03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Forseta hefir láðst að skrifa það niður, að ég hafði beðið um orðið, en það kemur ekki til mála að vera að finna að því, þótt ég hafi orðið að bíða eftir að taka til máls, enda kemur það sér ekkert bagalega; það er ekki svo mikið, sem ég þarf að segja.

Það er þannig með þetta frv., að í því er dálítið æxli, sem ekki hefir verið tekið eftir. Þannig standa sakir, að með l. um fiskimálanefnd o. fl. er heimilað fé í 14. gr. 3. tölul. til þess að styrkja félög sjómanna og verkamanna og annara til að kaupa í tilraunaskyni nýtízku togara. Nú hefir þetta fé verið dregið inn og ekkert fé veitt í þessu skyni í fjárl. til fiskimálanefndar. Það kom í ljós, eftir að þessi ákvæði voru lögfest, að það vildi enginn, eða gat enginn lagt fram fé á móti þessu, því í þessum sama tölul. 14. gr. er svo fyrir mælt, að þeir, sem vilja nota þennan styrk, skuli leggja fram 15–20% úr eigin sjóði á móti þessum styrk til togarakaupa í tilraunaskyni. Enginn hefir verið við því búinn að leggja þetta fé fram, og tók Alþingi þá þann kostinn að setja ný l. um bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga. Þar er ákvæði í 2. gr. á þá leið, að helmingurinn af þeim skatti, hátekjuskattinum, sem tekinn er af þeim, sem hafa 6 þús. kr. árslaun og þar yfir, skuli ganga til þess að lána þeim mönnum, sem vilja leggja fram á móti þessum styrk, til þess að kaupa nýtízku togara í tilraunaskyni. Nú stendur þetta ennþá í frv. sem gamalt æxli, þrátt fyrir það, að búið er að hverfa frá fjárveitingu í þessu skyni. Þetta á þess vegna ekki heima í frv. lengur, en féð var heimilað, eins og allir sjá, í því skyni að styðja endurnýjun fiskiflotans. Það er í sjálfu sér þarflegt mál, en nú býst ég ekki við, að margir verði til þess á þeim tímum, sem nú standa yfir, að byggja fiskiskip, hvorkj togara né heldur smærri skip, nema eitthvað lítilsháttar innanlands. Það er víst, að á öllum tímum er þörf á að endurnýja fiskiflotann, því það er hann, sem skapar þær útflutningsvörur að langmestu leyti, sem okkar utanríkisverzlun byggist á. Það er engin stofnun hér á landi, sem sérstaklega er ætlað það hlutverk að styðja að viðhaldi fiskiflotans, nema fiskveiðasjóður Íslands, og þess vegna held ég, að það sé rétt, að í staðinn fyrir þessa heimild um að veita mönnum helminginn af hátekjuskattinum til þess að leggja fram fé á móti styrknum úr fiskimálasjóði til að kaupa nýtízku togara í tilraunaskyni, þá verði féð látið til fiskveiðasjóðs.

Ég lít svo á, að þetta sé ekki nema sjálfsögð leiðrétting, og ætla ég að leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við frv. um það, að í staðinn fyrir, að hér stendur, að féð skuli veitt í þeim tilgangi, sem ég hefi áður lýst, þá komi: í fiskveiðasjóð. — Það er mjög einföld breyting.

Um leið og ég minnist á þetta, þá vil ég taka það með, að 5. gr. frv. hljóðar svo: „Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1940.“ Er þetta í nokkrum frv., sem gert var ráð fyrir, að samþ. yrðu fyrir áramót, og hefi ég því látið fylgja aðra brtt., sem hljóðar svo: „5. gr. hljóði svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég geri ekki ráð fyrir, að neinn ágreiningur sé um þetta. Þetta er hvorttveggja í raun og veru leiðrétting, og vil ég leyfa mér að leggja brtt. fram fyrir hæstv. forseta.