03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Sveinbjörn Högnason:

Mér þykja það í raun og veru miklar upplýsingar, sem hv. 4. þm. Reykv., sem jafnframt er borgarstjóri hér, gaf í sambandi við mál þetta, þegar hann gaf til kynna, að allt að 5% væru gefin eftir af útsvörum árlega í bænum. Það er engin smáupphæð, þar sem ég hygg, að jafnað sé niður um 4 millj. kr. á ári. Ef gefin eru eftir 5% af því, þá nemur það 200 þús. kr. Það virðist nú ekki óeðlilegt, þó einhver grein væri gerð fyrir þessu, eins og á sér stað hjá öllum sveitarstjórnum á landinu, því reikningum þeirra fylgir alltaf sundurliðuð skilagrein um það. Ég er viss um, að hvergi á landinu nemur eftirgjöfin nálægt því eins hárri hundraðstölu og hér er um að ræða.

Hv. 4. þm. Reykv. var að tala um, hvort ekki væri rétt að láta borgarstjóra sjálfráðan um innheimtu gjalda, en það er alls ekki það, sem um er að ræða í till. okkar, heldur að grein sé gerð fyrir, hvernig hafi innheimzt. Ef borgarstjórinn óskar eftir sjálfræði um það, þá tel ég rétt að láta borgarstjórann einnig sjálfráðan um að afla teknanna. Það virðist ekki sanngirni í því, að hann láti Alþingi afla teknanna, — taki þær af tekjum ríkissjóðs, en svo sé það talinn slettirekuskapur af Alþingi að vilja vita, hvers vegna gefið er eftir af útsvörunum. Ef það er ekki allt með eðlilegum hætti, þá er von, að hann vilji það ekki, en eðlilega styrkir það nokkuð grun manna um, að eitthvað sé þar óeðlilegt, ef ekki má birta neitt um það, hvernig stendur á eftirgjöfum útsvara hér í bænum. Ef fara á þannig að taka beint af tekjum ríkissjóðs þá upphæð, sem hér um ræðir, og rýra þannig tekjur hans, þá verður það auðvitað til þess, að afla verður honum innan skamms nýrra tekna í stað þeirra, sem hér ræðir um, með nýjum álögum á almenning í landinu, til þess að hjálpa bæjarfélögunum, og þá sérstaklega Reykjavík, til þess að standast sín útgjöld. Ég sé ekki, að það sé réttlátt, þar sem bæjarfélögin hafa viðast hvar betri aðstöðu til að afla sér tekna en sveitarfélögin. Þar af leiðandi tel ég þessa tillögu engan rétt hafa á sér.

Hæstv. fjmrh. taldi, að okkar till. væri fram borin í því skyni, að hún gæti orðið aðaltill. að falli. Ég sé ekki, hvernig það má verða. Till. er

eingöngu flutt til þess, að ef aðaltill. er samþ., þá setji Alþingi nokkur skilyrði fyrir veitingu slíkrar upphæðar til bæjarfélaganna. Það eru svo sjálfsögð skilyrði, að allir hljóta að fallast á þau, sem sjálfir hafa hreina samvizku. En ef þeir af hv. þm., sem fara með stjórn bæja, hafa ekki sem bezta samvizku, þá er von, að þeir veigri sér við að láta koma fram, hvernig þeir fara með þau völd.