03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Emil Jónsson:

Það eru aðeins nokkur orð um 2 af þeim brtt., sem hér liggja fyrir við þetta frv. Önnur er frá hæstv. atvmrh., um það, að viðaukaskatturinn sé 12%, og hefir nú verið rætt um, að hann lendi til kaupstaðanna, eins og til þess að bæta þeim upp og auka við þeirra tekjur vegna vaxandi erfiðleika ýmissa, sem þeir hafa orðið fyrir bæði af hálfu löggjafans og einnig vegna ástandsins í heiminum.

Það var sagt hér áðan af hv. þm. V.-Sk., út af þeim brtt., sem komið hafa fram frá hv. 1. þm. Rang. og fleirum, að það væri óviðkunnanlegt að setja lög, sem aðallega væru miðuð við eitt bæjarfélag. En mér finnst till. hæstv. atvmrh. vera aðallega miðuð við eitt bæjarfélag, því að ég sé ekki, að hún komi öðrum að gagni heldur en Reykjavík, því að langsamlega mestur hluti tekjuskatts, sem innheimtur er í landinu, og kemur það kannske af eðlilegum ástæðum — er innheimtur hér í Reykjavík. Þannig að t. d. sá tekjuviðauki, sem kaupstaðir eða kauptún úti um landið fengju, ef þetta yrði að l., er svo hverfandi lítill, að mér er sama, hvoru megin hryggjar hann liggur.

Ég man ekki nákvæmlega tölur um tekjuskatt Hafnarfjarðar, en hann mun greiða í tekjuskatt um 50 til 60 þús. kr. þegar bezt lætur, og þó nokkuð oft er þessi upphæð lægri. Tekjuviðaukinn, sem bærinn fengi, yrði þá kannske í góðu ári nálægt 6 þús. kr. og í lakara ári minna. Það er langt frá, að þetta nægi nokkuð þeirri auknu tekjuþörf kaupstaðanna, sem þeir hafa óskað og kveinað eftir að fá.

Mér lízt svo á, að vegna þessa eigi svo að benda á þetta, eins og nú sé að einhverju verulegu leyti séð fyrir þessari þörf kaupstaðanna fyrir auknum tekjum, með því að láta þá hafa þennan tekjustofn, sem í flestum tilfellum munar þá ekki neitt. Það er aðeins einn kaupstaður í þessu landi, sem mundi verulega muna um þetta, og það er Reykjavík. Get ég tekið undir með hv. þm. V.-Sk., að það er óviðkunnanlegt að setja l., sem miðuð eru við eitt bæjarfélag. En vera kann, að brtt. á þskj. 683 sé aðallega miðuð við eitt bæjarfélag; en ég kann þá líka illa við brtt. á þskj. 677 og er á móti því, að hún verði samþ., en læt mig einu gilda um aðaltill., þ. e. a. s. frv., sem hún er stíluð við.

Mig langar til að minnast á skriflegu brtt. frá hv. 6. þm. Reykv. Hann leggur þar til, að helmingurinn af hinum svokallaða hátekjuskatti, sem áður hefir runnið til fiskimálasjóðs, renni nú til fiskveiðasjóðs. Í l. eins og þau nú eru er gert ráð fyrir, að ef fiskimálasjóður notar ekki þetta fé í þeim tilgangi, sem þar er tekið fram um að verja því til útlána til handa skipverjum á togara með nýtízku áhöldum, sem talað er um, að keyptur verði í tilraunaskyni, þá er gert ráð fyrir, að það sé látið renna í byggingarsjóð verkamanna.

Fiskimálasjóður hefir gefið loforð um að veita í þessu skyni 40 þús. kr. lán ákveðnu félagi eða meðlimum þess, án þess að það hafi verið innt af hendi vegna hinna örðugu tíma og vegna ýmiskonar örðugleika, sem komið hafa upp. Eins og hv. þm. vita, þá hefir verið stofnað í Rvík félag í þeim tilgangi að gera þessa tilraun, sem l. gera ráð fyrir, að kaupa nýtízku skip, og þá á að gefa þeim mönnum, sem á það skip ráðast, kost á að eiga hluti í skipinu. Í þessu skyni hefir fiskimálanefnd lofað styrk til skipakaupanna, 200 þús. kr., og svo þetta loforð um 40 þús. kr. lán. Hvorugt þetta loforð hefir verið uppfyllt, en það getur rekið að því hvenær sem er, að nefndin verði neydd til að standa við þessi loforð og greiða þetta fé.

Ég tel þess vegna, að það komi ekki til mála að samþ. þessa till., vegna þess að það liggja fyrir loforð um það, hvernig fénu eigi að verja, og það getur komið til þess hvenær sem er, ef eitthvað lagast í heiminum, að það verði notað í þessu augnamiði. Ennfremur á ekki að samþ. hana vegna þess, að l. eru þannig, að ef þetta fé verður ekki notað í þessu skyni, þá á það að ganga í byggingarsjóð verkamanna. Ég álít, að ekki eigi að breyta báðum þessum atriðum og að því samkomulagi, sem upphaflega lá til grundvallar fyrir þessari skattaálagningu, sé raskað, ef þessi till. hv. 6. þm. Reykv. verður samþ.