03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég skal geta þess til viðbótar því, sem hæstv. atvmrh. tók fram, að í raun og veru er það ekki nein hækkun, sem hér er farið fram á, þó að það sé að forminu til. Í 4. gr. frv., sem brtt. er stíluð við, er tiltekið, að innheimta skuli árið 1940 með 11% viðaukaskatti alla skatta og gjöld samkv. frv., þegar þessi l. voru sett um bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga. En það var jafnframt í sömu gr. beimild til þess að hækka þetta viðaukagjald upp í 12% með vissum skilyrðum. Síðan voru skattarnir innheimtir með þessum 12% viðauka. Það var þægilegra í útreikningi skattsins að hafa þennan viðaukaskatt 12%, en ekki 11%, af því að þegar 25% viðaukanum er bætt við upphaflaga skattinn, verður skatturinn með viðaukanum 125%, miðað við upphaflega skattinn. Og þegar 12% bætast við þessi 125%, verður það alls 140%, miðað við upphaflega skattinn, og skattaukinn þá alls 40%. Þess vegna er þessi till. sæmileg að því leyti, að hún þarf ekki meðmæla við, því að hækkun þessi hefir verið í gildi undanfarin ár, og er það enn, þótt komin séu áramót.

Um brtt. á þskj. 683 skal ég ekki mikið mæla. Hún er ákaflega einkennileg og lítt skiljanleg nema frá sérstöku sjónarmiði, þegar menn vita það, hvernig sumir hv. þm. og menn utan þings snúast við málefnum Reykjavíkurbæjar. Þessari brtt. getur ekki verið stefnt að öðrum en að bæjarstj. Reykjavíkur, og er miðuð sérstaklega við Reykjavíkurbæ. En það er í raun og veru nokkuð þreytandi að byggja landslög á ákvæðum, sem stefnt er að einstöku bæjar- eða sveitarfélagi, eða jafnvel þó að sýslufélag væri. Og jafnvel þó að till. hefði rétt á sér stjórnarfarslega, þá þyrfti hún ekki að vera löggjafaratriði. Það er eðlilegt, að skýrslur eigi að liggja fyrir fulltrúum bæjar- og sveitarfélaga hvenær sem til þarf að taka. En beint með tilliti til þess er till. ekki rétt eins og hún er orðuð. Því að það er ekki hægt að heimila það og ekki hægt að framkvæma það, að þessi skýrsla liggi fyrir í árslok. Þó að málið að öðru leyti væri þannig vaxið, að hægt væri að krefjast þessara skýrslna að l., sem þó er ekki hægt um áramót, getur það ekki verið nóg tilefni til að gera það að skilyrði fyrir því, að eitthvert bæjar- og sveitarfélag fái þessa upphæð og að fella það niður, að bæjar- eða sveitarfélög fengju þetta framlag, ef ekki fengizt framlögð þessi skýrsla við hver áramót. Það væri ekki nema eðlilegt í sambandi við það, hvernig hér er komizt að orði, að þeir ráðh. gætu til verið, sem notuðu sér að borga ekki út það fjárframlag, sem bæjarfélagið á að fá eftir þessu frv., vegna þess að þessi skýrsla væri ekki komin um áramót. Þessi till. er því að efni og formi lítt framkvæmanleg. Eins og ég tók fram og hv. 4. þm. Reykv. aftur hefir tekið fram, er ekki auðvelt að afla þeirra skýrslna á þeim stutta tíma. Það væri mesta fyrirhöfn að pæla í þessu, sem vitanlega yrði svo sett í blöð og básúnað fyrir fólkinu.

Það hefir komið fram skrifl. brtt. frá hv. þm. Borgf., sem ég skal ekki ræða mikið, að fyrir „sýslusjóða“ í tillgr. komi: sveitarsjóða. En þegar þetta ákvæði var sett, þá var það gert af ásettu ráði að miða við sýslufélag, en ekki sveitarfélag. Það liggur í þessu tvennt, að það má segja, að bæjarfélag sé hliðstæðara sýslufélagi heldur en sveitarfélagi. Bæjarfélag er að vísu bæði sveitarfélag og sýslufélag sameinað. Þessvegna er jöfnuður þarna innbyrðis gefinn, þegar heimildin er tekin. Það er ekki jöfnuður eins og hér er lagt til, að þegar ríkið leggur þannig fé til bæjar- og sveitarfélaga, þá er ekki jöfnuður til staðar, ef féð á að fara beint í hvert sveitarfélag, því sveitarfélög greiða mjög misjafnan tekjuskatt. Og til eru sveitarfélög, sem engan skatt greiða, af því að þau eru fátæk, og þurfa því sérstaklega að fá þessa uppbót. En með því að færa þetta ákvæði yfir á sveitarsjóðina, í staðinn fyrir sýslusjóðina, þá myndu verst stöddu sveitarfélögin ekkert fé fá. En ef það á að renna í sýslusjóði fyrst, þá koma þessi sveitarfélög líka til greina um að fá þessa uppbót.

Á þskj. 642 er gefin regla um niðurjöfnun á sýslusjóðsgjaldinu, sem jafna skal niður á hreppana. Og þar er farið þannig að, að þau sveitarfélög verða verst úti, sem eru svo og svo illa stödd. Þær reglur, sem farið er eftir, eru þær, að þessu er jafnað að 1/3 eftir tölu verkfærra karlmanna í hverju sveitarfélagi og að 1/3 eftir samanlögðum tekjum og að 1/3eftir skuldlausri eign. Þetta var gert til þess að komast að sem réttlátastri niðurstöðu um þessa niðurjöfnun. Með því verður ekkert sveitarfélag útundan. Það er í sumum kaupst., sem taldir eru vera betur stæðir en sveitirnar, að þar eru alltaf nokkrir útsvarsgreiðendur svo stæðir, að þeir bera það, sem jafnað er niður á þá, til gjalda sveitarsjóði.

Þetta er e. t. v. ekki stórt atriði. En það virtist liggja sá skilningur á bak við till. frá hv. þm. Borgf., að þetta ákvæði hefði komizt inn af gáleysi, en það var ekki, heldur átti þetta fé að fara til sýslufélaga, til þess að við niðurjöfnun þess kæmi hvert sveitarfélag til greina.