03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Skúli Guðmundsson:

Það hafa orðið nokkrar umr. um brtt. okkar hv. 1. þm. Rang., sem er á þskj. 683. Hæstv. fjmrh. var búinn að slá því föstu í sinni ræðu, að við mundum verða á móti því undir öllum kringumstæðum, að bæjar- og sýslusjóðir fengju þær tekjur, sem þar er gert ráð fyrir. En ég fyrir mitt leyti greiði atkv. með till. hæstv. ráðh., ef okkar till. yrði samþ. eða það fengizt á einhvern hátt tryggt, að því efni, sem felst í henni, yrði fullnægt. Og vildi ég í þessu sambandi taka fram, að ef hæstv. ráðh., sem er í bæjarstj. Reykjavíkur, eða hv. 4. þm. Reykv. vildu gefa fyrirheit um það, t. d. að fulltrúi Framsfl. í bæjarstj. gæti hvenær sem hann óskaði fengið upplýsingar um það, hvað væri eftirgefið af útsvörum, og sömuleiðis þegar hann óskaði eftir skýrslu um það, hvað væri óinnheimt af bæjargjöldum, þá getum við flm. gengið inn á að taka till. okkar aftur. En mér skildist á hæstv. ráðh., að allir bæjarstjórnarmeðlimirnir hefðu möguleika til að fylgjast með því, hvað eftirgefið væri af útsvörum.

Fyrir nokkru síðan bar fulltrúi Framsfl. fram till. á bæjarstjórnarfundi, sem gekk í sömu átt og okkar brtt. gengur. Mér hefir verið sagt, að

henni hafi verið visað til bæjarráðs, en hún enga afgreiðslu fengið þar. Ég tel eðlilegt, að þeir, sem greiða árlega háar upphæðir skilvíslega til bæjarins, vilji gjarnan fá að fylgjast með því, hvort aðrir, sem hafa greiðslugetu, sleppi við það á einhvern hátt.

Það hefir verið minnzt á það af Framsfl., að prentuð yrði skýrsla um fátækraframfærið. Þetta hefir ekki verið gert, og þrátt fyrir samstarf milli 3 flokka meiri hluta ársins í landsmálum, virðist sem till. minnihl.flokkanna um ýms þessi mál í bæjarstj. Reykjavíkur hafi ekki mætt betri viðtökum en áður hefir tíðkazt. Vildi ég því vita, hvort hæstv. ráðh. eða hv. 4. þm. Reykv. vildu ekki lýsa yfir, hvort þeir myndu, ef óskir kæmu frá minni hl. bæjarstj. um það, afhenda honum eða fulltrúa hans slíkar skýrslur, og myndum við þá, ef það væri gert, fúsir til að draga till. okkar til baka.