21.11.1939
Efri deild: 65. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og ég sagði áðan, kemur mér ekki til hugar að deila um þetta mál eða orðlengja það mjög.

Þeir eiga sammerkt um það hv. 1. landsk. og hv. 2. landsk., þegar þeir tala um þetta mál, að það er eins og þeir telji, að menn eins og ég, sem ekki vilja ganga að fyllstu kröfum um skattfrelsi þessum sjófarendum til handa, séu á móti því, að þeir fái bætur fyrir áhættu þá og taugastríð, sem annar þeirra talaði um, sem þessir menn hafa við það að sigla um áhættusvæði. En þetta er alls ekki rétt. Ég álít rétt, að sjómenn á íslenzkum skipum fái bætur fyrir þessa áhættu og fyrir það aukna erfiði, andlegt og líkamlegt, sem þeir þurfa að leggja fram. Og þessar bætur hafa þeir þegar fengið samkvæmt samningum. Og ef þetta þykir ekki nóg, þá hefði ég talið eðlilega leið, að þessar bætur hefðu verið meiri, heldur en hitt, að fara að taka vissar stéttir í þjóðfélaginu, þó að þær eigi allt hið bezta skilið, og veita þeim sérréttindi um skattgreiðslur. Það er það, sem ég benti á, að ég teldi varhugaverða stefnu, þó að ég sé hinsvegar búinn að ganga inn á hana að hálfu leyti með því að fylgja þessu frv. eins og það liggur hér fyrir.

Ég skal alveg játa, að það er rétt, sem hv. 1. landsk. sagði, að það mundi ekki vera vegna ríkissjóðs, sem haft væri á móti þessum brtt: Það er ekki vegna ríkissjóðs að því leyti, að ég telji, að það muni svo mikið um skattinn af þessari áhættuþóknun hálfri, heldur er það vegna fordæmisins, sem með því væri gefið. Því að það getur verið svo margt, sem kemur til greina, t. d. í framtíðinni, um störf, sem þykja ákaflega nauðsynleg, en jafnframt af einhverjum ástæðum ákaflega óþrifaleg. Það er ómögulegt að segja um það, nema þeir tímar geti komið, að ástæða þyki til að veita öðrum stéttum en þeim, sem um getur í frv., skattfrelsi eins og þessari stétt nú. Við skulum taka einfalt dæmi. Ef drepsótt gengur í landinu. eins og oft hefir komið fyrir, — hvernig er þá aðstaða læknanna? Ég held, að þeir séu þá í mjög mikilli hættu eins og sjómenn í þessu tilfeili. Á þá að veita læknum skattfrelsi í slíku tilfelli? Það er þess vegna fordæmið í þessu tilfelli, sem ég ber fyrir brjósti, en ekki sú upphæð, sem ríkissjóður mundi tapa á þessum sérstöku mönnum. Og allt það, sem hv. 2. landsk. talaði um, að hér væri um nýja hættu að ræða, sem ekki hefði verið til staðar fyrr, og að þess vegna ætti að veita þennan rétt, það kemur frá mínu sjónarmiði og samkv. því, sem ég nú hefi sagt, ekki beinlínis málinu við. Því að það, að þessir menn fái fullar bætur fyrir þessa áhættu og þetta aukna erfiði, andlegt og líkamlegt, því er ég með, en ekki, að þær bætur verði skattfrjálsar.

Þá veik hv. 2. landsk. dálítið að afstöðu fjhn. aftur og gat um það, að einstakir nm. í þeirri n. mundu ekki hafa tekið afstöðu til brtt., sem fram kynnu að koma. Þetta er rétt; n. hefir ekki gert það. En það hafa engar brtt. komið fram mér vitanlega, sem ganga út á annað en það, sem frv. á þskj. 270 gengur út á, m. ö. o., að öll áhættuþóknunin sé skattfrjáls. Og með því að taka afstöðu til þessara 2 frv., sem fyrir liggja, verð ég að líta svo á, að n. hafi jafnframt tekið afstöðu til þessara brtt., þó að um þær hafi ekki farið fram nein atkvgr. í n. út af fyrir sig. Það er nú því miður ekki nema annar af hv. meðnm. mínum hér viðstaddur. En sé þetta ekki réttur skilningur hjá mér, leiðréttir hann það sjálfsagt fyrir sitt leyti.