21.11.1939
Efri deild: 65. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Það er aðallega út af því, að hv. 2. landsk. vill enn gera aðstöðu mína í fjhn. að umræðuefni, sem ég vil segja nokkur orð. Hann segist vera hissa á mér að vera með krókaleiðir, og segir, að það sé óvanalegt. Ég þakka fyrir hrósið, að slíkt sé óvanalegt af mér, en veit ekki, hvað hann á við. Ég vil segja, að það kemur mér kynlega fyrir sjónir, ef hann veit betur en ég, hvað ég hefi meint í nefndinni. Það kom ekki til með annað en að bera þetta frv. fram og afgreiða það, en ekki hitt frumv. Ég ályktaði, að um þetta meginatriði væri n. sammála, en hinsvegar gat ég þess, að hinir nm. gætu sagt fyrir sig. Ég býst við, að þetta sé út af þeim nefndarmanninum, sem ekki er hér viðstaddur. Ég skal ekki fullyrða um það, hvernig hann hefði snúizt við þeim brtt., sem hér liggja fyrir. En heldur ekki frá honum kom ósk um breytingu. Ég get ekki fallizt á það, að hægt sé að líkja þessu skattfrelsi við það, þó happdrættisvinningar séu skattfrjálsir árið sem þeir vinnast, og ekki heldur getur það talizt hliðstætt l. um skattgreiðslu útgerðarfyrirtækja. Það lágu allt aðrar ástæður þar fyrir en hér. Hv. 1. landsk. spurði, hvers vegna n. væri þá að leggja þetta frv. fram, þegar a. m. k. ég teldi þetta vera vafasamt fordæmi, sem hér væri gefið. Ég þóttist svara þessari spurningu í minni fyrstu ræðu. N. féllst á að flytja þetta frv. sökum þess, að hún leit á það sem skuldbindingu ríkisstj., að þetta fengist fram og að allir aðilar treystu því, að svo yrði og að litið mundi á það sem einskonar samningsrof, ef samkomulagið yrði ekki haldið. Ef ég hefði átt að fjalla um þetta mál, hefði ég verið á móti því, að um nokkurt skattfrelsi væri að ræða, hefði heldur viljað, að uppbótin sjálf yrði hærri, og það, sem fyrir mér vakir, er það, að undir öllum kringumstæðum eigi að ríkja jafnrétti í skattaálögum. Þó á einhverjum tíma megi segja, að einhver stétt sé nauðsynlegri en önnur og vinni meiri störf, má ekki segja, að ein stétt eigi að greiða skatta og önnur eigi ekki að greiða skatta. Það á að að fara eftir því, hve tekjurnar eru miklar.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en komi fleiri slík mál fram, fá menn sjálfsagt að sjá í framtíðinni, hvað af slíku leiðir. Enginn vafi er á því, að hægt er að halda því fram um margar stéttir, og þar á meðal sjómannastéttina, að þær séu svo nauðsynlegar, að þær eigi allt gott skilið, en ef farið er að metast um það, lízt mér ekki á okkar skattakerfl. En þar sem báðir þessir þm. hafa talað í þeim tón, að við værum á móti því, að farmenn fengju þessa uppbót fyrir sína áhættu, vil ég mótmæla því.