29.12.1939
Sameinað þing: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

161. mál, fjáraukalög 1938

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er aðdragandi þessa máls, að um þingtímann 1936 var orðið ljóst, að vertíðin það ár mundi bregðast sunnanlands. Þá leituðu útgerðarmenn við Faxaflóa til Alþingis og fóru fram á, að þeim yrði veitt sérstakt lán til þess að geta leyst út þá sjómenn, sem starfað höfðu hjá þeim yfir vertíðina. Þetta var hið mesta vandamál og var borið undir alla flokka. Niðurstaðan varð sú, að heimilað var sérstakt lán handa þessum útgerðarmönnum við Faxaflóa, til þess að þeir gætu staðið í skilum við þá sjómenn, sem ráðnir voru upp á kaup. Árið eftir, 1937, skeði það, að á Austurlandi varð svo mikil aflatregða, að margir sjómenn höfðu ekki nema 100–200 kr. tekjur yfir vetrarmánuðina. Á Austurlandi eru allir ráðnir upp á hlut, þar tíðkast ekki kaupráðning, og þess vegna kom aflaleysið svo hart niður á sjómennina. Hér var ekki nema um tvennt að ræða: annaðhvort að styrkja þá eða veita þeim lán, eins og útgerðarmönnunum við Faxaflóa, eða þá að látast ekki heyra bænir þeirra, og láta allt skeika að sköpuðu um það, að þessir sjómenn færu allir á hlutaðeigandi sveitarsjóð, menn, sem aldrei höfðu leitað þangað áður. Þá ákvað ríkisstj. í fullu samráði við formenn andstöðuflokkanna, að láta rannsaka efnahag þessara manna og hve mikla upphæð þyrfti til þess að þeir gætu komizt af án þess að þiggja af sveit. Niðurstaðan á þessum rannsóknum varð sú, að flestir þessara manna gátu komizt af með 50 kr. á hvern mann, sem þeir hefðu á framfæri sínu. Nú var, eins og á stóð, sjálfsagt að hlaupa hér undir bagga til hjálpar, og var það bein afleiðing af því, sem skeð hafði árið áður, aðeins í miklu minni stíl.

Í grg. frv. er gerð grein fyrir þessu, en mér fannst rétt, samkv. fyrirspurnum hv. þm. A.Húnv., að upplýsa þetta nánar en þar er gert.