18.12.1939
Efri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Jónas Jónsson:

Út af ræðu hv. 1. þm. N.-M. vildi ég segja það, að við flm. þessarar till. höfum að vísu ekki talað við vegamálastjóra um þetta mál. En hann hefir talað við okkur um annað atriði, þ. e. malbikun vega hér við Reykjavík og Hafnarfjörð. Hann áleit, að það kæmi ekki til mála vegna stríðsástandsins, að hægt væri að gera malbikaða vegi. Það þarf mikið sement og asfalt í þessa vegi, þannig að allar líkur voru taldar til í fjvn., að niður félli malbikun við Reykjavík og Hafnarfjörð að þessu sinni og því fé yrði varið til vegagerða yfirleitt.

Það vakir fyrir okkur, og ég vona, að hv. 1. þm. N.-M. sjái það, að ef vegamálastjóri lætur falla niður malbikun á vegum af þessum ástæðum, þá byggi hann það á sinni reynslu. En ég álit, eins og hæstv. fjmrh. benti á, að ef það kæmi fyrir, að vegamálastjóri áliti það fært, þá sé með þessu ákvæði ekki bannað að malbika vegi, og ég hygg, að fjvn. myndi sjá til að ráða fram úr því.