17.04.1939
Neðri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

6. mál, lax- og silungsveiði

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég hefi ekki enn sannfærzt af ræðu hv. 1. þm. Skagf. um, að hér sé vá fyrir dyrum, eins og hann vildi vera láta, ef þessi brtt. frá meiri hl. landbn. á þskj. 141 verður samþ., þar sem það ákvæði sé meginatriði og kjarni laxveiðil. að banna slíka veiði í sjó. Ég hygg, að þetta sé ekki rétt, vegna þess, að það er ekki bannað að veiða lax í sjó. Slík veiði hefir beinlínis verið leyfð sumum mönnum og óbeinlínis verið leyfð öðrum með því að gera sjó að vatni. (PHann: Hvað á hv. þm. Mýr. við, er hann talar um að gera sjó að vatni?). Samkv. ákvæðum laxveiðil. hagar þannig til í Borgarfirði, að mikið af því, sem þar er kallað vatn, er í raun réttri sjór. (PHann: Þetta er alger misskilningur hjá hv. þm. Mýr.). Ég er viss um, að ef hv. 1. þm. Skagf. smakkaði á sumu af vatni því, sem samkv. þessum l. á að heita ferskt vatn í Borgarfirði, myndi hann hrækja því út úr sér, því að það er töluvert salt.

Annað meginatriði laxveiðil. er að tryggja sem bezt laxagöngur upp eftir ánum upp á hrygningarsvæðin, eftir því sem tiltækilegt er. Um þetta fjallar 18. gr. laxveiðil., þar sem ræðir um laxagöngur og ákvæði eru sett, sem takmarka veiði í ánum. Við þrír nm., ég, hv. þm. Borgf. og hv. þm. A.-Húnv., getum ekki séð, að aðalatriðum l. sé haggað, þó að sú veiði yrði leyfð, sem farið er fram á í nál. á þskj. 141. Hv. 1. þm. Skagf. vildi vefengja það, sem ég hefi haldið fram, að af þessu myndi ekki stafa hætta. Þá sagðist hv. 1. þm. Skagf. vilja styðja brtt., ef hún skaðaði ekki, en svo var að heyra, sem honum fyndist ekki geta komið fram nein tili. í þessu máli, sem ekki stafaði einhver hætta af. Hv. 1. þm. Skagf. spurði, til hvers verið væri að biðja um þetta í brtt. á þskj. 141, ef hún skaðaði ekki neinn. Ef til vill mætti segja, að hún væri þýðingarlaus, ef hún skaðaði ekki. Ég vil þá spyrja um aðrar brtt. við þetta frv., sem hv. 1. þm. Skagf. vill fylgja. Þær hljóta að skaða, úr því að þær hafa tilverurétt að komast inn í l.

Þá sagði hv. 1. þm. Skagf., að undanfarin ár hefðu verið seldar úr landi milljónir laxaseiða. Dettur honum í hug, að ekki yrði unnt að selja þau, þó að brtt. á þskj. 141 yrði samþ.? Það nær ekki nokkurri átt, að unnt sé að skapa laxveiði í öllum ám hér á landi. Að vísu er það rétt, að sá fiskur, sem veiddur er úr sjó, verður ekki veiddur úr ánum. Laxinn, sem er veiddur í Einarsnesi, verður ekki veiddur nálægt Ferjukoti, og sá lax, sem er veiddur nálægt Ferjukoti, verður ekki veiddur uppi í Norðurá, og samkv. því ætti að banna veiði neðan til í ánum, til þess að laxinn kæmist sem lengst. En hafa bændur, sem búa ofarlega við árnar, meiri rétt til að veiða lax heldur en hinir, sem búa neðan til við árnar. þar sem laxinn gengur meðfram landareign þeirra? Slíkt er vitanlega fjarstæða.

Þar sem hv. 1. þm. Skagf. var að tala um, að sá lax, sem veiddist úr sjó, væri ekki lax bænda, þá er það ekki rétt, því að það eru bændur, sem búa á þeim jörðum, sem liggja að sjó, og það er ekki neitt tekið frá þeim, þó að laxinn sé veiddur þar.

Það er aðeins eitt atriði af því, sem hv. 1. þm,. Skagf. benti á, sem mér virðist hafa við rök að styðjast. Það gæti hagað þannig til, að leggja mætti net í sund milli eyja, þar sem laxagöngur fara um firði, og hindra þannig stórar laxagöngur í að komast upp í árnar. Ég er fús til að gefa samþykki mitt til þess, að sett verði ákvæði í laxveiðil., sem varni því, að net verði lögð þvert yfir mjó eyjasund, og sömuleiðis sett ákvæði til varnar gegn því, að laxinn verði tekinn í mjóum álum, þegar hann gengur upp í árnar. Það þarf ekki að vera því til fyrirstöðu, að leyfa megi nokkra veiði í sjó. En hitt get ég ekki séð, að það sé neitt réttlæti í því, að meina mönnum, sem hafa aðstöðu til, að veiða lax á þann hátt, þó í sjó sé, fremur en öðrum mönnum, sem leyft er að veiða lax í sjó.

Út af því, sem hv. 2. þm. Skagf. (StgrSt) sagði, að það myndi að öllum líkindum verða til þess að fæla útlendinga frá því að taka árnar á leigu til laxveiða, ef leyft væri að veiða lax í sjó framundan árósunum, vil ég segja það, að þegar laxveiðifélag væri stofnað, þá væru þeir, sem hefðu rétt til að gerast félagar í því og áður stunduðu veiði hver fyrir sínu landsvæði, einnig orðnir hluttakandi í veiðinni almennt eins og aðrir, sem hafa rétt til að verða þátttakendur í laxveiðifélagi. Annars skoða ég þessi ummæli sem missögn hjá hv. 2. þm. Skagf.

Ég mun svo ekki ræða þetta mál frekar; ég hugsa, að málið liggi skýrt fyrir þeim, sem hafa íhugað það. Ég tek það fram, að ég mun fylgja þeirri brtt., sem hv. 7. landsk. bar hér fram.