21.11.1939
Efri deild: 65. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það var út af ræðu hv. 1. þm. Eyf., formanns fjhn., sem ég vildi segja nokkur orð.

Mér skildist á hans ræðu eins og það hefði ekki verið tekin nein afstaða í n. um brtt. Því að hans ræða hneig mest af því, að fjhn. hefði óskipt flutt frv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir, en hinsvegar hefði n. ekki tekið neina afstöðu til brtt. um það, að áhættuþóknunin skyldi vera skattfrjáls. Ég hygg, að þetta sé rétt, að um það hafi hver nm. óbundin atkv. Einn hv. nm. er ekki hér á fundi, svo að ekki er hægt að segja um hans atkv. við þessa umr.

Hinsvegar kom fram hjá hv. 1. þm. Eyf. það álit — að mér skildist persónulega frá honum, en ekki að hann talaði fyrir hönd n., að hér væri gengið inn á mjög varhugaverða braut með því að veita þessa skattaívilnun, ef það væri samþ. Hann vitnaði í þessu sambandi í það, að hér ættu hlut að máli einna tekjuhæstu menn þjóðarinnar (BSt: Sumir þeirra). Já, skipstjórarnir. Þó að þeir séu tekjuháir, þá álít ég ekki rétt að segja, að þeir séu tekjuhæstir. Það fer einnig mjög eftir afla í hvert skipti, hverjar tekjur þeirra verða. Og á 4–5 árunum síðustu hafa tekjur þeirra ekki verið neitt svipað því eins háar og oft var þar áður, þegar útgerðartíminn var lengri, verð hærra á afurðunum og fleira hagstæðara fyrir þá en nú. En með þeirri verðhækkun, sem nú hefir átt sér stað í sambandi við ísfisksflutning til Englands, þá hljóta laun skipstjóra náttúrlega að hækka að mjög miklum mun, því að hundraðshluti þeirra af afla mun haldast óbreyttur. Aftur á móti þegar keyptur er fiskur í togara til útflutnings, þá er ekki um neinn hundraðshluta að ræða fyrir skipstjórana, heldur eru þeir þá ráðnir upp á fast mánaðarkaup. Og mér er kunnugt um, að það er ekki hærra, heldur lægra en kaup hjá skipstjórum á flutningaskipum, sem fara á milli landa.

Enda þótt skipstjórar hafi góðar tekjur, er það samt ógerningur að taka einn einasta mann af skipi út úr í þessu sambandi og láta hann ekki hafa sömu kjör um skattfrelsi og aðra skipverja. Á skipstjórum hvílir mikil ábyrgð og áhyggjur, og ekki sízt þeim, sem sigla gegnum þau svæði, sem hættuleg eru vegna ófriðarins. Og það skal enginn halda, að þeir séu tilfinningalausir fyrir starfi sínu. Þó að hér sé um tekjuháa menn að ræða, er ógerlegt að taka þá eina undan í þessu sambandi.

Þessi áhættuþóknun mun koma til með að verða greidd aðeins nokkurn hluta ársins, 4–5 mánuði, — eða kannske eitthvað lengur, það er óreynt ennþá — til starfsmanna á togurum, sem sigla með ísfisk til Englands. Og viðvíkjandi undirmönnum á þeim þann tíma, og að nokkru leyti yfirmönnunum líka, er það að segja, að alltaf eru allmikil skipti á mönnum til þessara starfa. Því að reynslan er sú, að þegar siglt er um hættusvæði, þá vilja menn gjarnan taka sér hvíld frá því hugarstríði, sem fylgir því að sigla á þessum svæðum. Upphæðin af þessari áhættuþóknun og eftirgjöf á skatti verður því ekki mikil á hvern mann. Það þarf því ekki að blæða mönnum í augum, að stórmikið falli þarna undan skatti.

Þetta vildi ég taka fram af því að mér virtist kenna nokkurs ótta hjá hv. 1. þm. Eyf. um það, að hér væri verið að ganga inn á braut, sem leiddi af sér einhverja óheillavænlega stefnu fyrir aðra gjaldþegna í landinu. Hann reyndi að rökstyðja það með því að segja, eins og líka rétt er, að fleiri ynnu áhættustörf heldur en þeir, sem sigla á áhættusvæðum hafsins. Jú, –það er rétt. Það er fjöldi áhættustarfa til bæði á sjó og landi. Og slíka áhættu hefir sjómannastéttin orðið að búa við frá alda öðli. Sjósókn er alltaf áhættustarf. En það er ekki sú áhætta, sem hér er um að ræða. Hver maður, sem fer á fleytu rétt út fyrir ströndina, er að stunda áhættustarf, og svo hefir það verið frá alda öðli. En hér stendur alveg sérstaklega á. Hér eru ekki náttúruöflin að verki til að gera siglingar áhættusamar, heldur er hér um að ræða mannaverk, þar sem tundurdufl eru lögð á siglingaleiðir skipa og kafbátum getur skotið upp hvar sem vera skal á yfirborði hafsins. Í siglingum um áhættusvæði hafsins er því nú um að ræða nýja áhættu, sem menn hafa ekki átt við að búa. Ef við þyrftum ekki að skipta við önnur lönd, mundi þessi áhætta ekki vera til. Þá þyrftum við aðeins að búa við okkar gömlu áhættu eins og verið hefir. Og þetta vildi ég, að hv. 1. þm. Eyf. skildi. Hér er ekki um launaviðbót að ræða, heldur verðlaun fyrir sérstaklega unnið störf á áhættutímum fyrir okkar þjóðfélag, sem engir aðrir eru nauðbeygðir til að leggja út í en þessi eina stétt. Það er líka þess vegna sem þessi stétt, þ. e. a. s. Vélstjórafélag Íslands, segir í niðurlagi viðaukagreinar. sem fylgir samningum milli Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda og Vélstjórafélags Íslands um stríðstryggingu og áhættuþóknun, og er þetta hvorttveggja prentað sem fskj. með frv., á þessa leið:

„Ennfremur í trausti þess, að Alþingi verði við hinni sanngjörnu kröfu vorri, að öll áhættuþóknun verði skattfrjáls, eða leysi málið á annan viðunandi hátt.“

Þessu hafa þessar stéttir, vélstjórarnir og botnvörpuskipaeigendurnir, óskað eftir, þrátt fyrir það, þótt ríkisstj. vildi ekki lofa meiru en hún var viss um að hún væri fær um að efna, að Alþ. gengi skör lengra og léti alla áhættuþóknunina vera skattfrjálsa.