21.11.1939
Efri deild: 65. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Mér finnst það nú satt að segja dálítið leiðinlegt og óviðeigandi, hvernig ýmsir hv. þdm., og að mér virðist hæstv. ríkisstj., hafa tekið í þetta mál.

Sannleikurinn er sá, eins og fram kom hjá hv. 1. þm. Eyf., að frv. þetta er lagt fram af ríkisstj., einungis vegna þess, að um það var samið, til þess að samningar gætu tekizt milli aðila. Að öðru leyti virðist vera ákaflega mikil tregða hjá hv. þm. til að skilja þetta mál, því að eins og einn hv. þm. tók fram, er hér um að ræða tekjur alveg sérstaks eðlis, ekki venjutegar launatekjur, heldur verðlaun, eins og kemur fram í nafni frv.: „áhættuþóknun“, — vegna þess að þessir menn, sem þessa þóknun eiga að fá, leggja líf og limi í mjög mikla hættu vegna þeirra nauðsynjastarfa, sem þeir inna af hendi. Í raun og veru er hér um að ræða þá hermenn þjóðarinnar, sem ættu skilið að þeim væri veitt sú viðurkenning, að þessi stríðsáhættuþóknun þeirra væri skattfrjáls. Þess vegna er þessi till. um skattfrelsi ekki sambærileg við skattfrelsi af öðrum tekjum.

Ef hér væri um að ræða, að menn vildu ekki veita þetta skattfrelsi vegna hagsmuna ríkissjóðs, væri vissulega nær að taka fyrst til athugunar, hvort ekki ætti að afnema skattfrelsi það, sem útgerðarfyrirtæki njóta nú samkv. l., eða að leggja skatt á stríðsgróða einstakra manna, sem nú á sér stað og mun eiga sér stað á meðan stríðið stendur yfir.

Ég þarf svo ekki að færa frekari rök fyrir þessari brtt., því að hún er nákvæmlega samskonar að efni til og frv. það, sem ég flutti hér í upphafi þingsins, og er ekki til annars fram komin en til þess að færa þetta frv. í sama horf og það frv. var.

Ég sé, að fram eru komnar brtt. frá hv. 2. landsk., sem fara í sömu átt. Þessar brtt. hafa ekki legið fyrir, sem ekki er von, þar sem önnur þeirra er skrifleg. Ég skal ekki segja, hvort mín till. eða till. 2. landsk. er þörf eða óþörf, a. m. k. fyrr en ég sé skrifl. brtt. Aðalatriðið er, að þetta fái að vera á þann veg, sem við leggjum til.