11.12.1939
Neðri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

151. mál, ábúðarlög

*Þorsteinn Briem:

Ég vildi bæta við einni fyrirspurn til hv. landbn. um það, hvort skilja eigi l. svo, að þetta eigi einnig við gamlar eyðijarðir, og ef svo er, hvort þessi regla eigi að gilda jafnt, hvað lengi sem jarðirnar hafa verið í eyði. Mér skilst, að til þess að taka af allan vafa, þá sé rétt, að þetta atriði sé athugað.

Það hefir komið fram fyrirspurn um það, hvernig á því standi, að landsdrottinn vilji í einstökum tilfellum heldur láta jörð sína vera í eyði en að byggja hana. Það er vitanlegt, að þar geta í einstökum tilfellum ráðið eigin hagsmunir, og ég er að sjálfsögðu því fylgjandi, að sett séu ákvæði til þess að koma í veg fyrir það. Það verður að teljast, að réttur sveitarfélagsins sé þá hærri en réttur hins einstaka jarðeiganda.

En þó ætla ég, að þetta sé ekki alveg fullnægjandi. Ég get hugsað mér, að landsdrottinn eigi jörð, sem svo lítilfjörleg hús séu á, að ekki sé hægt að leigja hana, nema ráðist sé í húsabætur á jörðinni. Nú gelur það verið þannig, að landsdrottinn treysti sér ekki til að byggja upp á jörðinni og neyðist því til að láta hana falla í eyði. (BÁ: Hann getur boðið hana til sölu). Það stendur ekki í frvgr., að hann geti leyst sig undan sektum með því að bjóða jörð sína til sölu. Og einmitt þess vegna vil ég gera þann fyrirvara, er ég nú mun greiða atkv. með þessu frv., að ég lít svo á, að ákvæði 18. gr. ábúðarlaganna (sbr. og 44. gr. sömu laga) verði sem hliðstæð lagaákvæði einnig að taka til þeirra jarðeigenda, er hér ræðir um. Verð ég þá að telja, að eigendur eyðijarða hafi þá vernd, sem sanngjörn geti talizt.