09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. 6. þm. Reykv. hefir fært fram nokkur atriði til þess að mæla með brtt. þeirra félaga, sem mér skildist þó, að væru aðallega tilfinningalegs eðlis. Ég býst við, að það sé enginn þm., sem ekki ber bezta hug til sjómanna vorra nú. Á því tel ég engan vafa. Hitt efa ég, hvort ekki er hægt að ganga of langt í sérstökum fríðindum þeim til handa. Það hygg ég, að geti verið um að ræða hér. Hv. 6. þm. Reykv. telur sér skylt að líta sérstaklega á hag kjósenda sinna, en hann verður bara að gæta að því, að sjómenn eru ekki nema lítill hluti af hans kjósendum. Honum ber líka að hugsa um fjölda manna, sem enga kauphækkun hafa fengið þrátt fyrir geysimikla og vaxandi dýrtíð. Á ég þar meðal annars við fátæka verkamenn og atvinnulitla, sem enga kauphækkun hafa fengið enn á sínum rýru tekjum. En sjómenn hafa hinsvegar fengið allt að 250% kauphækkun, sem auk þess hefir verið undanþegin útsvari og öðrum skattskyldum. Er það þá rétt að auka enn þessi fríðindi, en láta hina, sem enga kauphækkun hafa fengið, bera aukin útgjöld í útsvörum og skattgreiðslum, vegna þess að létt hefir verið á þeim, sem mesta kauphækkun hafa fengið?

Þá vil ég einnig benda á það, að það er ekki heppilegt fyrir þingið að gefa það fordæmi. sem það gæfi með samþykkt slíkrar tillögu sem hér ræðir um. Það sýndi þá, að því væri ekkert áhugamál, að ríkisstjórnin gerði sem hagkvæmasta samninga fyrir atvinnulífið og félagsheildina heldur ætti hún jafnan að láta undan hinum fyllstu kröfum, sem á það væri gert. Að sjálfsögðu hafa þeir ráðh. tveir, atvmrh. og fjmrh., lýst yfir því, að þeirra afstaða er á móti þeirri brtt., sem hér er borin fram. Hinsvegar hefir ráðh. Alþfl., félmrh., ekki gefið neina yfirlýsingu um það, hver sé hans vilji í þessu máli. Ég vil mælast til þess, að hæstv. atvmrh. og hæstv. félmrh., sem jafnframt eru formenn í flokkum sinum, gefi upplýsingar um, hver sé afstaða þeirra flokka um þetta. Ég hygg, að þm. Framsfl. álíti sig ekki neitt bundna við samningagerðir ríkisstj. Ég sé enga ástæðu til, að Framsfl. einn gangi í að styðja stjórnina að málum, sem eru sérstaklega óvinsæl meðal margra. Og hv. flm. till. þurfa ekki að halda, að þeir vinni till. sinni fylgi með því að slá á tilfinningar manna, a. m. k. hygg ég, að það verði ekki vænlegt til atkvæðafylgis innan Framsfl. Mér finnst það satt að segja einkennileg aðferð í fjármálum, sem hv. 6. þm. Reykv. mælir með, þegar á að undanþiggja stríðsáhættuþóknunina með öllu frá skattalöggjöfinni. Hvar myndi það lenda, ef undanþágum þessum yrði beitt viðar, á öðrum sviðum? Hvað myndu menn segja, ef ætti að undanþiggja samvinnufélögin skatti, eða ef bændur fengju undanþágu um að greiða útsvör sín? Þannig má rekja þetta á marga lund, en allir sjá, hvert stefnir, ef einu sinni er lagt út á þessa braut. Þessi brtt. um að undanþiggja stríðsáhættuþóknunina skatti er ekkert annað en aumleg tilraun til að koma sér í mjúkinn hjá vissum stéttum þjóðfélagsins. Og hv. 6. þm. Reykv. hefir aldrei dottið í hug, að þessi brtt. hans myndi nokkurn tíma verða samþ.

Hann ber fram till. í trausti þess, að hún verði felld í fjhn. og í þinginu og kærir sig kollóttan um það, þótt samþykkt till. hans yrði til þess, að brotnir væru samningar, sem hans eigin ráðh. hefir gert.

Ég vil svo ekki orðlengja þetta frekar, en vil sem sagt mælast til þess, að hæstv. félmrh. og hæstv. atvmrh. gæfu yfirlýsingu um það, hver sé afstaða flokka þeirra til þessa máls.