17.04.1939
Neðri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

6. mál, lax- og silungsveiði

*Pálmi Hannesson:

Það er nú bersýnilegt af því, hvernig þeir hv. þm. hafa talað, sem hingað til hafa kvatt sér hljóðs í þessu máli, að þm. eru búnir að mynda sér fasta skoðun um það. En út af því, sem hv. 7. landsk. tók fram hér áðan, þykir mér rétt að taka fram nokkur atriði þessa máls. Hann talaði um, að í laxveiðil. væri leyft að hafa ádrátt í sjó. Þetta er rétt, en þar er gert ráð fyrir, að dregið sé fyrir silung, en ekki fyrir lax. Það er ákaflega víða tíðkað að draga fyrir fisk í sjó, svo að ekki hefir þótt ástæða til að banna slíka veiði með l., en það er nauðsynlegt að setja hér ákvæði um fyrirkomulag slíkrar veiði, gerð netjanna og fyrirkomulag við ádráttinn. Þeir þm., sem hér hafa talað, sögðu líka, að leyft væri að leggja lagnet fyrir silung í sjó, en þegar sú veiði er stunduð, veiðist oft jafnframt mikið af laxi. Þess vegna þarf að setja föst ákvæði um möskvastærð netjanna, til að fyrirbyggja, að lax geti komizt í þau, nema einstaka bráðfeig skepna. Ef hv. þm. hafa séð mikið af laxi í silunganetjum, væri rétt að bregða máli á möskvana, til að ganga úr skugga um stærð þeirra, og sem löghlýðnir menn að skýra frá því. Í laxveiðil. eru ákvæði, sem tryggja það, að lax verði ekki veiddur í sjó, nema þar, sem laxveiði hefir verið iðkuð áður. Maður hefir verið minntur á, að þau ákvæði séu hér, en því er ekki að leyna, að ég vildi, að þau stæðu þar ekki, — l. væru alveg hrein. En þegar þessi l. voru sett, þótti ekki ástæða til að setja ákvæði um að banna laxveiði þar, sem hún hefir áður verið stunduð. Það var á tveim eða þrem stöðum, sem slík ákvæði koma til greina.

Í meðferð Alþ. á þessu máli var horfið frá því að miða við jarðamatsbók 1923, heldur miðað við jarðamat 1930, og þá fjölgaði nokkuð þessum jörðum.

Þá var hv. 7. landsk. að lýsa veiðiskap á Eyrarbakka, og hann talaði um varnargarð, sem væri 500–1000 metra frá árósum Ölfusár. En hvað veit hann um, hvar ós Ölfusár er? Eftir því, sem mér hefir verið sagt af mönnum, sem rannsakað hafa staðhætti, þá er varnargarðurinn í ósnum sjálfum; það yrðu aldrei samkv. l. sett önnur mörk á ós Ölfusár en þau, að garður þessi yrði í ósnum. Svo sagði hann, að Eyrbekkingar legðu silunganet á klappir. Ég sá engin net við neinar klappir á Eyrarbakka. Þau voru fest við garðinn og kænlega lögð sem laxanet. Ég skal staðfesta þetta með eiði, ef þarf. Málastappið, sem hefir risið út af þessu, er vegna þess, að netin hafa fulla möskvastærð. Þetta eru stór laxanet, og allur umbúnaðurinn er miðaður við laxveiði, og ennfremur voru það greinileg króknet, og þau voru fest við þennan garð,til þess að þau gætu tekið sem mest af því, sem um ósinn færi, og það var enginn silungur í þeim, heldur falsvert mikið af laxi. Með því að fara slíkar leiðir út fyrir heimild l. er hægt að slæða upp talsvert af laxi, enda talaði hv. 7. landsk. um, að þessu myndi ekki verða vel tekið af veiðimálan., og ég get ekki láð þeirri nefnd þótt hún tæki því ekki vel að sjá slík lögbrot sem þar fóru fram, eftir að hún hafði verið til kvödd.

Út af því, sem hv. frsm. þessa máls sagði, hefi ég litlu við að bæta. Hann virðist eiga erfitt með að sannfærast, og skil ég ekki, hvað kemur til.

Hann sagðist ekki hafa sannfærzt um það af mínu máli, að hann við laxveiði í sjó væri meginatriði laxveiðil. Ég hefi tilfært dæmi, sem mættu vera hverjum manni ljós og sanna það, að í hverju einasta af nágrannalöndum okkar, þar sem laxveiði hefir verið stunduð í sjó, er veiðin að heita má þorrin, en því minna, sem hún hefir verið leyfð, eftir því hefir laxastofninn haldizt betur. Hér á landi hefir laxi fjölgað aðeins í einstöku ám, þar sem komið hefir verið upp klaki með miklum tilkostnaði. Ef þetta eru ekki rök, sem geta sannfært alla nema hina ákveðnustu andstæðinga, þá veit ég ekki, hvað rök eru. (BÁ: En veiðin var ótakmörkuð áður). Nei, það voru miklar takmarkanir á laxveiði.

Nú má að vísu segja, að nógur sé sjórinn. Atlantshafið er stórt, og ef farið væri að leggja í það og veiða með alls kyns tækjum, mætti sjálfsagt róta upp talsverðu af fiski þar. Hv. þm. Mýr. talaði um, að það skaðaði ekki laxveiðar uppi í Borgarfirði, þótt veitt væri fyrir Mýrum, et það skaðaði ekki, þótt laxinn væri veiddur fyrir utan Akranes. En sá lax, sem þar verður veiddur, gengur ekki upp í árnar í Borgarfirði, og þeir, sem eiga laxveiðihlunnindi þar, skaðast á hverjum laxi, sem ekki kemst upp í árnar. Það er álíka skaði fyrir þá eins og það er fyrir fjárbændur eða nautgripaeigendur, ef pest kemur upp. Það stoðar ekki mikið fyrir þá, sem eiga laxveiðihlunnindi, þótt laxveiðar séu bannaðar utan netlaga, þar sem innan þeirra má veiða lax, þ. e. a. s. í Atlantshafinu, sem tekur við strax fyrir utan árósana, er slík veiði bönnuð, en ekki innan netlaga. Rétt er að banna alla laxveiði í sjó, ekki einungis utan netlaga, heldur einnig þeim, sem eiga netlagnir. En verði brtt. á þskj. 141 samþ., verður þess skammt að bíða, að fram komi brtt., sem fara fram á meiri tilslakanir. Mér er kunnugt um það, að hver einasti erlendur laxveiðimaður, sem kunnugur er þessum málum, er ánægður með þau ákvæði l., sem nú gilda um þetta efni. En verði þeim ákvæðum breytt, verkar það þannig, að erfitt getur orðið að leigja árnar. Heimsfirmað Hardy í London hefir skrifað hingað heim um, að það teldi tryggingu í því fólgna. Þetta atriði hefir stuðlað meira að því en nokkuð annað að gera árnar hér á Íslandi mikils virði fyrir útlenda laxveiðimenn, og ég á þess vegna tæplega nógu sterk orð til um það glapræði, sem hér væri gert, ef sá fleygur verður rekinn inn í þetta meginatriði lax

veiðilöggjafarinnar, sem reynt er að gera með brtt. á þskj. 141.