfir, að hann myndi aldrei ganga inn á lækkun krónunnar og aldrei skerða nein réttindi verkalýðsins. Það þarf ekki annað en að rifja upp umræðurnar, sem þá urðu um gengismálið, til þess að sjá, hve rækilega Alþfl. hefir svikið þá stefnuskrá, sem hann gekk með til kosninga 1937, og ætla ég að þetta nægi til þess að reka ofan í hv. þm. Ísaf. það, sem hann sagði um kommúnista. Sósíalistafl. hefir ekkert svikið, enda kom hv. þm. ekki með eitt einasta dæmi, því það er ekki hægt. Sósíalistafl. hefir alltaf barizt fyrir öllum þeim góðu málefnum, sem Alþfl. barðist áður fyrir, svo sem byggingu verkamannabústaða o. fl., en öllum þessum málum hefir ráðh. Alþfl. sýnt slíkan fjandskap, að hv. þm. ætti sem minnst um þau að tala.

Hv. þm. Ísaf. þarf ekki að gera sig heimskari en hann er, þegar hann talar um áhrif brezka auðvaldsins hér á Íslandi. En svo ætti hann að snúa sér til ríkisstj. og spyrja hana, hvernig það sé með þýzku nazistaáhrifin hér á landi, þar sem þýzki ræðismaðurinn virðist skipa ríkisstj. fyrir verkum. Væri e. t. v. enn nauðsynlegt að leita verndar Breta.