09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Eins og hæstv. fjmrh. skýrði frá, er ósk sjómanna um þessa skattaívilnun flutt inn í ríkisstj. fyrir mína tilstilli. Drög þessa máls eru þau, að eftir að ófriðurinn brauzt út, risu upp þær eðlilegu kröfur sjómanna, að fá kauphækkun, með svipuðum hætti og sjómenn annara þjóða. Það varð mitt hlutskipti að gerast milligöngumaður milli sjómanna og Eimskipafélags Íslands, þegar fyrstu samningarnir voru gerðir um þessa kauphækkun, að mig minnir þ. 9. sept. síðastl.

Enda þótt ég viðurkenni, að orkað geti tvímælis, hver sé gjaldgeta, ekki einungis þessara skipafélaga og útgerðarfélaga, heldur ísl. þjóðarinnar í þessu efni, fannst mér samt, að þar til annað reyndist, yrðum við Íslendingar að gera okkar ýtrasta til þess að greiða okkar sjómönnum ekki minna en aðrar þjóðir.

Mín afstaða til málsins er sú, að ég gerði till. um það, að þetta kaup verði greitt samkv. kröfum sjómanna, og gengizt hefir verið inn á af stjórn Eimskipafélagsins að athuga málið. Eftir að þessir samningar voru gerðir, hafa einnig verið gerðir samningar milli togaraútgerðarmanna og sjómanna. Það eru í sjálfu sér nokkuð hæpin fríðindi að fá fullnægt þessum kröfum, sem ná hámarki með 250% uppbót, þegar athugað er, hvað mikið þarf til að greiða bæjar- og sveitarfélögum sinn skatt. Það er ekki nema eðlilegt, að sjómenn, sem fá hækkuð laun sín, verði að greiða nokkuð mikinn skatt til hins opinbera. Ég undirstrika það, að eftir skattalöggjöfinni kemur tekjuskattur og útsvar til frádráttað annað árið. Við umr., sem ríkisstj. átti sín á milli um þessi mál, kom í ljós, að allir ráðh. töldu sjálfsagt að verða við þessum kröfum að einhverju leyti. Ég bar fram uppástungu um lausn á málinu. Okkur kom saman um að biðja skattstjóra um að skýra, hvernig þessum málum myndi bezt hagað. Skattstjóri kom með allar þær skýringar okkur til handa, sem leiddu til þess, að ríkisstj. tók þá ákvörðun, sem að stóðu allir ráðh., en þeir óskuðu þó að ganga lengra og bera fram þessa till. um, að helmingur áhættuþóknunar mætti vera skattfrjáls. Nú sé ég, að einstakir þm., eins og á sínum tíma í Ed., bera fram brtt., þó ég væni þá ekki um illan hug til þessara mála.

Ég veit ekki, hvort þessir menn hafa gert sér grein fyrir því, að hér eru þús. sjómanna, og það er því ekki lítil heildarupphæð, sem hér kemur til greina. Ég veit ekki, hvort þessir menn hafa gert sér grein fyrir því, að hér er um að ræða hækkun á tekjum sjómanna, sem nemur 12½ þús. kr. á ári. Svo kemur spurningin: Er ástæða til þess að ganga lengra í þessum efnum en ríkisstj. hefir þegar gert með sínu frv.? Hinu ætla ég ekki að mæla á móti, að vitanlega væri æskilegra að geta veitt þessum mönnum slík verðlaun sem hér er farið fram á. Það er ekki nema eðlilegt, að sjómenn óski eftir sem hæstu kaupi, en þó efast ég um, að þeir vilji halda þessu máll stíflega fram, meðan þeir vita, að ekki hefir verið hægt að hækka kaup alls almennings í landinu. Ég dreg það a. m. k. í efa. Ég veit það, að aðrar þjóðir úti um heiminn telja sig hafa verið neyddar til að skammta sínum mönnum kaup, eins og við höfum gert, en ég veit ekki til, að ein einasta þjóð hafi skammtað þann viðbótarskammt, sem við höfum gert meðal okkar sjómanna, að undanþiggja tekjur þeirra skattaálagningu. Ef við, sem erum fæstir og fátækastir, teljum okkur fært að ganga lengra en stórþjóðirnar í þessum efnum, þá fyndist mér réttlátt að láta það ganga jafnt yfir alla þegna þjóðfélagsins. Ég er þess vegna fullkomlega andvígur þessari till. hv. þm. V.-Ísf. og hv. 6. þm. Reykv. og vænti þess, að hún verði felld.