09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Fjmrh. (Jakob Möller) :

Ég vil aðeins geta þess, að þótt frv. þetta sé flutt að tilhlutun minni, vegna þess að skattamál heyra undir það ráðuneyti, þá hefi ég lítil afskipti haft af undirbúningi þess önnur en þau, að ég hefi gengið inn á það fyrir fjmrn. að mæla með því við hv. þm., að frv. verði samþ. Hæstv. atvmrh. hefir haft með þessa samninga að gera, en þegar ríkisstj. gerir samninga, er snerta hag ríkissjóðs, er það sjálfsögð skylda hennar að komast að sem beztum samningum fyrir hans hönd, og því verður ríkisstj. að líta á mál þetta frá því sjónarmiði. Hinsvegar þótti rétt að mæla með því, að helmingur áhættuþóknunarinnar væri undanþeginn skatti, með því líka að tekjur þessara manna hafa verið rýrar að undanförnu og gera má ráð fyrir, að skattar verði hærri á næsta ári en verið hefir. Þótti því sanngjarnt, að áhættuþóknunin kæmi ekki að öllu leyti til skatts.

Annars verð ég að segja, að mér þykja leiðinleg þau yfirboð, sem komið hafa fram í þessu máli hjá sumum hv. þm. Það er auðvelt að slá á viðkvæma strengi og kannske vel til þess fallið að koma sér í mjúkinn hjá þessari stétt, sem hér á hlut að máli, en mér geðjast ekki að því og legg því til, að frv. verði samþ. óbreytt.