11.12.1939
Neðri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

151. mál, ábúðarlög

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Ég get nú ekki verið sammála hv. 4. þm. Reykv., að það sé spor í þá átt, að ekki verði búandi á jörðunum, þó sett verði ákvæði um það, að á þeim skuli vera sæmilegar byggingar. Hitt getur verið rétt, sem hv. þm. Dal. (ÞBr) benti á, að margir jarðeigendur láta heldur jarðirnar standa óbyggðar en að liggja undir byggingarskyldu. Ég lít nú svo á, að þeir menn, sem ekki megna að byggja upp á jörðum sínum, hafi ekkert við það að gera að vera jarðeigendur. Jarðeigandi, sem ekki vill nytja jörð sína sjálfur, verður að taka á sig þá skyldu, að hýsa hana svo, að á henni sé búandi fyrir hvíta menn; annars ætti hann að verja peningum sínum á annan hátt.

Landbn. hefir ekki séð ástæðu til þess að setja ákvæði um bótaskyldu í frv. þeim til handa, er láta af hendi jarðir á þennan hátt. Mönnum er fyrst og fremst í sjálfsvald sett, hvort þeir vilja selja jörðina; þeir geta búið á henni sjálfir eða leigt hana öðrum, en láti þeir allt þetta undir höfuð leggjast, er mál til komið að veita sveitarstjórn vald til þess að taka af þeim ráðin og koma jörðinni í góða ábúð.

Ég get tekið undir ummæli hv. þm. Dal., að réttur sveitarfélagsins og þjóðfélagsins verður að vera ríkari en réttur einstaklingsins til þess að eiga framleiðslutækin, ef hann er ekki fær um að nota þau vel. Og þó að talið væri gengið á rétt manns, sem teldi sér hag í að byggja ekki, má benda á það, að hann eignast á þann hátt nokkra aura, en kastar krónunni fyrir framtíðina, þar sem jarðirnar ganga fljótlega úr sér, þegar þær eru ekki nytjaðar. Hans hagsmunum er því betur borgið með þessari ráðstöfun.

Það eru margvíslegar kvaðir, sem lagðar eru á jarðeigendur og aðra í þessu landi; það er t. d. bannað að rífa hrís og ganga á skóg, nema eftir ákveðnum fyrirmælum. Þetta er gert til þess að vernda jörðina og án þess að ætla bætur fyrir. Þetta er hliðstætt dæmi.

Viðvíkjandi aths. hv. 8. landsk. (EE) vil ég geta þess, að með ákvæði þessu er ekki átt við landspildur eða hjáleigur, sem ekki hafa verið býli. Ég álít, að það nái t. d. ekki til Sölvholtsengjanna, svo að ég taki dæmi, sem við þekkjum báðir.

Ég læt svo útrætt um þetta mál.