10.03.1939
Efri deild: 15. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Fjhn. hefir tekið þetta frv. til athugunar og borið það saman við gildandi l. Þetta frv. er nú gamall kunningi hér að nokkru leyti. Það hefir verið til meðferðar á undanförnum þingum og gengið undir nafninu „klauflaxinn“. En nokkuð er það nú breytt frá því, sem áður hefir verið. Í fyrsta lagi er það, að aukaverðtollur af innfluttum vörum, sem áður hefir verið í frv., er ekki tekinn upp í það nú, sökum þess, að sömu tekjum er ætlað að ná samkv. frv. um tollskrá, sem hér liggur fyrir hv. Ed. Og ennfremur er fellt niður úr frv., hvernig verja skuli tekjum af benzínskattinum, eða réttara sagt ákvæðin um það. hvernig honum skuli skipta milli einstakra vega. Það hefir verið nokkur togstreita um það á undanförnum þingum, eins og menn muna, hvernig skipta bæri benzínskattinum; og sú togstreita hefir verið í tvennu lagi, bæði í sambandi við afgreiðslu þessa máls og einnig í samhandi við afgreiðslu fjárl. En skiptingin hefir einnig staðið í fjárl. Það mun þykja nægilegt, að þessi skipting verði ákveðin í fjárl. Skal ég aðeins í því sambandi minna á það, að ég hélt því fram í fyrra í sambandi við þetta mál, að svo ætti að vera.

Það virðast liggja öll þau sömu rök til þess nú, að þessi tekjustofn verði framlengdur, að öðru leyti en því, sem ég nú hefi talið, eins og verið hefir á undanförnum þingum. Leggur því fjhn. með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Þó skal þess getið, að hv. 1. þm. Reykv. hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, sem sjálfsagt boðar svipaða afstöðu frá hans hendi og verið hefir á undanförnum þingum. Býst ég við, að hann mun sjálfur gera grein fyrir fyrirvara sínum.