03.01.1940
Efri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Það er orðið áliðið nætur og varla ástæða til þess að gera ýtarlega grein fyrir þessu frv., þegar svo stendur á, sérstaklega þar sem það hefir verið rætt rækilega í hv. Nd. — Breyt. þær, sem í þessu frv. eru fólgnar á ákvæðum l. um gengisskráningu íslenzku krónunnar og um kaupuppbætur til handa verkamönnum, eru allveigamiklar. Þær eiga rætur sínar að rekja til þess ástands, sem ófriðurinn hefir skapað. Þær eiga það sameiginlegt, að vera afleiðing af langvinnum samningaumleitunum innan ríkisstjórnarinnar og milli stuðningsflokka hennar. Þegar samkomulag varð milli flokkanna síðastl. vor um lækkun íslenzku krónunnar, var ákveðið að miða skráningu hennar við sterlingspund, þannig að 27 íslenzkar krónur jafngiltu hverju sterlingspundi. Þá var gert ráð fyrir því, að gengi sterlingspundsins myndi verða stöðugt eins og það hafði verið um allmörg ár. — Þegar ófriðurinn brauzt út, fór sterlingspundið hinsvegar að falla, og gengi þess varð mjög óstöðugt dag frá degi. Þá varð fljótlega ljóst, að ekki myndi vera hagkvæmt að binda gengi íslenzkrar krónu skilyrðislaust við sterlingspundið. Var þá það ráð upp tekið, að breyta með bráðabirgðalögum gengisskráning arlögunum frá í vor, og ákveða að 27 íslenzkar krónur skyldu jafngilda sterlingspundinu eins og áður, þangað til 4.15 Bandaríkjadollarar eða minna væri í hverju pundi. Félli sterlingspundið meira, skyldi gengi íslenzku krónunnar miðað við dollar. Þessi ákvæði bráðabirgðalaganna eru nú í 1. gr. frv. þess, er hér liggur fyrir.

Þá eru í þessu frv. ný ákvæði um uppbætur á kaupgjald verkamanna, sem ætlazt er til, að komi í stað þeirra ákvæða, er um það efni voru sett í gengisskráningarlögunum síðastl. vor.

Það hefir komið í ljós, að ófriðurinn hefir skapað ástand, sem er gerólíkt því, sem áður var, og hefir það þá jafnframt sýnt sig, að ákvæði gengislaganna og kaupuppbætur fengu varla staðizt. Gert er ráð fyrir í þessu frv., að kaup þeirra verkamanna, er lögin ná til, verði hækkað um 80% af þeirri hækkun á framfærslukostnaði, sem vísitala sú sýnir, sem lögin gera ráð fyrir. Er þetta aðalregla frv., en með nokkrum takmörkunum þó, ef vísitalan sýnir, að hækkun framfærslukostnaðar er aðeins 10% eða minni.

Þá hefi ég í örstuttu máli drepið á aðalbreytingar þær, sem frv. þetta gerir ráð fyrir frá núverandi ástandi. Þó er rétt að geta þess, að í frv. er gert ráð fyrir, að ákvæði þess um kaupgjald gildi út árið 1940. Þegar séð varð að ekki varð komizt hjá því að gera breyt. á ákvæðum gengislaganna, fannst mönnum skynsamlegast að ákveða kaupgjaldið með lögum út þetta ár til þess að tryggja vinnufrið þann tíma. Er óvíst, hversu annars færi, þar sem ófriðarástandið breytir mjög mörgu og því hætt við, að glundroði skapist, ef ekki gilda um þetta fastar reglur nú fyrst um sinn. Hinsvegar mun það vera sameiginleg skoðun allra í ríkisstjórninni, að keppa beri að því, að aftur komist á frjálsir samningar milli atvinnurekenda og verkamanna. Ég fyrir mitt leyti legg mikla áherzlu á, að búið verði að koma slíkum samningum á, þegar ákvæði þessara laga fellur úr gildi. Ég tel, að það sé mjög varhugavert að ákveða kaupgjald með lagasetningu.

Það má ýmislegt um það segja, hvað réttlátt sé að hafa kaupuppbótina háa miðað við aukna dýrtíð, en ég hefi ekki orðið var við alvarlega gagnrýni eða rökstudda á því, að kaupuppbótin, sem frv. gerir ráð fyrir, sé of lág. Miklu fremur hafa heyrzt raddir um það, að í tvísýnu væri teflt um það, að atvinnuvegirnir gætu greitt þessar uppbætur. Í Svíþjóð mun uppbótin vera ákveðin 75%, eða öllu lægri en hér. Í Danmörku er hún hinsvegar ákveðin 100%, og því meiri en hér.

Þá eru ákvæði í frv., sem hafa verið sett inn í það við meðferð þess í hv. Nd., um að heimila ríkisstjórninni að ákveða með reglugerð launauppbætur handa embættis- og starfsmönnum ríkisins. Það hefir verið álitið, að þingtíminn myndi lengjast verulega, af ganga ætti frá þessu atriði nú. Hefir því orðið samkomulag um að veita ríkisstjórninni með lögum þessa heimild. [Niðurlag ræðunnar vantar í hndr.]