03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Út af því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði um till., sem hann og hv. þm. V.-Húnv. hafa borið fram og hér liggur fyrir, langaði mig til að segja þetta: Það er dálítið undarlegt, að út úr því, að bæjarsjóðir eiga að fá nokkurn hluta af tekjuskattinum, er farið að gera l. um fyrirkomulag á allt öðrum málum bæjarstjórna í sambandi við það. Er ekki rétt að láta bæjarstjórnirnar ákveða sjálfar, hvaða innheimtuaðferðir þær hafa? Hv. þm. tók Reykjavík sem dæmi þess, hve slælega væri gengið eftir innheimtu á tekjum bæjarsjóðs. Ég skil ekki, að þessum hv. þm. sé neitt kunnugra um Reykjavík í þessu efni en önnur bæjarfélög á landinu.

Um innheimtuna í Reykjavík er rétt að upplýsa það, að það eru fleiri tekjustofnar, sem bærinn hefir, en útsvörin ein, en um þau talaði hann sérstaklega. Eru það þá fasteignagjöldin, sem einkum má fella undir orðalag till. Hvað útsvörin snertir get ég upplýst, að í Reykjavík er það svo, að það, sem niður fellur af útsvörum, er furðanlega lítið. Það er alltaf árlega innan við 5% af álagningunni, þó að í þessum niðurfellingum séu verulega stórar upphæðir. Einu sinni lagði niðurjöfnunarn. t. d. 40 þús. kr. á mjólkursamsöluna, sem svo reis deila um, enda var það vafasöm álagning frá upphafi, en, þetta var ein af þeim upphæðum, sem niður var felld á því ári, af því að álagningin stóðst alls ekki. Það er oft svo, að þær upphæðir, er felldar eru niður, eru skakkt lagðar á eða óinnheimtanlegar af einhverjum öðrum gildum ástæðum. Þegar svo verið er að tala um, að niðurfelling sé óvarleg, þá þykir mér undarlegt, að hv. flm. skuli taka Reykjavík sem dæmi um, að illa hafi gengið með innheimtu. Það er einungis reist á misskilningi.

Annars verð ég að segja það, að ef á að birta skrá yfir það árlega, hverjir séu í vanskilum við hið opinbera, þá má eins birta skrá yfir þá, sem skulda fyrir gas og rafmagn.

Ég verð að segja, að mér virðist líkast því sem hv. flm. hafi flutt þessa till. í einhverri geðvonzku.