10.03.1939
Efri deild: 15. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Hv. frsm. sagði, að það gætu ekki talizt nein samningsrof, þó að þessi helmingur hátekjuskattsins væri tekinn aftur frá bæjunum, því að það hefði verið bætt upp aftur með ákvæðinu um tillagið til jöfnunarsjóðs, sem væri ríflegra en fyrr. Það getur verið, að það hafi verið gott fyrir suma bæi landsins. En það er kunnugt af meðferð þessa máls hér á Alþ. áður, að það er svo laglega búið um ákvæðin um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga, að fé hans er mjög misskipt á milli bæjanna. Það eru fundnar upp svo undarlegar reglur fyrir skiptingu þess fjár á milli bæjanna — líklega bara af hendingu(!) — sem eru þannig, að Reykjavík er mjög illa sett með að fá nokkuð verulegt úr þeim sjóði. Til að byrja með fékk hún ekkert. En þegar svo leit út fyrir síðar, að hún fengi eitthvað úr sjóðnum, voru sett í l. ný ákvæði, sem gerðu það að verkum, að hún fékk það ekki. Og ég býst við, að það gangi svo til framvegis, til þess' að Reykjavík sé ekki að éta af þessu fé. En það kann nú að vera, að það breytist. Hingað til hefir þetta gjald verið tekið af Reykjavík, og hún hefir ekki fengið neitt í staðinn, svo að það er kannske fyrir suma bæina mikil Huggun, að þessu er breytt svo sem háttv. frsm. gat um, að það er það ekki fyrir alla bæina.

Þá sagði hv. frsm., að ég hefði verið tortrygginn um, að nokkrar till. mundu koma fram frá milliþn. í sjávarútvegsmálum nú á þessu þingi. En ég sagði bara, að alllangt væri nú þegar liðið af þingi og engar till. komnar enn frá þessari milliþn. Þetta frv. er nú til 2. umr. hér í hv. d., og sennilega verður það eftir 4 daga farið út úr Ed., þannig að a. m. k. við efrideildarþingmenn getum ekki fjallað um það eftir það. Og líka hefir það komið fyrir, að þó að milliþn. skili áliti um eitthvert mál, þá er það ekki strax um leið orðið að l. Svo er það ýmislegt í stórpólitíkinni, sem gerir það að verkum, að mér virðist það geti brugðizt mjög til beggja vona um framkvæmd þess máls á þingi. Mér finnst, að það megi doka við með það að fella niður úr þessu frv. heimildina um endurgreiðslu tollsins og fella þá þetta heimildarákvæði niður, ef eitthvert stórátak verður gert um hjálp til handa sjávarútveginum eftir till. milliþn. Ég get tekið undir það með hv. 5. landsk., að það eina rétta væri, að bifreiðaeigendurnir væru látnir borga þetta fé, sem næst með benzínskattinum, til þess að bæta vegina fyrir sjálfum sér, þá vegi, sem þeir þurfa mest að láta sínar bifreiðar fara eftir. En þó að þetta muni hafa verið meiningin fyrst með álagningu benzínskatts, þá er hugsjónin bara ekki framkvæmd, því að það ber svo oft við, að hugsjónir eru ekki framkvæmdar, og sízt af öllu eru þær framkvæmdar hér á hinu háa Alþingi. Og ég er ákaflega hræddur um, að þó að þetta fé, benzínskatturinn, verði látið renna til vega í landinu, þá verði bara sparað aftur að leggja á annan hátt fram fé til vega sem því svarar, sem að öðrum kosti hefði verið veitt. Ég sé því ekki annað en að það sé bara orðaleikur, að þetta fé sé tekið til vega í landinu, þar sem annað fé verður sjálfsagt í þess stað aftur tekið frá vegunum. Ég sé því ekki, að hér sé um neina ákaflega mikla umbót að ræða með því að ákveða, að þetta fé skuli fara til vega, nema skýrt sé tekið fram í l., að það skuli fara til einhvers sérstaks viðhalds vega, t. d. viðhalds brauta af einhverri sérstakri gerð. Nei, ég hefði haldið, að öruggast og bezt hefði verið fyrir bilferðirnar um landið og vegina yfirleitt að verja þessu fé í eina meginbraut, eina allsherjarhringbraut kringum landið, sem tengdi saman héruðin sem næst um allt landið, því að það er áreiðanlegt, að einmitt það kemur bifreiðaeigendum, sem borga einir þetta gjald, til góða, að þessir bílvegir nái sem viðast um landið og verði sem beztir. Ég játa að vísu, að þetta er líklegt til að verða meira orðin tóm en neitt annað, því að Alþ. hefir ekki siðferði til þess að framkvæma annað eins og þetta. Og þá er ákaflega hætt við misbrestum í störfum þess víðar, ef hv. þm. geta ómögulega lagt kjördæmableðlana á hilluna rétt í þessu atriði. En slíkt má nú ekki verða, heldur þarf endilega að koma með þetta benzínfé heim í sveitirnar til þess að menn sjái ávöxt af starfi þm. í hans eigin kjördæmi og viðkomandi þm. fái svo af kjósendunum sín laun. Ég segi þetta ekki í áfellisskyni, heldur sem sorglega staðreynd, sem sýnir, hve kjördæmaskipulag okkar er nú heppilegt, að hv. þm. skuli vera svona ógurlega hræddir í þessu efni. Það kann að vera, að með þetta fyrir augum sérstaklega sé það réttast, eins og tekið hefir verið fram hér, að verja þessu fé eingöngu til viðhalds vega, sérstaklega ef svo nákvæmlega væri til tekið, að því skuli varið til einhvers sérstaks viðhalds, og hið venjulega viðhald vega væri svo framkvæmt nokkurn veginn þar fyrir utan.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en get látið lokið máll mínu.