03.01.1940
Neðri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Héðinn Valdimarsson:

Það fór sem vænta mátti á síðasta vori, þegar gengislögin með ákvæðum um kaupgjald voru keyrð í gegn hér á þingi með mesta offorsi, að nokkuð drægi niður í sumum þeim, sem þá voru ánægðastir. Það fór líka svo, að það þurfti að breyta þessum l. tvisvar, og nú í þriðja sinn, áður en ár er liðið frá því að þessi l. voru samþ. Hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, hafa allir talið óhjákvæmilegt að breyta kaupgjaldsákvæðunum, og um eitt atriði, stríðsáhættuþóknun íslenzkra sjómanna, hefir þegar verið samþ. breyt. um það.

Ég var á sínum tíma á móti þeirri ráðstöfun, sem gerð var með gengislækkunarlögunum, og það var vitað, að mikill hluti kjósenda var þeim mótfallinn, en ekki mátti leita til fólksins um það frekar en annað nú á þessum þjóðstjórnartímum. Það var samþ. á þingi á þann veg, að fáir menn komu sér saman um það, aðallega þeir, sem í stj. voru, og svo var hóað saman flokksfundum og samþ. þar það, sem þeir vildu vera láta. Við höfum séð það á árinu sem leið, að verkamenn hafa orðið að búa að þessu í marga mánuði, þó að verð á vörum hafa hækkað, án þess að þeir hafi fengið nokkra uppbót.

Þegar stríðið skall á, þótti strax þurfa að gera sérstakar ráðstafanir til að láta sjómenn fá áhættuþóknun, vegna þess að annars þótti varla hægt við því að búast, að þeir fengjust til að sigla hinar hættulegu leiðir til Englands og víðar, en ekki þótti þurfa að gera neinar breyt. til bóta á bag verkamanna. Það var dregið eins lengi og unnt var að koma með till. í þá átt. Þó fór svo, að brtt. komu fram um það, en þó ekki fyrr en tveir þm. Sósíalistafl. fluttu till. þess efnis, sem liggur nú hér fyrir.

Höfuðatriðið í þeim till., sem hér liggja nú fyrir, er að setja lagaákvæði, sem girða fyrir, að verkafólk geti gert samninga sína við atvinnurekendur og að þessi félagsskapur fái að halda frelsi sinu eins og verið hefir. Það er kunnugt, að þetta er langfjölmennasta stétt landsins, sem á undir þessu að búa, 16–17 þús. manns. Ég verð að segja, að mér finnst það ganga ósvífni næst, að svona flokkar skuli kalla sig lýðræðisflokka, sem vilja ekki hafa svo lítið við að spyrja þessa fjölmennu og félagsbundnu stétt, hvernig skyldi haga þessum málum. Þegar aftur á móti hefir verið komið fram með mál samvinnufélaganna, hefir verið bókstaflega ákveðið af einum aðalflokki þingsins, að ekki mætti ráða þeim málum til lykta, fyrr en þau hefðu fengið að segja álit sitt þar um, og er þó samvinnufélagsskapurinn miklu fámennari en verkalýðsfélagsskapurinn. Það er ekki hægt að segja, að ekki hafi verið tími til að leita álits verkalýðsins, því að þeir, sem komu þessu í gegn, höfðu lengi haft þetta í undirbúningi, og hefði því verið nægur tími til að fá um það álit alþýðunnar. Vilji þessa fólks hefir líka á margan hátt komið fram í margvíslegum till., sem gerðar hafa verið og samþ. alstaðar á landinu. Mér er ekki kunnugt um, að nokkurstaðar hafi komið till. um, að samningarétturinn yrði tekinn af verkalýðsfélögunum og fenginn ríkinu í hendur, heldur alstaðar haldið fram, að verkamenn ættu að hafa sinn fulla rétt. Það er ekki heldur ástæða til að ætla, að ekki hefðu getað tekizt samningar á venjulegan hátt milli verkalýðsins og atvinnurekenda, en það hefir ekki fengizt reynt. Nú er það meira að segja sýnt, þegar á að fara að samþ. þetta mál, að það hefir verið farið kannske til forseta eða stjórnar eins sambands í landinu, Alþýðusambandsins, sem öllum er kunnugt, að er þannig samsett, að hún hefir ekki á bak við sig nema nokkurn hluta verkalýðsins og er í minni hluta. En þar fyrir utan eru önnur sambönd, sem hefir ekki verið leitað til, svo sem Landssambands stéttarfélaga, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands eða annara. Þó hefir þetta mál verið lengi í smíðum hjá stj., eins og lýst hefir verið. Hvað er það, sem veldur því, að þetta mál hefir ekki fengizt inn í verkalýðsfélögin, en Alþingi hefir tekið að sér að samþ. einhverja hluti, hversu ógeðfellt sem verkalýðsfélagsskapnum kann að virðast það? Í þeim brtt. eða frv., sem hér liggur fyrir, er þessu svarað í aðalatriðunum, sem sé þannig, að verkamenn séu ekki frjálsir að semja við atvinnurekendur, heldur skuli þar farið eftir reglum, sem Alþingi setur og eru á þá leið, að þótt dýrtíð aukist og verð hækki á öllum vörum, þá fái verkamenn það ekki hætt upp til fulls. Allt þetta getur ekki verið gert í öðrum tilgangi en þeim, að gera lakari en áður lífskjör þessarar stærstu stéttar landsins. Mér er spurn: Hvar er hægt að benda á aðra stétt í þjóðfélaginu, sem hefir þurft að lækka sín lífskjör frá því, sem verið hefir? Útgerðarmenn og útflytjendur hafa fengið fyrir vörur sínar miklu hærra verð en áður. Það er að vísu rétt, að sumir þeirra höfðu við ill kjör að búa með verðlag á vörum sínum, en það hefir breytzt svo mikið á þessu hausti, að óhætt er að segja, að allmikill hagnaður hefir orðið af. Nokkur hluti verzlunarstéttarinnar hefir tapað allmiklu á gengisbreyt., og eins getur maður sagt, að hún beri nokkra áhættu vegna vörubirgða, þegar stríðið fer að falla aftur niður, með því verðlagi, sem nú er í landinu, en það er ekki hægt að segja, að álagning verzlunarstéttarinnar hafi lækkað neitt að ráði frá því, sem verið hefir, enda eru reglur, sem um það eru settar af stj. hálfu, á þá leið, að álagning skuli haldast óbreytt. Það verður því að gera ráð fyrir, að það séu eingöngu vinnandi stéttirnar, sérstaklega þó verkamenn, sem þetta gengur út yfir. Það væri hægt að afsaka þetta að einhverju leyti, ef hægt væri að finna vilja hjá þinginu til að bæta kjör þeirra lægst launuðu og auka atvinnu, en því er ekki að heilsa, því að það eru samþ. hver l. á fætur öðrum um að rýra kjör þessa fólks og réttindi þess, jafnvel þar sem menn sjá framundan hættu um aukið atvinnuleysi vegna þess að þingið vill ekkert gera, eða a. m. k. gerir það ekki. Ég vil benda á þá miklu hættu, sem við höfum nú framundan okkur, að litið verði gert á saltfisksvertíð, og að ekki er útlit fyrir annað en að stöðvist allar framkvæmdir við byggingar hér í Reykjavík, sem mun hafa veitt um þúsund mönnum atvinnu. Og þó að sagt sé, að hitaveitan ráði nokkra bót hér á, þá mun hún ekki gera meira en að bæta upp það, sem fyrir var. Það verður því ekki annað sagt en að útlitið sé mjög alvarlegt. Nú er ég ekki að segja, að till. stj. færi þetta allt til verri vegar, því að því er ekki að neita, að á ýmsan hátt eru þessar brtt. til bóta frá því, sem verið hefir, en þær breyta þó á engan hátt frá þeim grundvelli, sem hefir verið settur, að haldið skuli áfram þeirri stefnu, að kaup verkamanna skuli halda áfram að lækka samanborið við það, sem þeir geta keypt sér. Hæstv. félmrh. talaði sérstaklega um þá brtt., að kaupið skyldi hækka um 13 aura. En hann gat ekki um það, að á sama tíma lækkaði það um 13 aura, svo að það hefði þá orðið að vera 18 aurar til þess að menn hefðu getað keypt fyrir það það sama og áður. En það er ekki nóg með, að kaupið lækki þannig. Nú blasir við verkamönnum meira atvinnuleysi en undanfarin ár. Nú þegar þessi l. eru sett, þá fá verkamenn raunverulega ekki nema 75% af því kaupi, sem þeir hafa fengið, og eftir því sem dýrtíðin eykst, fá þeir minna og minna, og sjá þá allir, hvernig ástandið verður, ef stríðið stendur lengi og dýrtíð vex áfram og áfram, kannske um 3–400%, eins og var í síðasta stríði.

Það er verið að tala um, að við eigum að bera okkur saman við það, sem gerist hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Þar hafa verið samþ. l. um þetta, en það hefir verið gert í samráði við verkalýðsfélögin. Þeir hafa ekki fengið fulla kaupuppbót, en þó meiri en hér, a. m. k. í Danmörku. Það er því ólíkt annað í þessum löndum. Þar eru stjórnir, sem hafa lagt sig sérstaklega fram til að bæta laun þeirra, sem lægst hafa verið launaðir, og auka atvinnu í landinu, en um það er ekki hér að ræða, eins og ég hefi lýst. Svo er annað. Í öllum þessum löndum búast menn við því, að þá og þegar skelli á þá stríð. Það er því við því að búast, að þeir séu enn varfærnari en við, sem erum fjarlægari því öllu. Það er því ekki hægt að koma með þennan samanburð hér. Verkamenn í þessum löndum hafa haft við miklu betri kjör að búa en verkamenn hér.

Það er enginn minnsti vafi á því, að þótt þetta sé bót frá þeim l., sem nú gilda, sem allir voru sammála um, að ómögulegt var að halda óbreyttum, vegna þess hver kúgun þau voru á allan verkalýð, þá lætur verkalýðurinn sér það ekki lynda, en heimtar að fá aftur sitt frelsi til að semja eins og áður, og það er engin ástæða til að neita þessum fjölmenna félagsskap og stærstu stétt landsins um að fá að ráða sínum málum eins og að undanförnu. Ég mun þó ekki koma með brtt., aðrar en þær, sem ég hefi komið með, nema eina, og er hún við brtt. fjhn. Það er sem sé lagt til í till. n., að þessi ákvæði skuli gilda til 1. jan. 1941. Nú er það öllum kunnugt, að allir verkamenn eru því mjög andstæðir að hafa samningatímann 1. jan., en óska eftir öðrum tíma um það. Um þetta hefir staðið áralangt stríð. Haustið og fyrri hluti vetrar er einna helzti atvinnuleysistíminn, og hafa flestir verkamenn helzt viljað fá 1. apríl eða 1. júní. Þetta hafa atvinnurekendur ekki viljað, heldur fá þann tímann, sem er hentugastur fyrir þá. Ég er ekki mótfallinn þessu aðeins af þessum ástæðum, heldur líka af því, að ég er sannfærður um, að ef stríðið stendur lengi, þá verða þessi l. ónýtt pappírsgagn, því að þetta er allt of langur tími. Ég mun því flytja skrifl. brtt., að í staðinn fyrir „l. jan. 1941“ komi: 1. júní 1940, — því að innan þess tíma væri hægt fyrir þingið, ef það óskaði þess, að leita álits verkamannafélaganna nánar um þessi mál, eða, eins og ég tel rétt, láta þau alveg sjálfráð um þessi mál: Það er ekki hætta á öðru, eins og þjóðstjórnin er skipuð, en að hún hefði einhver ráð með að setja út bráðabirgðalög til að taka í taumana, ef henni þætti hætta á, að svo miklar deilur risu, að líklegt væri, að gengið yrði um of á hagsmuni atvinnurekenda.