03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Skúli Guðmundsson:

Ég er ekki alveg ánægður með svar hv. 4. þm. Reykv. — Ég hafði ekki talað um það, að fulltrúi Framsfl. í bæjarstj. Reykjavíkur hefði minni rétt þar en aðrir fulltrúar. En þó að hann hefði alveg sama rétt og hinir fulltrúarnir, þá væri æskilegt að vita, hver sá réttur er. T. d., ef einn fulltrúinn kæmi og óskaði á einhverjum tíma að sjá skýrslur yfir ógreidd gjöld til bæjarins, hvort hann gæti átt heimtingu á því, að svo miklu leyti og svo fljótt sem bægt væri. En að þetta sé svo mikið bákn, að gera þessa skýrslu, og það kosti svo mikið fé og tíma, finnst mér varla vera frambærilegt. Hvert fyrirtæki verður einu sinni á ári að gera upp sinn hag, og bæjarsjóður Reykjavíkur er þar engin undantekning. Og ef það er eins og hv. 4. þm. Reykv. vildi gefa í skyn, að þetta sé svo kostnaðarsamt, að þessi styrkur myndi að mestu leyti eyðast til þess, þá bendir slíkt til þess, að reikningsfærsla bæjarins sé ekki í svo fullkomnu lagi sem vera ætti.

Meðan ég fæ ekki upplýst, að hver bæjarfulltrúi hafi rétt til þess að fá þessar skýrslur, ef hann óskar eftir, sé ég ekki fært að hverfa frá minni till. Hinsvegar finnst mér þessi ósk sjálfsögð. Og ef hún fengist, myndum við taka till. okkar aftur.