18.12.1939
Efri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Ég vil slá því þegar föstu, að ef þessi till. verður samþ., sem ég er á móti að verði samþ., þá liggi það þó í þessum orðum „lagning þjóðvega“, að það megi hafa þá aðferð, sem þykir hentugust eða er hægt að koma við, þótt þessu verði breytt. Ég vil, að þetta komi skýrt fram, því ef orðið „malbikun“ væri fellt niður án frekari grg., þá væri það beinlínis bannað að verja fé til malbikunar. Reynslan hefir sýnt, að engin önnur vegagerð hér á landi hefir dugað fyrir þungar bifreiðar heldur en malbikun eða steinsteypa. Jafnvel bezt púkkuðu vegirnir duga ekkert fyrir hinar þungu bifreiðar, og þær gera þá jafnvel að hinum verstu vegum, því það verður svo mikið hraun á þeim, ef þeim er á annað borð rótað upp.

Þá álit ég, að betra sé að ákveða þetta í fjárl., því þau eru sett fyrir eitt ár í senn, og því tækifæri til að breyta því hvenær sem er. (BSt: Þetta er líka fyrir eitt ár). En það er siður, að farið verði að höggva inn í þetta frv. Fjárl. eru hreyfanlegri heldur en l., sem eru framlengd frá ári til árs, því það er alltaf mikil tilhneiging til að framlengja þau óbreytt eins og þau eru. Svo framarlega sem sá skilningur er skýr, að hafa megi þetta eins og menn vilja á hverjum tíma, gerir það minna til.