08.12.1939
Efri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

66. mál, laxveiði í Nikulásarkeri

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Áður en þetta frv. fer til 2. umr., vildi ég mega spyrjast fyrir um, hver sé tilgangur þess. Mér virðist engin ástæða til að afnema þessi l. í því skyni að fá heimild til að veiða á þessum stað, því að þótt þessi l. verði afnumin, þá verður veiði þarna eftir sem áður óheimil samkvæmt laxveiðilögunum, því að þetta ker liggur aðallega þar, sem laxinn gengur, og það liggur innan þeirra 50 metra frá fossi, þar sem er óheimilt að veiða samkvæmt núverandi l. Þessi l., sem hér á að afnema, eru sett 1928, eða áður en laxveiðilögin. Ég vil því mælast til að fá skýringu á, í hvaða skyni á að afnema þessi l.