21.11.1939
Efri deild: 65. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Magnús Jónsson:

Ég finn enga tilhneigingu hjá mér til þess að hlaupa í skörðin fyrir formann og frsm. n. í umr. um þetta mál. Enda finnst mér sannast að segja, viðvíkjandi þessum brtt., að það sé sá tónn í ræðum þeirra hv. 1. landsk. og hv. 2. landsk., að það muni vera meira til að sýnast en að vera fyrir þeim að bera fram þessar brtt. Það er alltaf vinsælt að rísa upp og gera bærri kröfur. Og þeir vonast til þess að geta fengið einhverja sjómenn með sér fyrir að gera fleiri kröfur fyrir þeirra hönd heldur en samningar stóðu til og bornar eru fram í frv. því, sem fjhn. hefir flutt hér.

Annars stóð ég upp mest vegna þess, að hv. frsm. lét í ljós, að sér væri ekki fullkunnugt um afstöðu okkar hinna nm. um brtt., sem fyrir liggja. Ég lýsi því yfir, að ég er honum sammála, því að öðrum kosti hefði ég ekki verið með því að flytja frv. þetta aths.-laust en hinsvegar að afgr. ekki frv., sem fyrir n. lá og gekk út á það sama og í brtt. felst. Og í þessu liggur það skýrt og skorinort fyrir frá hálfu allra nm., að þeir eru þessu frv. fylgjandi. Og hvers vegna ég er með þessu frv. án tillits til þess, sem sagt er og karpað um þetta mál, það liggur fyrir í grg. frv., sem sé að það er vegna þess, að þetta er samningsatriði. Um leið og þessi samningur var gerður við sjómenn, þá hefir ríkisstj. lofað að hlutast til þess, að helmingur af þóknun þessari yrði skattfrjáls. Og ég vil, á meðan ég stend að nokkrum parti að ríkisstj., að hún standi við sín orð. Og ég er hissa á hv. 2. landsk., sem að nokkru stendur að ríkisstj., að hann skuli vilja hvika frá þessu, því að samningur er samningur. En það getur nú vel verið, að það sé erfitt rúm, sem þessi bv. þm. fyllir þarna, og honum sé eins mikil vorkunn eins og sjómönnunum, sem þessi brtt. er borin fram fyrir. Ég tek honum þetta ekkert illa upp. Það er mjög fjarri því.

Annars skal ég ekki fara út í þetta frv. efnislega. Ég er frsm. sammála um þetta hvorttveggja, að rétt sé að greiða ríflega þóknun fyrir áhættuna við það að sigla yfir hættusvæði hafsins, alveg án tillits til alls taugastríðs og þess háttar, því að margir sjómenn eru ákaflega taugasterkir og taugasterkari heldur en kannske sumir hv. þm. hér í d. (PZ: Ætli það ekki?), — og hinsvegar, að ekki beri að veita þessum mönnum sérréttindi um skattfrelsi. Og ef um það er að ræða að standa við samninga, sem ríkisstj. er búin að gera, þá tel ég þó nokkuð varhugavert að fara nokkuð að breyta þessu ákvæði frv. Og dæmið, sem hv. 1. þm. Eyf. tók af því, ef t. d. geisaði drepsótt, er alveg rétt, því að þá væru bæði læknar og einnig hjúkrunarfólk í sömu hættu og sjómenn eru nú. En ég hefi aldrei heyrt, að þetta fólk hafi farið fram á áhættuþóknun, hvað þá skattfrelsi. Læknar hafa orðið að ganga til starfa sinna eins og hermenn þjóðarinnar. Og hvað fá hermenn þjóðanna nú í áhættuþóknun? Ég held bara ekki neitt. (SÁÓ: Jú tryggingu.) Já, tryggingu. (SÁÓ: Og kauphækkun).

Mér finnst rétt, að greitt sé ríflega fyrir að flytja á milli landa á áhættusvæðunum, eins og í mörgum tilfellum er greitt hærra kaup fyrir áhættusöm verk, — t. d. fá kafarar mjög hátt kaup. En mér vitanlega hefir aldrei verið á það minnzt, að þeir væru skattfrjálsir. Ég hefi aldrei heyrt talað um skattfrelsi vegna þess að áhættusöm störf hefðu í för með sér taugastríð. Það er skattfrelsið, sem hér er um að ræða, en ekki áhættuþóknunin. Um að veita hana eru allir sammála.

Úr því að ég stóð upp, get ég ekki stillt mig um að segja, að það er dálítið einkennilegt að heyra hv. 1. landsk. og hv. 2. landsk. tala nú um greiðslu beinna skatta eins og einhver óttaleg neyðarkjör, vegna þess að þeir heyra til flokkum, sem halda fram, að einu sanngjörnu skattarnir séu beinu skattarnir, og vilja afnema helzt alla tolla og taka gjöldin af þessum ríku mönnum; ef menn hafa háar tekjur, þá að taka þær bara með beinum sköttum af þeim. Nú koma þessir menn fram og segja: Hvílík dæmalaus óhæfa þetta er, að taka þetta af þessum mönnum með beinum sköttum! Það er gaman að sjá þessa þm., þegar þeir horfa framan í þetta sitt sköpunarverk, hina háu skatta. Ég veit, að þetta er ákaflega ósanngjarnt og er þeim alveg sammála. Það er eins og hv. 2. landsk. segir, að það, hve hátt kaup þessara manna verður, fer alveg eftir því, hve mikið þeir sigla á þessum hættusvæðum. Það er auðséð, að ef þeir sigla mikið eftir hættusvæðum, þá fá þeir mjög hátt kaup á íslenzkan mælikvarða, þar sem þeir geta fengið 250% hækkun, og ættu því þessir hv. þm. að segja samkv. stefnu sinni: „Já, þarna eru menn, sem eiga að greiða í ríkissjóðinn“. Þessi orð mín eru ekki beinlínis um málið, en ég gat ekki stillt mig um að segja þetta, þegar ég var búinn að hlusta á þessa hv. þm. kvarta um hina beinu skatta, eins og þeir orðuðu það.