11.12.1939
Neðri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

151. mál, ábúðarlög

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Ég skil að sjálfsögðu, að það geti verið hættulegt og erfitt fyrir þá, sem eftir sitja, ef margar jarðir leggjast í eyði. Hitt er mér ekki alveg eins ljóst, hvernig menn hugsa sér, að þessi ákvæði, sem hér er farið fram á að lögfesta, geti lagfært þetta.

Hv. þm. benti á, að það gæti staðið svo á, að það mætti hafa meira upp úr jörð með því að selja hana ekki á leigu til þess að þar sé búið. Þá er með þessu verið að taka rétt af eigandanum, sem honum er einhvers virði. Það getur orðið þannig, að hann hafi minna upp úr jörð sinni, ef þessi ákvæði eru sett.

Ég vil nú samt ekki fullyrða, að það sé óforsvaranlegt að setja slíka löggjöf. En það koma ýmsar spurningar upp í því sambandi. Það er með þessu verið að takmarka umráðarétt jarðeigenda á jörðum sínum. Það getur náttúrlega verið, að heill almennings krefjist þess. En sé jarðeiganda meinað að hafa eins mikið upp úr jörð sinni og hann getur, þá finnst mér, að hann eigi rétt á bótum.

Mér finnst því, að enn hafi ég ekki fengið nægilega greinargerð fyrir málinu. Þó mér sé það ljóst, að það sé nauðsynlegt fyrir sveitina eða hreppinn, að allar jarðir séu setnar, þá er samt eftir spurningin um það, hvort jarðeigandi á ekki einhverjar bætur hjá því opinbera, ef þessi réttindi eru tekin af honum, að hafa eins mikið upp úr jörð sinni og hann getur. Hvernig á að sjá fyrir þessu atriði? Eða eru hv. dm. sammála um, þó þarna sé verið að skerða stórkostlega réttindi þessara jarðeigenda, að það sé ekki bótaskylt?