11.12.1939
Neðri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

151. mál, ábúðarlög

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Ég get nú ekki talið upp allar þær ástæður, sem kunna að liggja til grundvallar fyrir því, að jarðir eru ekki leigðar til ábúðar. En það er vitanlegt, að þetta er svona. Það hafa komið kvartanir úr Húnavatnssýslu og ég hygg, að hv. þm. Borgf. geti skýrt frá samskonar tilfellum í hans héraði.

Það er vitanlega hægt að hugsa sér, að hægt sé um nokkurt árabil að hafa meira upp úr jörð á annan hátt en þann að byggja hana, t. d. með því að leigja ýmsar jarðnytjar. En slíkt getur orðið mikið tjón og hætta fyrir það sveitarfélag, þar sem jörðin liggur. Eins og ég sagði áðan, þá er það oft þannig, að ef ein jörð leggst i eyði, þá er ekki hægt að halda næstu jörðum í byggð.

Okkur í landbn. hefir borizt beiðni um að flytja þetta frv., og ég skal geta þess, sem ég gleymdi áðan, að aðalatriði þessa frv. eru flutt að tilhlutun nefndar, sem Búnaðarfélag Íslands skipaði í fyrra til þess að athuga og endurskoða ýms ákvæði búnaðarlaganna. Þessi nefnd óskaði eftir því, að landn. tæki þetta frv. til flutnings.