03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Sveinbjörn Högnason:

Ég hefi ásamt hv. þm. V.-Húnv. borið fram brtt. á þskj. 683 við brtt. hæstv. atvmrh. á þskj. 677, sem hann hefir þegar lýst. — Brtt. okkar fer fram á það, að ef að því ráði verður hnigið að taka þessa upphæð af tekjum ríkissjóðs, en það munu vera um 200 þús. kr., og láta hana ganga til bæjar- og sýslusjóða, sé þeim gert að skyldu að leggja fram um hver áramót sundurliðaða skýrslu um ógreidd útsvör og önnur gjöld til bæjarfélaganna frá liðnum árum. Virðist ekki nema réttmætt, ef hluti af tekjum ríkissjóðs er látinn ganga til bæjarfélaganna, að þau geri grein fyrir því, hvernig þau hafi innheimt sín gjöld.

Það leikur ekki á tveim tungum, að nokkurt sleifarlag muni vera á innheimtu útsvara hjá sumum bæjarfélögum. T. d. hefir meiri hl. bæjarstj. í Reykjavík tekið sér það leyfi að gefa eftir allverulegan hluta útsvara. Þetta getur verið réttmætt í mörgum tilfellum, en hinsvegar er sagt svo, að í sumum tilfellum sé ekkert það, er réttlæti slíka eftirgjöf. Er rétt, að bæjarfélögin fái tækifæri til þess að sanna, að eftirgjafirnar séu á rökum byggðar. — Mér hefir verið sagt, að þessar eftirgjafir nemi sum árin nokkrum hundr. þús. kr.

Hæstv. atvmrh. fannst óhæfa að birta skýrslu um eftirgefin og ógreidd útsvör, og fannst hliðstætt að birta lista yfir þá, sem þiggja af fátækraframfæri. Ég tel það líka eðlilegt, enda hafa oft komið fram kröfur um það. Virðist mér, að þegar um jafnháar upphæðir er að ræða, sé það ekki nein goðgá, þó almenningur fái að vita, hvernig þessu fé er varið.

Ef Alþ. hverfur að því ráði að afhenda bæjar- og sýslufélögum um 200 þús. kr. af tekjum ríkissjóðs, álít ég mjög tilhlýðilegt, að þau birti skýrslu um það, hvernig þau innheimta aðra tekjustofna sína. Ef till. hæstv. atvmrh. verður samþ., tel ég sjálfsagt, að þessu ákvæði verði bætt við. Annars er ég mótfallinn till. hæstv. atvmrh. og mun greiða atkv. gegn henni.