16.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

151. mál, ábúðarlög

*Frsm. (Erlendur Þorsteinsson) :

Herra forseti! N. hefir haft þetta frv. til meðferðar og samþ. að mæla með, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. Frv. felur það aðallega í sér að setja nokkru þyngri viðurlög við því, ef jarðareigandi vill ekki byggja jörð sína. Það er hert á ákvæðunum, sem gera honum skylt að bjóða sveitarstjórn að ráðstafa ábúð á jörðinni. Í l. frá 1933 voru engin viðurlög við, ef út af þessu var brugðið, og þótti jafnvel á því brydda, að nokkrir menn, sem jarðir eiga, hafa ekki viljað gera þær ráðstafanir, sem ætlazt er til. Í b-lið 1. gr. er gert ráð fyrir, að ef þessi ákvæði verða brotin, skuli fara með þau sem almenn lögreglumál. Er það gert til að flýta fyrir rannsókn og afgreiðslu þeirra mála, sem út af þessu kunna að rísa.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., ég veit, að hv. d. mun fallast á, að þetta er sjálfsögð breyt.